24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2836 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

199. mál, virkjun Blöndu

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins til viðbótar upplýsa það, að síðasti fundur fjvn., þar sem hún afgreiddi frá sér till. sínar um vegáætlun til þingmannahópanna, var haldinn fyrir hádegi í morgun. Það var óskað eftir því við þingmannahópana að þeir tækju þær till. til meðferðar og skiluðu till. sínum um skiptingu vegafjár á einstök framkvæmdaverkefni í kjördæmum fyrir daginn á morgun. Samkv. þessu, vilji menn ekki rjúfa störf þingsins, er eini tíminn sem kjördæmishóparnir hafa haft til þessa verkefnis, sem þeim er falið, tíminn eftir að hinum eðlilega þingfundatíma lýkur, eftir kl. 4. En menn verða þá að taka því að geta ekki sinnt þeim verkefnum sem skyldi, ef þeir hafa áhuga á að taka til máls um þetta frv. Ég hlýt þá að vera mun stuttorðari um þetta mál heldur en ég hafði ætlað mér í upphafi að vera. En látum það vera. E. t. v. er ástæðan sú að knýja þetta mál svo hratt áfram, að það sé gert jafnvel þó að vitað sé að þorri þm. geti ekki verið viðstaddur hvað sem áhuga þeirra á málinu líður.

Ég heyrði því miður ekki ræðu hv. þm. sem talaði hér síðastur. Hins vegar heyrði ég ræðu hv. þm. Páls Péturssonar og hlustaði á hana með athygli. Vegna þeirrar ræðu kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á að frv. þetta til l. um virkjun Blöndu er prentað sem stjfrv., þ. e. a. s. það er væntanlega lagt fram sem frv. er nýtur stuðnings ríkisstj. og hefur þá væntanlega samkv. venju verið um það fjallað á fundum þeirra þingflokka, sem styðja þá ríkisstj., og samþykkt að þeir þingflokkar stæðu að þessu máli. Það kom hins vegar fram í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar, að a. m. k. hann og sennilega annar hans flokksbróðir eru andvígir þessu frv. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvort það sé engu að síður rétt, að hér sé um að ræða frv. sem ríkisstj. öll stendur að og hefur verið rætt í stjórnarflokkunum báðum, þingflokkum þeirra, og samþ.ríkisstj. og stjórnarflokkarnir styðji. Ég held að menn komist ekki hjá því að spyrja þessara spurninga og fá svar við því, hvort þetta mál er flutt með einhverjum afbrigðilegum hætti eða hvort hér er um að ræða venjulegt stjfrv. sem ríkisstj. sem heild og báðir stuðningsflokkar hennar standa að. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það komi hér fram.

Að öðru leyti vil ég segja um þetta mál í mjög fáum orðum, að það má vel vera, ég efa það ekki, að virkjun Blöndu eins og hér er lagt til að gerð verði kann að vera hagkvæm virkjun, kann að vera þörf virkjun út af fyrir sig. En ég held hins vegar að eins og ástandið er nú í orkumálum okkar íslendinga, þá sé raunar um að ræða mál sem alls ekki er tímabært á nokkurn hátt að Alþ. fjalli um eða taki afstöðu til á þessu þingi eða næstu þingum. Ég vil vara mjög eindregið við því, sem virðist vera skoðun allt of margra, að allar framkvæmdir hljóti að vera góðar vegna þess að annaðhvort skapi þær atvinnu ellegar einhvern tíma sé þörf fyrir þær. Við verðum einnig að huga að því, hvað þessar framkvæmdir kosta okkur og hvaða þörf er á að þær séu unnar eða hvort hægt sé að nota peninga skattborgaranna til einhverra betri framkvæmda heldur en þessara. Það er a. m. k. ekki seinna vænna að kveðja það viðhorf sem Alþ. hefur verið álasað fyrir, að allar framkvæmdir hljóti að vera af hinu góða, hvers eðlis svo sem þær framkvæmdir eru. Ég held að flestir hv. alþm. séu nú þegar búnir að reka sig óþyrmilegar á afleiðingarnar af slíkum hugsunarhætti.

