02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir, að við alþb.-menn tökum heils hugar undir með Þeim fjölmörgu aðilum sem hafa sent umræddar mótmælaundirskriftir til þingsins. Við erum þeim algerlega sammála og við munum beita valdi og afli okkar hér á Alþ. eins og við getum til þess að berjast gegn staðfestingu á þeim brbl. sem hér hafa verið rædd. Við höfum fordæmt þessa lagasetningu og gerum það enn.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara hér út í almennt karp við hæstv. sjútvrh, á þeim nótum sem hann hefur hér talað, því að ég tel það í mesta máta óviðeigandi og í rauninni sýna ekkert annað en það, að hann treystir sér ekki til þess að verja gerðir sínar á málefnalegum grundveili. Það, sem er kjarni þess máls sem hér er um að ræða, er að hæstv. sjútvrh. gengst fyrir því að út eru gefin brbl. um launakjör sjómanna 6. sept. eða rétt einum mánuði áður en Alþ. á að koma saman. Ég veit að það sjá allir menn, sem lita á þetta mál, að útgáfa á þessum brbl. átti engan rétt á sér, Hér var ekki um það að ræða að verið væri að setja lög til þess að koma í veg fyrir verkfall eða til þess að leysa verkfall sem í gangi væri. Það eina, sem um gat verið að ræða, var það sem hæstv. ráðh. er að snúast í kringum, að hann hafi viljað skera hér á ákveðinn hnút til þess að tryggja sjómönnum um allt land nákvæmlega sömu kjör, hvað sem liði þeirra samningum. En auðvitað átti þá að bíða þennan eina mánuð sem eftir var þar til Alþ. kæmi saman og fjalla þar um málið, ef menn töldu ástæðu til þess að löggjafinn skærist í þessa deilu, En hæstv. sjútvrh. hagar sér á allt annan veg. Hann komur því í gegnum ríkisstj. að gripið er til brbl. Það er knúið fram að gildandi og löglegum kjarasamningum sem í gangi eru, sem jafnvel hvorugur aðili, hvorki útgerðarmenn né sjómenn, hefur sagt upp, þeim skuli breytt og knúin fram breytt skiptakjör og ákveðið með lagasetningu að ákveðnar till. um hlutaskiptakjör, sem sjómenn eru búnir að hafna eftir löglegum leiðum, skuli lögfestar.

Það er enginn vafi á því, að þessi aðgerð frá hálfu hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. er algert einsdæmi. Það er ekki hægt að finna eitt einasta dæmi um beitingu brbl.-valdsins á þennan hátt. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Allt þrugl hjá hæstv, sjútvrh. hér um að það skini eitthvað ákveðið út úr andliti tiltekins þm., sem hann nefndi nú hræsni, eða þá að það hafi verið þyrlað upp moldviðri eða fiskverð hafi hækkað svona og svona mikið, það kemur þessu máli ekkert við. Menn grípa til málflutnings af þessu tagi, þegar þeir eru komnir í strand.

Það er auðvitað enginn vandi að nefna alls konar dæmi um það hvað fiskverð hefði átt að hækka mikið aðeins til þess að mæta þeim skakka sem kominn var á vegna sjóðakerfisins. Við vitum að fiskverðið mátti hækka til mótvægis við það yfir 50%. En það er ekki það sem hér er verið að deila um. Það eru vinnubrögðin í þessum efnum, það eru hinar ólöglegu leiðir sem farnar eru. Ég álít að vinnubrögð af þessu tagi eigi að fordæma, og ég held að það sé best fyrir hæstv. sjútvrh. að gera sér grein fyrir því og það sem fyrst, að svona vinnubrögð fá ekki staðist. Þeir, sem vinna á þennan hátt, fá yfir sig, áður en þeir vita af, eitt allsherjar rækjustríð, eins og hann hefur lent í út af hreinum hégóma. Það er í rauninni ekki þeim að þakka, að stórslys hljótist ekki af, eins og t.d. að allsherjarstöðvun flotans eða annað slíkt sigli þarna í kjölfarið.

Það er enginn vafi á því, að það er enn í dag mikil þörf á því að bæta kjör íslenskra fiskimanna. Þó að hægt sé að finna þar í einstaka tilföllum og við viss tækifæri að laun geti orðið sæmileg, þá er enginn vafi á því, að það er hollast fyrir alla þjóðina að bæta kjör fiskimanna frá því sem verið hefur. Það var því síst ástæða og það fyrir sjálfan sjútvrh. að skerast í leikinn á þann hátt sem hann gerði, sem miðaði að því að skapa enn meiri ólgu í þessum efnum og gera málið enn torleystara en það hafði þó verið. Og það skiptir hér líka litlu máli þó að komið hafi upp margvísleg vandamál í röðum sjómanna í sambandi við þær atkvgr. sem fram fóru þegar málið var orðið svo harðsnúið að það var í rauninni hvorki hægt að samþ. né fella. Þá mátti fyllilega búast við því að þátttaka manna yrði lítil í atkvgr., eins og málið allt bar að.

Ég sagði í upphafi míns máls að það er ekki meining mín að fara að nota hér ræðutíma utan dagskrár til þess að fjalla almennt um 1aunakjör sjómanna eða þátt núv. hæstv. sjútvrh. eða núv. ríkisstj. í þeim efnum. Það gefst tími til þess þegar þetta frv. kemur hingað til d. til umr., verði því þá ekki slátrað strax í Ed. sem best væri auðvitað. En það gefast eigi að siður næg tilefni til þess að ræða málið á almennum og breiðum grundveili. En ég ítreka það, að við alþb. menn erum algjörlega sammála þessum undirskriftum sem hafa borist. Við teljum að þær séu réttmætar, og við munum berjast gegn staðfestingu á þessum óréttmætu lögum. Við fordæmum þessa lagasetningu og álítum að hún hafi orðið til ills eins í sambandi við málið, eins og það liggur fyrir. Hitt, að ætla að verja sig á þann hátt sem hæstv. sjútvrh. gerði, það getur aldrei orðið til neins annars en þess að sýna að hæstv. ráðh. veit upp á sig skömmina í þessum efnum.