21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir lét falla hér áðan, þegar hún talaði um að ég hefði fyrr í dag haft af því miklar áhyggjur hversu um yrði að ræða óhemjumikið fjármagn sem mundi leiða af því, ef hennar frv. yrði staðfest varðandi afnám skerðingarákvæða í atvinnuleysisbótagreiðslum. Og hún benti réttilega á að ég hefði haft áhyggjur af því 1975 að bæta þessum bagga á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er rétt, ég hafði af því áhyggjur þá að bæta þessum bagga á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er eigi að síður staðreynd í dag, að þetta hvílir á Atvinnuleysistryggingasjóði, og við það á að standa, án skerðinga að því er varðar fæðingarorlofið. En í dag, þegar ég var að tala um þau ummæli, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson hafði hér, að það væri ekki óendanlega hægt að bæta böggum á Atvinnuleysistryggingasjóð, það er alveg rétt, þá spurði ég bara í áframhaldi af því mati sem ég er honum sammála um, að það er ekki hægt að bæta óendanlega á Atvinnuleysistryggingasjóð: hvað mundi það þýða í auknum útgjöldum hjá Atvinnuleysistryggingasjóði nú ef þessi skerðingarákvæði yrðu afnumin algjörlega, ekki bara varðandi fæðingarorlofið, heldur og hitt líka, varðandi atvinnuleysistryggingabætur? (Gripið fram í.) Já, sjálfsagt geta menn gert sér einhverjar hugmyndir, en enginn vafi er á því og við getum verið sammála um að það eykur baggann, það hlýtur að gera það. Það getur verið ósvarað þeirri spurningu hversu mikið það verður eða hversu miklar fjárhæðir þar er um að ræða? En ég held að það sé augljóst mál, að ef menn hafa áhyggjur af stöðu sjóðsins eins og hún er í dag — (Gripið fram í.) Alls ekki. Ég hef lýst því yfir að ég teldi sjálfsagt að afnema skerðinguna. En þeir, sem bera miklar áhyggjur af því að staða sjóðsins sé í hættu fjárhagslega séð, hljóta jafnframt að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað þetta þýddi í auknum útgjöldum hjá sjóðnum.

Hv. þm. sagði líka að ég hefði kunnað ráð við þessu 1975, þá hefði ég staðið að flutningi brtt. um að gera hlut atvinnurekenda í greiðslum til sjóðsins stærri. Það breytir í sjálfu sér ekki miklu þó að ég og hv. þm. sitt í hvoru lagi eða saman stæðum að flutningi slíkrar till., — það segir lítið í því raunverulega að bæta stöðu sjóðsins ef ekki er meiri hl. fyrir því í þinginu. Það segir ákaflega lítið þó að svo vel vildi nú til að við gætum orðið um það sammála að flytja slíka brtt. Það er auðvitað atriði sem menn verða að horfast í augu við. Það þýðir ekki að loka endalaust augunum. Menn geta gert það kannske um einhvern takmarkaðan tíma sjálfum sér til fróunar, en að endingu verða menn að horfast í augu við staðreyndir.

Það, sem ég var að tala um í dag, var fyrst og fremst þetta, að ef staða sjóðsins er í hættu gagnvart fæðingarorlofinu, eins og það var á hann lagt, þá hlýtur sú hætta að aukast við það að bæta enn frekari böggum þar á. Það held ég að allir hljóti að vera sammála um.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa — (Gripið fram í.) Ja, nú er hv. þm. farinn að taka upp á því sem ég hélt að hann ætlaði að forðast: að leggja öðrum orð í munn. Hann var síðast í kvöld í raun og veru að setja ofan í við okkur, mig og hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, fyrir hvað við höfðum í orði hér í dag. (Gripið fram í.) Það er hans mat, og ég ætlaði ekki að fara út í þær umr., nema ef hv. þm. vill gera það, þá er ég til þess reiðubúinn. Ég ætlaði ekki að taka það upp hér. En ef hv. þm. Eðvarð Sigurðsson taldi 1975 að hér væri verið að setja, með fæðingarorlofinu, bagga á Atvinnuleysistryggingasjóð sem hann réði ekki við, þá hlýtur hann að vera sömu skoðunar nú. Eftir þeim upplýsingum sem liggja fyrir að því er varðar hugmyndir sjóðsstjórnar um árið 1977, þó við förum ekki lengra, þá er allt sem bendir til þess að mati sjóðsstjórnar að það verði um greiðsluhalla að ræða. Og ef eitthvað annað kæmi enn frekar til útgjalda, þá er staðan enn verri. Ég er ekki að segja að þetta sé endilega rétt. Ég skal ekkert um það dæma hvort þessi áætlun kæmi til með að standast eða ekki. (Gripið fram í.) Já, þetta er auðvitað rétt ályktun. Ég skal ekkert um það dæma hvort er hægt að gera ráð fyrir því að þessi áætlun standist eða standist ekki, ég þori enga dóma að kveða upp þar um. En ég heyri að ýmsir hv. þm. eru á annarri skoðun, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Hann taldi að staða sjóðsins yrði talsvert betri en hugmyndir sjóðsstjórnar gera ráð fyrir. En hvað sem um það er, hvað sem er bætt á sjóðinn frá því sem er, það hlýtur að veikja stöðu hans. Það held ég að sé alveg ljóst.