Ég vil aðeins drepa á það sem áður hefur oft komið hér fram, að einn megingalli á ráðstöfunum Alþ. í sambandi við virkjanamál er að Alþ. er raunar aldrei nema hálfsögð sagan af þeim framkvæmdum sem þingið er beðið um að samþykkja. Að sjálfsögðu, þegar um er að ræða jafnstórkostlega framkvæmd og t. d. stórvirkjun á borð við Blöndu, ættu að fylgja till. um slíka framkvæmd áætlanir um hvernig á að nota þessa virkjun, hvernig á að nýta þá orku, sem slík virkjun á að framleiða, og hver sé líklegt að verði rekstrarafkoma þessa stórfyrirtækis á þeim árum sem næst verða eftir að fyrirtækið hefur tekið til starfa. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að a. m. k. svo langt aftur sem ég man hafa slíkar áætlanir aldrei birst. Hverjar hafa afleiðingarnar orðið? Afleiðingarnar hafa t. d. orðið þær, að virkjanir hafa verið byggðar án þess að Alþ. hafi í upphafi markað nokkra stefnu um hvernig eigi að nýta þá orku sem þessar virkjanir eiga að framleiða. Má vera að einhverjir aðrir aðilar hafi einhverjar hugmyndir uppi um slíka hluti, en engin slík áætlun hefur verið lögð fyrir Alþ. jafnhliða heildarfrv. um þessar virkjanir, og Alþ. sjálft hefur aldrei mér vitanlega mótað stefnu þar um jafnhliða því sem Alþ. hefur samþ. heimildarlöggjöf um þessar virkjanir. Og hverjar eru svo afleiðingarnar? Afleiðingarnar blasa við nú. Þær eru m. a. á þá lund, að t. d. hér á Landsvirkjunarsvæðinu verður á næstunni mikið offramboð á mjög ódýrri og hagkvæmri raforku, sem a. m. k. að sögn okkar fróðustu manna er útilokað að koma í sölu öðruvísi en að semja um sölu á þessari umframorku til erlendra aðila. Á sama tíma og þetta gerist, á sama tíma og við verðum að velja erlendan viðsemjanda sem orkukaupanda á elleftu stundu, þá eru heilir landshlutar þar sem raforkuskortur er ríkjandi og landsmenn á þeim svæðum neyðast til að kaupa dýrustu raforku sem unnt er að framleiða í landinu. Á sama tíma og við hér á Landsvirkjunarsvæðinu erum neyddir til að selja þá hagkvæmustu raforku, sem við getum unnið, til erlendra aðila til þess að standa undir virkjunarkostnaði, þá verða landsmenn í öðrum landshlutum, þar sem raforkuskortur er, að sætta sig við að fá þörfum sínum að nokkru leyti fullnægt með dýrustu raforku sem hægt er að framleiða. Það má raunar segja, að í þessu máli sé þm. stillt með bakið upp að vegg og þeir eiga raunar einskis annars úrkost heldur en að taka kost sem þeim ella væri e. t. v. ekki hugstæður. Þetta er bein afleiðing af þeirri vanrækslu þeirra manna, sem með þessi mál fara, samhliða því að frv. um heimildarlög um virkjanir eru lögð fram, að leggja þá fram áætlun um hvernig eigi að nýta þá orku sem virkjunin á að framleiða og hvernig eigi að standa undir kostnaði við rekstur virkjunarinnar. Þetta verður að sjálfsögðu að gerast í hvert skipti sem slíkt frv. er lagt fram, og ég fæ ekki skilið að menn séu svo blindir eftir allt sem á undan er gengið að þeir hafi ekki komið auga á þetta.

