19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3301 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

266. mál, útgjöld vísitölufjölskyldunnar

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra for­seti. Ég hef ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh. um innheimtu söluskatts:

„Er fyrirhugað að ráða bót á því misræmi, sem er á innheimtu söluskatts eftir því, hvort um er að ræða framkvæmdir við byggingu íbúð­arhúsa á byggingarstað eða á verkstæðum og í verksmiðjum? Ef svo er, þá hvernig?“

Þessi fsp. er fram borin að sérstakri ósk þeirra aðila sem þetta snertir sérstaklega. Hún snertir allmörg fyrirtæki, sem standa að svonefndum einingabyggingum og telja sig, eins og aðilar t. d. bæði eystra og nyrðra, allhart leikna af söluskattsinnheimtu á þann hátt að þeir telja samkeppnisaðstöðu sína miklu lakari fyrir bragðið. Hér er annars um að ræða fyrirtæki svo sem Húsasmiðju Snorra Halldórssonar, Húseiningar á Siglufirði, Verk hf. í Kópavogi og Trésmiðju Fljótsdalshéraðs. Þessi fyrirtæki greiða af sinni vinnu við húsbyggingar 20% söluskatt af vinn­unni sem unnin er inni, af því að hún telst til verkstæðisvinnu, í stað þess að losna við þessa innheimtu ef vinnan er unnin á byggingarstað. Hér er um verulegan aukakostnað að ræða sem eðlilegt er að þessir aðilar kvarti undan.

Það fer hins vegar ábyggilega ekki á milli mála að hér er um mjög heppilegan og hagkvæm­an byggingarmáta að ræða sem styðja ber með ráðum og dáð. Það er líka greinilegt að húsbyggjendur sækja orðið í þetta byggingarfyrirkomulag og vilja gjarnan fá hús með þessum hætti, og stjórnvöld og Húsnæðismálastofnun ríkisins hafa nú nýlega ákveðið vissar aðgerðir í lánamálum sem auðvelda húsbyggjendunum að komast yfir þessi hús.

Fsp. er fram borin m. a. af þessum ástæðum sem ég greindi áðan, að þessir aðilar telja sig hafa nokkur vilyrði um að úr þessu ósamræmi, en annað verður nú vart hægt að kalla þetta, kunni að verða bætt. Fyrir því er þessi fsp. lögð beint fram til hæstv. fjmrh.