18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3229 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. hv. iðnn. Nd. með fyrirvara um það mál sem hér er til umr., gagnstætt því sem ég gerði þegar hv. iðnn. og Alþ. mótuðu af­stöðu sína til samnings við Union Carbide á sín­um tíma. Fyrir þessari breyttu afstöðu minni vil ég gera örstutta grein.

Meginástæða fyrirvara míns eru breyttar for­sendur fyrir afkomu eða arðsemi málmblendi­verksmiðjunnar frá þeim sem áður voru. Reynsl­an hefur sýnt svart á hvítu að þetta fyrirtæki er mun áhættusamara í rekstri og dýrara í stofnkostnaði en gert var ráð fyrir þegar fyrri samn­ingar um málmblendiverksmiðju voru til umr. Hér á hv. Alþ. Þá lágu fyrir sérfræðilegir út­reikningar sem Þjóðhagsstofnun hafði yfirfarið og staðfest, en þessir útreikningar bentu til mjög góðrar afkomu verksmiðjunnar, þ. e. a. s. 13.6% afkastavaxtafjárfestingar í henni. Að mati Þjóðhagsstofnunar þá virtist þessi niðurstaða miðuð við ítrasta öryggi í áætlun.

Þessu til viðbótar lágu fyrir óvenju ótvírætt orðaðar álitsgerðir sérfróðra manna um verðlagshorfur kísiljárns á heimsmarkaði. Þannig var t. d. kveðið að orði í skýrslu Þjóðhagsstofn­unar um þetta atriði, en hún er dags. 8. mars 1975, með leyfi forseta:

„Í þeim skýrslum, sem Þjóðhagsstofnun hefur haft undir höndum, virðist ekki koma fram að búist sé við miklum verðsveiflum og virðist áhersla fremur lögð á vaxandi eftirspurn eftir kísiljárni og líklega takmörkun framboðs vegna úreltra framleiðsluaðferða með tilliti til tækni, mengunar og orkuverðs.“

Þetta hefur því miður ekki reynst rétt. Verð­hrun hefur orðið á kísiljárni á heimsmarkaðn­um og er langt frá því að enn í dag hafi úr ræst að fullu. Um þetta segir svo orðrétt í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Mikill samdráttur varð á stálmarkaðinum á árinu 1975 og var hann í lágmarki í ágúst-sept. það ár. Síðan hefur orðið verulegur bati, þó enn vanti talsvert á, að framleiðslan hafi náð sama magni og 1974. Á síðustu mánuðum hefur aftur gætt samdráttar á stálmarkaðinum. Verð á kísil­járni hefur fylgt þessari þróun. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægum og e. t. v. nokkuð hikandi bata á næstu ársfjórðungum.“

Stofnkostnaður verksmiðjunnar hefur hækk­að samkv. áætlun úr 68 millj. dollara 1976 upp í 81 millj. dollaranú eða um rum 19%. Með þessu er auðvitað reiknað í útreikningum málm­blendifélagsins og minnkar það út af fyrir sig arðsemina frá fyrri útreikningum. Á hinn bóg­inn virðist bitur reynsla af verðhruni kísiljárns síðustu ár ekki hafa haft veruleg áhrif á arðsemimat Járnblendifélagsins, því að það er gert ráð fyrir verulegri hækkun kísiljárns á bygg­ingartíma verksmiðjunnar og síðan stöðugri ár­legri 4% hækkun út allt áætlunartímabilið, sem er nálægt 17 ár. Þrátt fyrir þetta fæst ekki nema 9.9% arðgjöf af verksmiðjunni sjálfri án hafnar og vegaframkvæmda. Þessar forsendur voru ekki hafðar til viðmiðunar þegar samningarnir við Union Carbide voru til staðfestingar. Þá var í arðsemiútreikningum gert ráð fyrir óbreyttu verði kísiljárns á áætlunartímanum, þótt bjart­sýni ríkti þá um markaðshorfur og nýfengin reynsla ekki fyrir hendi um verðhrunið sem var á næsta leiti. Það er athyglisvert að samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem hún gerði að beiðni hv. iðnn., yrði arðsemi fyrirtækisins engin, þ. e. a. s. um yrði að ræða verulegt rekstr­artap, ef gengið yrði út frá þeim forsendum að verðið hækkaði meðan markaðurinn væri að ná sér næstu tvö ár, en síðan væri reiknað með óbreyttu verði kísiljárns eins og gert var þegar arðsemimat var lagt á þessa framkvæmd hið fyrra sinnið, þ. e. a. s. við umr. um samninginn við Union Carbide. Þetta leiðir tvennt í ljós svo að ekki verður um villst. Að því er best verður séð eru nú miklu minni líkur en áður fyrir því að málmblendiverksmiðjan, sem fyrirhugað er að reisa í Hvalfirði, geti skilað arði og þar með skilað því fjármagni sem eigendur hennar leggja fram, og í öðru lagi, hversu mjög þetta fyrirtæki er háð óútreiknanlegum verðsveiflum á kísiljárni í næstu framtíð, m. ö. o. áhættan við rekstur þessa fyrirtækis er eftir öllum sólar­merkjum og líkum að dæma miklum mun meiri, miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir, heldur en áður var.