En það virðist því miður alls ekki vera, því miður, vil ég segja, ekki aðeins fyrir Alþ., ekki aðeins fyrir ríkisstj., heldur fyrir þjóðina sem þarf að borga kostnaðinn sem af þessu hlýst. A. m. k. veit ég ekki til þess, að í nokkru landi eða í nokkru fyrirtæki eða hjá nokkrum aðila, sem fer með fjármál, annaðhvort eigin eða annarra, geti það gerst, að á 7 eða 8 síðum sé lagt til án sérstaks rökstuðnings að örfáum mönnum sé fengin heimild til þess að leggja í framkvæmd upp á tæplega 15 þús. millj. kr., án þess að sagt sé með einu aukateknu orði hvernig nota eigi þá framleiðslu sem fæst fyrir þetta fé þegar það verður lagt fram á sínum tíma eða hver verði rekstrargrundvöllur þess fyrirtækis sem fyrir þetta mikla fé á að byggja. Mér finnst það algerlega fráleitt og lýsa fráleitum barnaskap og algeru ábyrgðarleysi í fjármálum þjóðarinnar að ætla að láta það henda sig, eftir allt sem á undan er gengið, að syngja enn þennan sama söng, að láta sér detta það í hug, eins og ástandið er nú í orkumálum okkar íslendinga, að fá Alþ. til þess að samþykkja það vafningalaust að skrifa upp á óútfylltan víxil fyrir hæstv. ríkisstj. upp á 15000 millj. kr., sem hún á síðan að fá að ráðstafa eftir geðþótta til að byggja framleiðslufyrirtæki án þess að till. fylgi svo mikið sem stafkrókur um hver yrði niðurstaðan af öllu fyrirtækinu, fyrir hvern það á að framleiða, hversu mikið hver á að kaupa og hver á að standa undir rekstrarkostnaði.

Ég held að þetta sé einsdæmi í allri sögu siðmenntaðra þjóða, að svona plagg skuli vera lagt fram. En þetta hefur að vísu gerst áður hér á Íslandi, hér er þetta ekkert einsdæmi. En ég hélt að þeirri sögu væri nú lokið eftir allt sem á undan hefur gengið. Og að hugsa sér það t. d. í virkjunarmálum okkar íslendinga, ef maður flettir upp á bls. 7 í þessu ágæta frv. hér, fskj. H: Virkjun Blöndu 135 mw., að þar er í 20 línum eða svo — kannske eru þær 25 — taldar upp nokkrar tölur, niðurstöðutala 14.84 milljarðar kr. Á svona tölum, einu svona blaði, 20 línum, er fólginn allur útreikningur sem gerður hefur verið á rekstraraðstöðu og hagkvæmni virkjunar við Kröflu. Það, sem fram kemur á bls. 7 í nokkrum línum, er hliðstætt öllum þeim útreikningum sem gerðir hafa verið öll þau ár sem Kröfluframkvæmdirnar hafa staðið yfir. Öðruvísi en svona er ekki rökstuðningurinn fyrir Kröflu. Það, sem hér kemur fram eða sambærilegar tölur og hér koma fram, sambærileg áætlun og hér er á einni síðu er í senn forsenda fyrir gerð Kröfluvirkjunar og einnig forsenda fyrir rekstri hennar, — allir þeir útreikningar og allar þær spár sem hv. Kröflunefnd og hennar sérfræðingar hafa gert um þetta mikla mannvirki, og nú á að nota sams konar aðferðir til þess að réttlæta virkjun Blöndu.

Við skulum aðeins hugleiða hvað hér er í húfi. Hafa menn t. d. gert sér grein fyrir því að fjármunir þeir, sem í húfi eru við Kröfluvirkjun og betri og vandaðri vinnubrögð en þessi standa ekki á bak við, — fjármunir þeir, sem þar eru í húfi, eru í krónutölu fjórum sinnum hærri upphæð en sú upphæð sem nam þeim skaða er af varð í gosinu í Vestmannaeyjum? Hafa menn gert sér það í hugarlund eða gert sér grein fyrir því að þeir fjármunir íslensku þjóðarinnar, sem eru í húfi við Kröfluvirkjun, eru í raunverulegum verðmætum sem samsvarar tvöföldu því tjóni, sem varð í hamförunum í Vestmannaeyjum? (Iðnrh.: Má ég vekja athygli hv. þm. á því, að þetta er frv. um virkjun Blöndu en ekki Kröflu?) Vissulega er það rétt, hæstv. ráðh., að þetta er frv. um virkjun Blöndu, en ekki um virkjun Kröflu, en hvað efnisatriði varðar er eins og frv. um Kröfluvirkjun hafi verið fyrirmynd að þessu og aðeins tekið út þar sem stendur Krafla og sett Blanda inn í staðinn.

