30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Það er e. t. v. ekki ástæða til að fara að lengja þessar umr. mikið á þessum nótum, en aðeins nokkur orð vildi ég þó segja í tilefni af því sem hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, var að enda við að segja hér.

Það var þá sérstaklega tal hans um það, hverjar væru raunverulega till. okkar og hvernig þau fjárl. mundu líta út sem við töluðum fyrir á Alþ. Þar var nú meira en lítil skekkja í uppsetningu hans á málum. Mér sýnist að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvers eðlis sú gagnrýni hefur verið hjá okkur sem beinst hefur að því að standa gegn þeirri ákvörðun núv. ríkisstj. að hækka söluskattinn t. d. um tvö stig í sambandi við niðurfallið sem átti að verða á tveimur söluskattsstigum þegar hætt var að greiða í Viðlagasjóð vegna Vestmannaeyjagossins og snjóflóðanna í Neskaupstað. Þegar ríkissjóður tók þessi tvö söluskattsstig til sín og nældi sér þannig í 3.4 milljarða kr., þá var ríkisstj. að hækka verðlagið í landinu, auka við dýrtíðina umfram það sem þurfti, með vitanlega tilheyrandi afleiðingum. Hér var auðvitað fyrst og fremst um það að ræða að losna við afleiðingarnar af þessari dýrtíðarráðstöfun. Auðvitað þýðir hækkað verðlag í landinu, eins og ég benti hér á áður, stóraukin útgjöld, líka á vegum ríkisins og á vegum ríkisstofnana, svo þessar tekjur verða vitanlega engar nettótekjur hjá ríkinu, en þær eru gildur þáttur í verðbólgustefnunni. Auk þess hafa auðvitað þessar ráðstafanir það í för með sér, að útgjöld fjöldamargra annarra aðila, t. d. allra þeirra sem hafa með höndum atvinnurekstur og launagreiðslur, hækka um leið og verðlag í landinu hækkar.

En án þess að ég skuli nú fara langt út í það, þá hefði verið fyllilega ástæða til þess að ræða hér einmitt um þann reginmisskilning sem virðist koma fram, t. d. að mér sýnist að verulegu leyti í nýlega gerðum samþykktum Framsfl., þar sem menn endurtaka í sífellu alveg eins og heilagt orð, að ríkissjóður skuli vera rekinn hallalaust, og talið afskaplega þýðingarmikið atriði í sambandi við mörkun efnahagsstefnu. Þetta segir ekki nema hálfa sögu. Það er engin bót á efnahagsástandinu í landinu að tryggja það að ríkissjóður sé rekinn hallalaust, ef það er einfaldlega gert á þann hátt að hækka allt verðlag í landinu með tilheyrandi afleiðingum. Það getur haft mikla þýðingu í sambandi við lausn efnahagsmála að tryggja, að ríkissjóður sé rekinn hallalaust, með ráðstöfunum sem miða m. a. að því að ná til ríkisins ákveðnum tekjum sem ekki hafa þá þær afleiðingar að auka á þenslu í kerfinu. En það er einmitt þetta sem hefur verið að gerast hjá núv. ríkisstj. Hún hefur hvað eftir annað farið inn á þá braut. Hún eykur ríkistekjurnar að vísu,tryggir að það verður hallalaus rekstur hjá ríkinu, en skilur eftir sig þann vanda að hún hefur hækkað verðlagið í landinu. Það er þarna sem skilur auðvitað á milli. Menn verða að átta sig á því, að það er röng aðferð, sem hér hefur verið viðhöfð, að ætla að tryggja þennan hallalausa rekstur hjá ríkinu á þennan hátt, og auðvitað hefur gagnrýni okkar í sambandi við meðferðina á þessum söluskattsstigum fyrst og fremst beinst að þessu. Sama er að segja um framlenginguna á tímabundnu vörugjaldi. Hún hefur leitt til almennrar verðhækkunar í landinu og leiðir af sér margfalt meira vandamál en jafnvel tiltekinn hallarekstur á ríkissjóði hefði gert. En ég er ekki að mæla með því út af fyrir sig að ríkissjóður sé rekinn með halla, en þessi aðferð er röng og hún heppnast ekki nema framhaldið geti verið það, að þegar ríkissjóður hækkar á þennan hátt allt verðlag í landinu, þá sé hægt að fylgja því eftir með því að menn fái ekki hækkunina á verðlagi bætta, að það sé hægt að fylgja þessari ráðstöfun eftir með því að hægt sé að halda niðri kaupi. Þá ber hún auðvitað árangur að vissu marki. En ég hef álitið að málin lægju t. d. þannig núna á þessu hausti og þessum vetri, að það væri síður en svo um það að ræða að hægt væri að koma fram meiri kjaraskerðingu en orðið er, heldur þyrfti einmitt að bæta nokkuð fyrir syndir í þeim efnum sem framdar hafa verið nú að undanförnu.