Þessi mikilvæga staðreynd hefur breytt af­stöðu minni til þessa máls og þá að sjálfsögðu sér í lagi þess ákvæðis, að Alþ. samþykki að al­menningur í landinu eigi 55% þessa fyrirtækis og leggi fram beint eða óbeint milljarða kr. í því skyni. Á því er auðvitað reginmunur, hvort yfir­gnæfandi líkur eru á því að mati hinna færustu manna að fyrirtækið sjálft geti skilað þessu fjár­magni aftur til þjóðarinnar á eðlilegum tíma eða um það ríki hin mesta óvissa, svo að ekki sé meira sagt, og jafnvel þurfi að leggja fjárhags­legar kvaðir og aukna skatta á allan almenning til þess að axla þá byrði ef illa fer. Með sam­þykkt þessa frv. má áætla að Alþ. sé að skuldbinda skattborgarana til þess að ábyrgjast 3500–4000 millj. kr. framlög einvörðungu í hlutafjárframlög, sérstök lán, vegagerð, hafnargerð og því um líkt vegna þessa fyrirtækis, og er þá að sjálfsögðu ekki meðtalin sú fjárhæð sem fyrirtækið sjálft tekur til láns vegna uppbyggingarinnar. Ætlunin mun a. m. k. fyrst í stað að afla þessa fjár með lánum, en að sjálf­sögðu á ábyrgð ríkissjóðs, og lán þarf að borga ásamt vöxtum á sínum tíma.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að ég óskaði sérstaklega eftir útreikningi á því hversu mikil greiðslubyrði ríkissjóðs yrði af því fyrstu árin að standa straum af hlutafjárframlaginu einu, ef frá yrði dregin fjárhæð vegna skatt­tekna og arðs ríkissjóðs af fyrirtækinu, þ. e. reiknaðs arðs, eins og dæmið liggur fyrir frá málmblendifélaginu. Reiknað er með að ríkis­sjóður taki 15 ára lán til greiðslu á hlutafénu með 8.5% vöxtum. Útkoman er sú, og er þá mið­að við þá rekstrarútkomu, eins og ég sagði áðan, sem Járnblendifélagið reiknar sjálft með, að útgreiðslur úr ríkissjóði yrðu 3400 millj. kr. fram til ársins 1985 umfram innkomnar tekjur ríkis­sjóðs af arði og sköttum. Eftir 1985 færi síðan að greiðast af þessum skuldum. Þessa útreikn­inga gerði fulltrúi málmblendifélagsins sjálfs fyrir mig eftir ósk minni. Athyglisvert er að hér er ekki reiknað með öðrum útgjöldum ríkis­sjóðs, svo sem hafnargerð. Raunar ætti fyrirtækið sjálft að mínu mati að byggja höfnina.