Ég vil aðeins vekja athygli á því í þessu sambandi, — og nota þar framkvæmdirnar við Kröflu sem viðvörun við því sem hér er að gerast, — ég vil aðeins vekja athygli á því, að í þeim orðum, sem ég sagði hér áðan, er auðvitað ekki fólginn neinn spádómur um, hver kann að verða niðurstaða náttúruaflanna þarna á Norðurlandi hinu eystra, og alls ekki neinn spádómur um það, þó að ég hafi borið upphæðirnar, sem þarna eru í húfi, saman við Vestmannaeyjagosið og afleiðingar þess, að svo kunni að fara þarna. En það er ekki aðeins að þessir fjármunir séu í hættu gagnvart náttúruhamförum. Þeir eru einnig í stórkostlegri hættu gagnvart því, sem ég hef kallað skort á undirbúningi. Mér er ekki kunnugt um annað en íslenska þjóðin horfi fram á það a. m. k. næstu ár að þurfa að greiða með þeim fjárupphæðum, sem hún hefur þegar varið til framkvæmda norður við Kröflu, í kringum 1000–1200 millj. kr. á ári. Það mun vera svipaður baggi á þjóðina lagður og nam hálfum þeim bagga sem lagður var á landslýð vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum, þ. e. a. s. þeir fjármunir, sem íslenska þjóðin þarf auðsjáanlega að borga með þessari framkvæmd á Norðurlandi á næstu árum miðað við afborganir af lánum þar, miðað við vaxtabyrði og annað slíkt, er skattur sem er í kringum helmingurinn af heim þunga skatti sem á landsmenn var lagður til þess að mæta óförum vegna jarðeldanna í Heimaey. Og enn á að byggja virkjun upp á sömu forsendum. Enn er sömu hugmyndunum haldið á lofti um hagkvæmni slíkrar virkjunar, um hagkvæmni virkjunarframkvæmda yfirleitt og voru forsendurnar að ævintýraframkvæmdum við Kröflu.

Ég ræddi um Kröflumálið utan dagskrár hér á Alþ. fyrir jólin. Þeirri umr. lauk aldrei. Ég var á mælendaskrá þegar umr. var frestað í byrjun des. Ég óskaði þá eftir því við hæstv. forseta Sþ. að hann reyndi að halda umr. áfram fyrir jól. Hæstv. forseti hét því að svo yrði. Nú er kominn 24. mars og enn hefur ekki gefist tími til þess að halda utandagskrárumr. um Kröflu áfram. Hins vegar vænti ég þess, að það verði gert og jafnvel á þessu ári, vonandi áður en þetta kjörtímabil er á enda runnið, þannig að ég komist þó að í þeim umræðum, og skal ég láta það nægja um Kröflu.

