14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

213. mál, Skálholtsskóli

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel nú ekki ástæðu til að lengja þessa umr. svo mjög. En vegna þeirra umr., sem orðið hafa um lýð­háskóla almennt, vil ég gjarnan að það komi fram hér við l. umr. þessa máls, að ég hef lang­an tíma haft áhuga á því að þróast gæti frjáls lýðháskóli í landinu. Og ég var sannarlega þeirr­ar skoðunar, að þegar efnt var til þessa skóla­halds á Skálholtsstað, þá væri það gert á réttum stað þar sem kirkjan og kirkjulegt starf væri bakhjarl að slíkum skóla. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé algerlega rangt, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. hélt fram, af því að ég veit betur, að upphaf Skálholtsskóla hafi orðið vegna vandræða með eitthvert mannvirki sem þar hafi verið reist á staðnum. Ég held að það sé alveg nægilegt til þess að sýna fram á, að svo er ekki, að eftir að Skálholtsskólinn var settur af stað og honum komið í gang, þá varð að byggja þar nýtt íbúðar­hús fyrir sóknarprestinu.

Ég er töluvert fróður um ganglag í hestum, og það er ekkert fjarri lagi að viðurkenna það rétta lýsingu, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. viðhafði um hæstv. ráðh., að hann hafi farið á léttu, ljúfu tölti í sinni ræðu. En ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, á hvaða gangtegund sá hv. þm. hafi farið þegar hann var að ræða um þessi mál. Ég þekki engan eðlilegan gang hests sem hann fór. En ég hef heyrt talað um að það hafi verið til einn hestur sem átti það til að fara á kýr­stökki og það þótti mér einna líkast, því að svo ónákvæmt virtist mér vera farið með staðreyndir í þessu máli, eins og ég hef reynt að sýna fram á.

Ég ætla ekki að lengja þessi orð. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að það verði umr. um lýðháskóla. Til þess frv., sem hér liggur fyrir, vil ég ekki taka afstöðu í einstökum atriðum. Ég tel að stefna skólastarfsins sé trúlega allvel skilgreind í 4. gr. frv. En það eru ýmsir fleiri þættir sem þar þarf að huga að, og ég held að það sé mál til komið að það verði gert á Alþ., að virða fyrir sér með hverjum hætti lýðháskóla­starfi verði komið á í landinu.