20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3453 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um þetta mál né bæta við það sem ég sagði hér við 2. umr. málsins og hef fyrr látið í ljós þegar þetta mál hefur borið á góma. Þó vil ég aðeins víkja að því nokkrum orðum.

Það væri ástæða til þess að vísu að ræða nokkuð um ræðu hv. 3. þm. Austurl. sem hann var að ljúka hér í ræðustólnum. Það er rétt hjá honum, að frv. þetta er fyrst og fremst flutt til staðfestingar á brbl. En við þau lög hafa verið gerðar nokkrar breytingar við með­ferð málsins. Það verður varla sagt að það sé hrúgað inn brtt., allra síst á síðustu stundu. Það er eiginlega svo, að eina nýja brtt., sem komið hefur fram nú að undanförnu, er till. frá hv. 5. þm. Suðurl., sem hér hefur verið drepið á. Hinar till. komu fyrir n. til umfjöllunar í janúarmánuði s.l. Það er vitað mál, eins og hv. 3. þm. Austurl. tók fram, að öll þessi efni eru meira og minna ágreiningsefni. Þess vegna er það þeim mun merkilegra þegar samkomulag, og það allvíðtækt samkomulag, næst um þó nokkur atriði mála.

Hann lýsti, hv. 3. þm. Austurl., sem er að vísu genginn úr salnum, hvernig frv. þetta væri til orðið, lýsti verslun og viðskiptaháttum þrýstihópa innan Landssambands ísl. útvegs­manna í því sambandi. Ætla ég ekki að bæta neinu þar við og í sjálfu sér leiða hjá mér að ræða þann undirbúning sem hann telur að þetta frv. byggist á. Ég ætla að þar sé með ýmsu móti málum blandað. En það er ástæða til þess að þakka honum fyrir þann hluta ræðu hans sem var beinn rökstuðningur við sjónarmið breiðfirðinga, þ. e. a. s. þegar hann lýsti því hvernig færi ef afkastamiklum skipum væri hleypt upp á grunnslóð og látin taka þar fisk­inn í stórum stíl nærri landi. Og ég vil nú vona að þegar á reynir komi samkomulagsvilji hv. þm. fram þannig að hann hengi ekki hatt sinn á formsatriði ein saman.

Ég ætla aðeins að víkja að brtt. á þskj. 392. Það er 5. brtt., 5. gr. verður 8. gr. og hljóði eins og þar greinir. Ég ætla ekki að lesa þessa brtt. upp, hvorki nefna örnefni, sem þar eru tilgreind, né heldur gráður og annað sem því tilheyrir, sem er dálítið erfitt fyrir flesta að hlusta á, ekki síst þá sem ókunnugir eru. En ég ætla að gefa mönnum örlitla mynd af því sem þarna er fjall­að um.

Þeir, sem stunda fiskveiðar fyrir Vesturlandi, eru kunnugir því, hvernig fiskur hagar sér í göngu inn á Breiðafjörð og Faxaflóa alloftast. Aðalfiskgöngurnar koma inn Kolluál og skiptast um Jökultunguna eða Jökulgrunnið. Hluti göng­unnar heldur áfram inn Kolluál inn á Breiðafjörð, hinn hlutinn gengur inn Jökuldjúpið. Með því að leyfa stórvirkum veiðitækjum, stór­um skuttogurum og öðrum slíkum, allt að því verksmiðjutogurum, að veiða á þessu svæði innan 12 sjómílna á meðan fiskur er í göngu, eru fullar líkur fyrir því að þessi afkastamiklu skip verði búin að veiða upp þann fisk, sem þau fundu á landgrunninu, áður en hann kemst inn á Breiðafjarðarveiðisvæðið. En vitað er að það fólk, sem byggir þau fjögur sjávarþorp, sem eru á norðanverðu Snæfellsnesi, á alla sína af­komu undir því að fiskurinn fái að ganga inn á Breiðafjörð upp að landinu. Á þessu svæði er einnig fjöldi smábáta sem í raun og veru getur ekki sótt nema á heimamiðin svokölluðu, hefur ekki aðstöðu til að sækja á hin fjarlægari mið.

Að þessu lýtur 5. brtt. á þskj. 392, þ. e. a. s. að bægja þessum stórvirku veiðitækjum og fjær landi, þannig að fiskurinn nái að ganga inn á grunnslóð, inn á heimamið. Ég ætla að flestir þar vestra séu sammála um þetta atriði. Það er að vísu kannske aldrei hægt að ná fullkomnu samkomulagi um svona efni. En ég hygg að flestir séu sammála um þetta mál, þegar það er haft í huga, að þetta erindi hefur farið um hendur Landssambands ísl. útvegsmanna, n. hefur rætt það á fundum sínum við fulltrúa frá því sambandi, málið hefur verið sent Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, en það er kunnugt að þessi till., sem ég var nú að lýsa, snertir hagsmuni þess, því að samkv. henni er um að ræða að allstórt svæði vestur af Snæfellsnesi verði lokað fyrir veiðum togara sem eru meira en 39 m að lengd, og þetta er einmitt veiðisvæði sem togarar úr Reykjavík og Hafnarfirði hafa nýtt nær alfarið, og sagt er, frá því að tog­veiðar hófust hér við land. Því er það svo, að með samþykkt þessari, ef gerð verður, er í raun­inni ákveðið hvort fiskur sá, sem veiddur er á innað borð á ákveðnu svæði á vetrarvertíð, verður veiddur á stórum, afkastamiklum togur­um eða þá á smærri bátum nær landi.

Það er mælt með þessari till. af stjórn Fiski­félags Íslands og Hafrannsóknastofnun. Frv. þetta er flutt að beiðni hæstv. sjútvrh. Það gengur í sömu átt og við þm. Vesturl. höfum lagt áherslu á, bæði síðla árs 1973 og eins þegar breytingin var gerð á lögunum vorið 1976, þó að við bærum þar skarðan hlut frá borði. Um þetta atriði hefur náðst víðtæk samstaða, eins og ég sagði. Sú samstaða og það samkomulag verður vonandi virt af hálfu hv. dm. og sam­þykkt.