En ég vildi þó í sambandi við þær orkuspár, sem hér eru hafðar uppi, nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. ráðh. um eitt atriði í sambandi við Kröfluframkvæmdirnar, m. a. til þess að benda á hvað þessar orkuspár eru oft reistar á veikum grunni. Hæstv. ráðh notaði í sinni tíð sambandsverksmiðjurnar á Akureyri sem röksemd fyrir því, að það vantaði orkuframleiðslufyrirtæki á Norðurlandi, og hefur notað þá röksemd eins lengi og ég man og m. a. bent á það og talið sjálfsagt og eðlilegt að þessi fyrirtæki keyptu væntanlega orku, sem Kröfluvirkjun framleiðir, hvenær í ósköpunum svo sem það kann að verða. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort það sé ekki rétt hjá mér að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþykkt nú nýlega að nota forgangsrétt sinn til þess að selja verksmiðjum SÍS á Akureyri orku frá Hitaveitu Akureyrar til þessara verksmiðja, þannig að nú sé útséð um að þessar verksmiðjur muni ekki kaupa raforku, hvorki frá Kröfluvirkjun né öðrum virkjunum norðanlands. Ég hef borið þetta undir alþm. úr Norðurl. e., alþm. að sjálfsögðu úr stjórnarflokkunum, og þeir hafa tjáð mér að þetta sé í meginatriðum rétt. Ég veit ekki hvort þetta hefur kornið nokkurs staðar opinberlega fram. Ég hef sjálfur ekki ótvíræðar heimildir um að þetta sé rétt, en ég vildi gjarnan óska eftir því við hæstv. ráðh. að hann upplýsti þingheim um hvort þetta sé á rökum reist.

Ef menn líta svo aðeins á frv. þetta sem hér er lagt fram, frv. til l. um virkjun Blöndu, þá er á bls. 7, fskj. II, áætlun um heildarkostnað vinnsluvirkjana og samanburðartölur um framleiðslukostnað á kwst. Þetta hefur í tilviki Kröflu verið kölluð áætlun um rekstrarstöðu fyrirtækisins, en ég vil aðeins benda mönnum á það, að þetta er alls ekki nein rekstraráætlun, heldur eru þetta áætlanir sem verkfræðingar gera þegar þeir eru að bera saman hagkvæmni einnar virkjunar við hagkvæmni annarrar. Þar sem segir hérna að framleiðslukostnaður á kwst. sé 243 kr., í þessari tölu er alls ekki fólgin nein niðurstaða umhver verði framleiðslukostnaðurinn við þessa virkjun, þegar hún tekur til starfa, eða nein áætlun um á hvaða verði rafmagnið frá þessari virkjun verði selt, heldur er hér um samanburðarstærð að ræða, tölur, sem verkfræðingar nota þegar þeir eru að bera saman tvo virkjunarkosti og skera úr um hvor kosturinn er betri. Þegar reist er fyrirtæki, alveg sama hvað það heitir, hvort það heitir virkjun eða eitthvað annað, þá er auðvitað ekki nægilegt að svona samanburðartölur séu á vitund manna. Menn verða ekki síður að vita hvað viðkomandi fyrirtæki, virkjun eða annað, þarf að fá fyrir framleiðsluvöru sína miðað við það magn sem hún getur selt.

Það er auðvitað mál, ef við tökum virkjun sem dæmi, að virkjun getur verið af mismunandi stærð, sérstaklega t. d. jarðgufuvirkjun, en einnig vatnsaflsvirkjun. Það er einnig vitað mál, að sameiginlegur fastur kostnaður við virkjun getur verið ósköp áþekkur á tillits til þess hvort virkjunin er 150 mw. virkjun eða 200 mw. virkjun. Það er ekki svo mikið sem þarf að muna í kostnaði. Hins vegar er mjög líklegt að þegar slíkar tvær virkjanir eru bornar saman komi lægri samanburðartala fyrir stærri virkjunina heldur en þá smærri. Það er ósköp eðlilegt, vegna þess að það er hlutfallslega minni kostnaður sem mundi bætast við fyrir hið aukna afl. En það segir að sjálfsögðu ekki nokkurn skapaðan hlut um hver yrði rekstrarútkoman á virkjuninni eða á hvaða verði viðkomandi virkjun þyrfti að selja framleiðslu sína. Til þess yrði að skoða markaðsmöguleika, sölumöguleikana á orkunni.

