19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

196. mál, þjóðaratkvæði um prestskosningar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra for­seti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim, sem tekið hafa þátt í og tekið til máls í þessum umr., fyrir þeirra ræður. Ég verð að segja það, að það hefur ekki komið nein gagnrýni, að ég geti talið, á þá till. sem hér liggur fyrir. Ég er ánægður með þessi viðbrögð. Ég er að vísu mismunandi ánægð­ur með hina einstöku ræðumenn sem hér hafa lagt til málanna.

Mér virðist að það hafi þegar í þessum umr. komið fram staðfesting á því, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að ég hefði engan hv. þm. heyrt segja að fólki, sem búa á við kirkjuskip­unina, komi þetta mál ekki við eða hafi ekki vit á því hvað því sé fyrir bestu. Mér virðist að enginn af þeim, sem talað hafa, hafi útilokað það að þjóðaratkvgr. fari fram, eins og till. gerir ráð fyrir.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði mjög hógværlega í málinu og tók fram, að hann hefði ekki á móti því, — ég skildi hann þannig, — að þjóð­aratkvgr. færi fram um það, hvort ætti að af­nema prestskosningar eða ekki.

Hv. 5. þm. Vestf. talaði á þann veg, að ég gat ekki fundið í raun og veru að hann væri andstæðingur þess að þjóðaratkvgr. færi fram, eins og till. gerir ráð fyrir. Hins vegar sagði hann eitthvað á þá leið, að því er mér skildist, að það hefði verið eðlilegra að Alþ. sjálft hefði kveðið upp úr um þetta. Það má segja að það hefði verið eðlilegra. En hér er hinn djúpstæði ágreiningur sem kominn er upp milli Kirkju­þings og Alþ. og Alþ. liggur undir ámæli fyrir að leysa ekki, Hann byggist á því. (Gripið fram í: á hverju?) Það er ágreiningur um það, hvað fólkið í landinu vill. Kirkjuþingið segir að fólkið vilji afnema prestskosningar, og þeir, sem eru þeirrar skoðunar, halda því fram. Þeir, sem mæla gegn afnámi prestskosningar, segja hið gagn­stæða. Þess vegna, eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, hygg ég að það sé ákaflega þýð­ingarmikið að upplýsa þetta, þannig að það liggi fyrir jafntvímælalaust og það getur legið fyrir, hver er vilji fólksins, og leiðin til þess er þjóðaratkvgr.

Hv. 3. þm. Austf. lýsti eindregið fylgi sínu við þessa tillögu.

Og þá hef ég vikið að öllum þeim sem tóku til máls, öðrum en hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Vestf. Hann útilokaði ekki heldur að þjóðar­atkvgr. færi fram. En hann taldi að þjóðaratkvgr. ætti ekki að fara strax fram, eða ekki fyrr en n., sem hann vill fá skipaða í málinu, hefur skilað áliti. Hann fór nokkrum orðum um það, að slíkt væri nauðsynlegt, að því er mér skildist til þess að það væri hægt að leggja málið sóma­samlega fyrir í þjóðaratkvgr.

Ég held að þetta sé ákaflega mikill misskilningur. Ég held að í þjóðaratkvgr. verði að leggja fyrir málið í höfuðatriðum, einhver grundvallar­atriði, en ekki lagabálka, sem búið er að semja. Ég skal ekki segja að hv. þm. hafi meint þetta, og ég held að það þurfi enga athugun á því, hvað er grundvallaratriði í þessu máli. Það er spurningin um það, hvort á að afnema beinar og almennar prestskosningar eða ekki.

Hv. þm. taldi að við værum vanbúnir því, að hafa þjóðaratkvgr. eða hefðum litla reynslu af þeim, og það má til sanns vegar færa. Hann sagði að það hefði verið talað um þjóðaratkvgr. um öl, og nefndi kannske eitthvað fleira, en það hefði ekkert orðið af því. En af því að ölið var nefnt, þá minnir það á að það var höfð þjóðar­atkvgr. um það, hvort ætti að vera bann á Ís­landi eða hafa innflutning á sterkum drykkjum.

Mér virðist að ef það hefði verið beitt sömu röksemdarfærslu þegar þjóðaratkvgr. fór fram um bannmálið, þá hefði með sama rétti mátt segja: Nei við erum ekki reiðubúnir til þess. Við verðum að láta skipa n. til þess að semja áfengislög. Við verðum að vita hvernig lögin eru, áður en við tökum ákvörðun um hvort við viljum leyfa innflutning á sterkum drykkjum eða ekki. — Svona var ekki farið að, og það er ekki hægt að fara svona að í þjóðaratkvgr. Það verður að leggja fyrir grundvallaratriðin, og svo verður að byggja löggjöfina, sem á eftir kemur, á því hvað hefur verið ákveðið í þjóðaratkvgr., en ekki fara öfugt að.

Við skulum ekki mikla það fyrir okkur að fara í að framkvæma þjóðaratkvgr. í þessu máli. Ég held að það verði engir þeir framkvæmda­örðugleikar á því, það að verði ekki tiltölulega auðleyst. Hvernig ættum við að fara að sam­kvæmt stjórnarskráríkisins ef við gerðum breytingar á kirkjuskipuninni sjálfri? Við yrð­um að bera það undir þjóðaratkvæði. Stjórnar­skráin mælir svo fyrir. Og hvers vegna mælir stjórnarskráin svo fyrir í sambandi við kirkj­una? Kirkjan er stofnun sem er alveg sérstaks eðlis. Af því leiðir að það er ekki frambærilegt að bera presta þjóðkirkjunnar saman við aðra embættismenn. Aðrir embættismenn eru fulltrúar ríkisvaldsins. Þeir eru handhafar ríkisvaldsins í ýmsum myndum. Þeir eiga að koma fram við fólkið fyrir hönd ríkisvaldsins. En prestarnir eru fulltrúar trúarfélaga. Og svo ég víki að öðru ákvæði í stjórnarskránni, stjórnarskráin mælir svo fyrir að allir skuli hafa rétt til þess að mynda trúfélög. Það er ekki hægt að taka þennan rétt af fólki, og það er vegna þess að það er í samræmi við þetta sjónarmið, að einmitt þessi félög hafi vald til þess að kjósa sína starfsmenn og sína þjóna, sem eru allt annars eðlis en hinir venjulegu embættismenn ríkisins.

Ég held að eðli málsins sé þannig og það sé alveg auðsætt mál, að eins og málið liggur núna fyrir sé besta og eðlilegasta leiðin til þess að finna lausn á þessu djúpstæða deilumáli, sem í 15 ár a. m. k. hefur staðið milli Alþ. og Kirkju­þings, að hafa þjóðaratkvgr. og leita álits fólks­ins sjálfs. Það samræmist best okkar lýðræðis­hugsun og það samræmist best eðli þessa máls, frá hvaða sjónarmiði sem við lítum á það.