Ef gera hefði átt ráð fyrir samkv. bestu fáan­legu heimildum að fyrirtækið sjálft gæti staðið undir þessum skuldbindingum einmitt á þessu árabili, þannig að ljóst væri að ekkert vegna þessa fyrirtækis skerti á einn eða annan hátt sameiginlegan sjóð landsmanna, þá liti málið allt öðruvísi út í mínum augum. Þar sem líkur eru því miður á að afkoma fyrirtækisins leyfi slíkt ekkj, svo sem ég hef hér rökstutt, jafnvel að rekstrartap bætist við vandann fyrstu árin, þá verð ég að lýsa andstöðu minni við ákvæðið um 55% eignarhlut ríkissjóðs í þessu fyrirtæki.

Ég þarf ekki að bæta miklu við þessa grg. fyrir sérstöðu minni í þessu máli. Hv. þm. Ing­ólfur Jónsson hefur skýrt sjónarmið meiri hl. hv. iðnn. að öðru leyti og afstaða meiri hl. kemur fram í nál. Mér þykir rétt að taka fram, að ég er þeirrar skoðunar að betur hafi verið staðið að samningagerð við Elkem-Spigerverket nú held­ur en Union Carbide á sínum tíma, þótt óviðráðanlegar ytri aðstæður séu nú sýnu lakari til þess að reka slíkt fyrirtæki með eðlilegum ábata. Betur hefur verið gengið frá samningi um sölu á framleiðslu fyrirtækisins. Bein fjármögnun hefur verið tryggð að langmestu leyti og betur gengið frá umhverfis- og heilsuverndarmálum, auk þess sem miklum mun geðfelldara er í mín­um huga að eiga samvinnu við norskt fyrirtæki en bandarískt á þessu sviði.

Varðandi mengun og starfsleyfi og þau um­mæli hv. þm. Sigurðar Magnússonar, sem hann viðhafði hér um starfsaðferðir iðnn., vil ég ein­ungis taka það fram, að það var álit forstöðu­manns Heilbrigðiseftirlits ríkisins að starfsleyfi væri fullnægjandi og þeir væru fyrir margra hluta sakir fremur ánægðir með þá niðurstöðu sem fékkst með starfsleyfinu. Þetta lá fyrir iðnn. áður en gengið var frá málinu, þannig að um­mæli hans um að iðnn. hafi kastað höndunum til þessa þáttar málsins tel ég algerlega úr lausn lofti gripin.

Afstaða mín til uppbyggingar orkufreks iðn­aðar hefur verið skýr og þarf ég ekki að lengja þessar umr. til að útskýra hana. Hóflegur orku­frekur iðnaður, sem valinn er staður í landinu þar sem hagkvæmt er fyrir raforkuiðnaðinn, byggðaþróun og vegna mengunarvarna, er aug­ljós forsenda þess að við íslendingar eignumst á skjótan hátt öflugt orkuöflunar- og dreifikerfi, sem gerir það kleift, að allir landsmenn njóti nægrar, öruggrar og ódýrrar orku sem fyrst. Vitanlega væri æskilegt að við íslendingar eign­uðumst sjálfir hlut í svo sem tveim til þrem orkufrekum iðnfyrirtækjum, en fleiri slíkra fyrirtækja er ekki þörf í fyrirsáanlegri fram­tíð til þess að ná því markmiði sem stefna þarf að vegna þarfa raforkuiðnaðarins. Mér virðist þó að við höfum svo margt annað að gera með takmarkað fjármagn, sem við höfum undir höndum, að skynsamlegra væri að semja við erlenda aðila, sem reisa vilja slík fyrirtæki hér á landi og kaupa af okkur orku, sem aðalatriðið er, um að þeir leggi fram allt áhættuféð, a. m. k. fyrst í stað, en við ættum þá e. t. v. kost á því síðar að eignast hlut í fyrirtækjunum á allnokkru ára­bili og meiri hl. eftir ákveðinn rekstrartíma.

Herra forseti. Ég vil ekki lengja þessar umr. frekar. Sérstaða mín hefur komið fram. Í sam­ræmi við hana mun ég ekki greiða atkv. með 2. og 3. gr. frv., en þær fjalla um skuldbindingar ríkissjóðs vegna eignaraðildar að fyrirtækinu og fleira. En verði þær greinar samþykktar af meiri hl. Alþ., mun ég greiða atkv. með öðrum grein­um og frv. í heild.