Ef við tökum annað dæmi, þá yrði t. d. mjög sennilegt að sú niðurstaða kæmi út við athugun, að það yrði mjög hagkvæmt fyrirtæki sem setti upp skóverksmiðju hér á Íslandi til að framleiða 100 þús. pör af skóm nr. 42. Miðað við kostnaðinn við að setja slíkt fyrirtæki upp væri ákaflega líklegt að framleiðslukostnaður á hvern skó yrði ekki sérstaklega hár, t. d. mun lægri en framleiðslukostnaður á hvert skópar hjá skóverksmiðjunni Iðunni. En hitt er svo annað mál, hvort það mundi borga sig að byggja upp slíkt fyrirtæki, því að ég efast stórlega um að markaður sé á Íslandi fyrir 100 þús. pör af skóm nr. 42, jafnvel þó að væri hægt að hafa út úr því talsvert lágan kostnað á hvert par í svona samanburði.

Það, sem ég eindregið óska eftir í þessu sambandi, er að fá þær spár um þessa Blönduvirkjun, sem ekki fengust fyrir Kröfluvirkjun, þ. e. a. s. ég vil fá að sjá áætlanir um rekstrarkostnað þessarar virkjunar. Ég vil fá að sjá áætlanir um hvert á að selja orkuna frá þessari virkjun. Ég vil fá að sjá áætlanir um hver eigi að kaupa orkuna og á hvaða verði. Ég vil fá að sjá áætlanir um það t. d. sem hæstv. ráðh. var að tala um hér áðan í ræðu sinni, þegar hann var að ræða um nýja áburðarverksmiðju, nýja sementsverksmiðju, verksmiðju til þess að vinna steinefni, verksmiðju til þess að vinna grasköggla. Gott og vel, ef þessar verksmiðjur væru komnar, þá mætti vel vera að þörf væri fyrir virkjun Blöndu. En ég vil fá að sjá það hvort búið sé að taka ákvörðun um byggingu einhverra slíkra fyrirtækja sem gera virkjun Blöndu nauðsynlega. Ef svo er ekki, þá er náttúrlega þarflaust að vera að tala um þá virkjun sem hér er verið að ræða um.

Það, sem ég er sem sé að biðja um fyrir þessa virkjun hér, er einfaldlega rökstuðningur fyrir því að hennar sé þörf. Sá einfaldi rökstuðningur hefur ekki fylgt öðrum frv. um heimildarlög fyrir virkjanir, sem lagðar hafa verið fram á hinu háa Alþ. En ég tel að í ljósi reynslunnar sé kominn tími til þess að alþm. fái að sjá það í upphafi hvert virkjunin á að selja sina orku, hver þörf er fyrir hana og á hvaða verði og Alþingi fái að móta þá orkumálastefnu sem auðvitað er grundvöllur undir frv. af þessu tagi. Það fskj., sem er á bls. 7, geri ég ekki nokkurn skapaðan hlut með. Það segir mér hvorki eitt né neitt annað en það, að Blanda kynni að vera hagkvæmari virkjun heldur en einhver önnur virkjun og vel að merkja miðað við það að öll orka, sem virkjunin á að framleiða, fáist seld. Annað segir þetta fskj. ekki.