Það er því eins og hver annar algjör misskilningur, skulum við segja, að tala um að þessi gagnrýni okkar á þessari sérstöku gjaldtöku ríkisins jafngildi því að við ætlum að skilja við fjárhag ríkissjóðs með 20 milljarða halla. Það er auðvitað algjör misskilningur, því þá virðist þm. ekki gera ráð fyrir því að lækkað verðlag hafi nein áhrif m. a. á útgjöld ríkisins.

Eins er auðvitað með karp um að ég hafi sagt að það væri eðlilegt að ganga út frá því að launastéttirnar í landinu þyrftu á launahækkun að halda sem næmi 20–30% að raunvirði. Í fyrsta lagi er þetta ekki einu sinni haft rétt eftir mér, heldur er það, sem ég hef sagt, að það þarf að gera slíkar ráðstafanir til þess að jafna upp þann halla sem búið er að framkalla í þessum efnum. Það er alveg rétt, launin þurfa að hækka á milli 20 og 30% almennt séð í landinu til þess að ná jöfnuði við það sem áður var búið að semja um varðandi launagreiðslur, og það er ekkert smáræðis átak að ná því marki. Og ég hygg að það skipti ekki meginmáli hvað ég eða aðrir segja um það efni. Það vita, hygg ég, allir nú, sem eitthvað svolítið sjá fram fyrir sig, að við erum komnir að því að það verða knúðar fram hækkanir á launum. Þar verður um hækkun að ræða, og þýðir ekki að skrifa upp einhverja tölu og segja: Þessi hækkun kostar 5 þús. millj. og þær 5 þús. millj. ætlar Alþb. að taka út úr ríkissjóði. — Auðvitað er hér aðeins um að ræða afleiðingu af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið, og það er nú komið að því að þessi laun verði hækkuð, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. En ég skal ekkert um það segja hvað sú hækkun verður mikil. En það er ekki mikil ástæða til þess að vera að þreyta kapp um þessi atriði því þau tel ég ekki ýkjamikils virði.

Mér fannst hv. þm. algjörlega misskilja mál mitt að því leyti til, þegar hann minntist á það sem ég sagði, að það væri í rauninni eins gott að leggja niður þennan skatt ef framkvæmdin ætti að vera á þá lund sem hún væri nú. Þá svaraði hann með því að benda á að þessi olíustyrkur væri á 5 manna fjölskyldu nú hátt í 50 þús. kr. og ég væri þá líklega að leggja til að taka þetta af þeim sem svona stæði illa á fyrir. Ég hélt að hann hefði skilið mál mitt. Ég hafði bent allrækilega á að ef við tökum 5 manna fjölskyldu, þá kemur það út úr þessu dæmi að hún fær e. t. v. 50 þús. kr., en borgar líklega í kringum 45 þús. af því sjálf í auknum skatti. Það var það sem ég var að benda á, að þessir aðilar, sem eiga að fá olíustyrk skv. þessari framkvæmd, eru látnir borga fyrst í þennan sjóð með gjaldtökunni næstum eins mikið og þeir eiga að fá úr sjóðnum. Auðvitað hafði mér ekki dottið í hug að taka af mönnum olíustyrkinn, en halda áfram skattlagningunni. Ég held að enginn maður hafi getað skilið orð mín á þá leið.

Nei, hér er aðeins um það að ræða, hvort það sé rétt stefna að hverfa frá löggjöfinni, eins og hún var mótuð á sínum tíma í sambandi við þessa sérstöku gjaldtöku og til greiðslu á þessum olíustyrk, hvort það á að hverfa frá þeirri stefnu, sem þar var mótuð í grundvallaratriðum, með því að draga verulega úr greiðslu þessa styrks hlutfallslega miðað við verðlag með þeim rökum að þessir aðilar, sem svona stendur á fyrir, þurfi að flýta fyrir hitaveituframkvæmdum annars staðar. Ég segi, að það á að halda uppi þeim hraða sem verið hefur í sambandi við hitaveituframkvæmdir. En þar verður þjóðin öll að koma til, en ekki þessir aðilar sérstaklega, og það á að útvega þeim aðilum, sem ráðast í þær framkvæmdir, lán til framkvæmdanna, eins og jafnan hefur verið gert. En hitt er óréttlátt, að ætla að klípa aukin fjárframlög í þessum efnum af þessum takmarkaða styrk til þeirra sem stendur tiltölulega verst á hjá varðandi upphitun húsa.