Önnur forsenda fyrir þessari virkjun er á bls. 10: Áætluð raforkunotkun á öllu landinu. Þarna birtist ein blekkingin enn. Ég vil aðeins minna hæstv. ráðh. á það, að nú alveg nýlega var ákveðið af hálfu Landsvirkjunar að óska heimildar til virkjunar Hrauneyjafoss árið 1981 og hann yrði þá farinn að framleiða raforku. Ég vil aðeins til fróðleiks fyrir hv. þm. geta þess, að í forsendu fyrir þeirri framkvæmd af hálfu Landsvirkjunar er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun fullnægi raforkuþörfum Norðurlandssvæðisins með orkusölu gegnum byggðalinu frá Sigöldu, m. ö. o. í forsendum Landsvirkjunarstjórnar er ekki gert ráð fyrir því að Kröfluvirkjun skili svo miklu sem einu kw. inn á þetta svæði. Og ég vil enn fremur vekja athygli þm. á því, að einn af stjórnarmönnum í Landsvirkjunarstjórn er enginn minni maður en hæstv. utanrrh. þannig að að áliti utanrrh. hefur Landsvirkjun yfir nægri orku að ráða, ekki aðeins á sínu svæði, heldur einnig á Norðurlandssvæðinu öllu fram til ársins 1981. Þá fyrst skapast þörf fyrir aukna raforku á þessu svæði, vel að merkja með raforkusölu til málmblendiverksmiðjunnar á Grundartanga einnig inni. Að áliti stjórnarmanna Landsvirkjunar, þ. á m. hæstv. utanrrh., lítur dæmið svona út jafnvel þó að ekki sé gert ráð fyrir því að svo mikið sem eitt kw. komi frá Kröflu. Og það segir nú sitthvað um álit Landsvirkjunar og hæstv. utanrrh. á þeirri framkvæmd, að í forsendum Hrauneyjafossvirkjunar gera þeir bókstaflega ráð fyrir því að Krafla framleiði ekkert rafmagn allt fram til ársins 1981. En látum það nú vera þó að þetta sé niðurstaða stjórnar Landsvirkjunar. Það, sem er hér á bls. 10, er áætluð raforkunotkun á öllu landinu, og hæstv. iðnrh. notaði það sem röksemd fyrir því að þörf væri á nýrri virkjun eins og Blönduvirkjun þar eð raforka frá Sigölduvirkjun og Kröfluvirkjun yrði uppgengin árið 1981. Þetta var röksemdin sem hæstv. ráðh. notaði og studdi hana þessari spá orkuspárnefndar. En ég vil aðeins benda þm. á það, að hér er um að ræða spá um áætlaða raforkunotkun á öllu landinu. Það er sem sé gengið út frá því í þessari spá að búið sé að samtengja orkuveitukerfi á öllu landinu, og þessi samtenging, sem gert er ráð fyrir í þessari orkuspá að sé búin, hún er ekki komin lengra en svo, að það er ekki enn þá búið að ljúka við lagningu línunnar norður til Akureyrar. Mér er kunnugt um að forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins hefur verið spurður að því, hvað það mundi kosta að tengja öll orkuveitusvæði landsins saman í eina heild, eins og gert er ráð fyrir að búið sé að gera í þessari svokölluðu orkuspá orkuspárnefndar. Hann mun hafa svarað því til, að það mundi kosta eitthvað í kringum 26 000 millj. kr., þ. e. a. s. skekkjan í þessari orkuspá er upp á litla 26 milljarða kr. Það er nú ekkert minna.

En það er ekki nóg með það. Rafmagnsveitustjóri ríkisins hefur líka verið spurður að því, ef skyldi nú fara svo að hæstv. ríkisstj. mannaði sig upp og útvegaði með einhverjum hætti þessar 26 000 millj. kr. til þess að þessi orkuspá standist, sem hér er notuð sem rökstuðningur, hvað RARIK yrði þá lengi að ljúka þessu verki. Forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins hefur svarað því til, að það geti hann alls ekki sagt um, því jafnvel þótt hann hefði næga peninga til þess að vinna þetta verk, þá hefði hann ekki nægilega mikið af sérhæfðum mannskap til þess að ljúka þessu nema á mjög löngum tíma, þannig að jafnvel þó að þessar 26 000 millj. kr. væru tiltækar, sem vantar til þess að þessi orkuspá sé marktæk, þá er vitað að það er ekki hægt að vinna þau verk nema á mjög löngum tíma. Vegna þess segir orkuspáin okkur ekkert annað en það, hver er þörf fyrir raforku til húshitunar og annars á öllu landinu eftir að búið er að samtengja allt landið í eitt orkuveitusvæði. En þar vantar 26 000 millj. bara til þess að hægt sé að tengja orkuveitusvæðin saman í eitt. Það vantar mannskap til þess að framkvæma þetta, jafnvel þó að þessar 26 000 millj. væru tiltækar, og svo til þess að hægt væri að sinna upphitunarþörfinni yrðu sveitarfélögin þar að auki að endurbyggja allt sitt dreifikerfi til þess að það þyldi hið aukna álag sem þessu fylgir. Á svona vísdómi er þessi orkuspá byggð. Í þessari orkuspá, sem notuð er sem forsenda fyrir Kröfluvirkjun, fyrir Blönduvirkjun og fyrir ég veit ekki — guð má vita hvaða virkjunum í viðbót, þá vantar til þess að hún sé marktæk í fyrsta lagi 26 000 millj. til þess að tengja saman orkuveitusvæði landsins, það vantar sérhæfða vinnuflokka til þess að vinna verkið og það vantar að sveitarfélögin taki á sig ótaldar þús. millj. kr. til þess að endurbyggja dreifikerfin í sveitarfélögunum svo að þau geti flutt þá raforku sem þarf til húsahitunar.

Ég skal fallast á það með hæstv. ráðh. að ef á að taka mark á þessari orkuspá sem slíkri, þá er þörf á nýjum virkjunum eftir árið 1981. Þá væri þörf á virkjun Blöndu, eins og hæstv. ráðh. leggur til. En ef hæstv. ráðh. ætlar að nota þessa orkuspá sem röksemd fyrir Blönduvirkjun, þá verður hæstv. ráðh. fyrst að gera eitt. Hann verður að leggja hér fram á Alþ. till. sínar og ríkisstj. um hvernig eigi að ná því markmiði sem er forsenda þess að raforkuspáin sé einhvers virði, þ. e. a. s. hvernig á að ná því markmiði að útvega 26 milljarða kr. til þess að tengja saman öll orkuveitusvæði á landinu. Þetta er ein af þeim upplýsingum sem ég endilega vil fá frá hæstv. ráðh. áður en lengra er haldið umr. um þetta frv. um virkjun Blöndu. Ég skal gjarnan trúa því að hann vilji leggja þessa orkuspá til grundvallar fyrir þeirri framkvæmd. En þá vantar mig að fá frá honum og ríkisstj., sem væntanlega stendur að þessu máli, till. um hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að gera það mögulegt að hægt sé að taka mark á orkuspánni með því að útvega 26 þús. millj. kr. til þess að kosta samtengingu raforkuveitusvæðanna á landinu í eitt, til þess að möguleiki sé á því að koma raforkunni til þeirra notenda sem eftir henni spyrja. Það væri að sjálfsögðu ekki nokkur vandi ef þetta væri búið og gert, þá væri enginn vandi í sambandi við Sigölduvirkjun, þá væri ekkert sem ræki á eftir okkur að semja við útlendan auðhring um byggingu málmblendiverksmiðju á Grundartanga. Þá væri ekkert sem ræki á eftir okkur að ljúka því verki sem verið er að reyna að hraða svo mjög í því sambandi gegnum Alþ., því að þá gætum við auðveldlega selt alla þessa raforku frá Sigöldu þegar í stað til íslenskra notenda sem nú á þessum dögum, þessum mánuðum og vikum hafa þurft að borga stórfé fyrir dýrustu raforku sem við getum framleitt í þessu landi á sama tíma sem offramboð er fyrirsjáanlegt á ódýrustu raforku sem hægt er að framleiða á Landsvirkjunarsvæðinu. Ef menn ætla að vera sjálfum sér samkvæmir og nota þessa spá orkuspárnefndar um áætlaða raforkunotkun á öllu landinu sem forsendu fyrir nýjum virkjunum, þá verða þeir auðvitað að vera tilbúnir til þess að horfa einnig á hvað þessi orkuspá þýðir fyrir líðandi stund.

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara öllu fleiri orðum um þetta mál þó að ástæða sé vissulega til. Mér kom ekki til hugar að umr. um það mundi bera svo brátt að sem raun ber vitni og var því ekki eins undirbúinn og ég ella mundi hafa verið. En því miður verð ég að skýra frá því, að ég get ekki verið viðstaddur til þess að hlýða á þau svör sem hæstv. ráðh. kann hér að gefa við spurningum mínum þar sem ég verð að fara á fund kjördæmisþm. úr Vestfjarðakjördæmi til þess að ljúka því verki sem okkur var falið af fjvn. En ég vænti þess þá að geta lesið svör hans í þingtíðindum sem verða prentuð eftir nokkra daga.