28.04.1977
Efri deild: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3866 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

208. mál, byggingarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta mál fer nú til þeirrar n. sem ég á sæti í, svo að ég fæ e. t. v. eitthvert tækifæri til þess að fjalla þar um það þó að það hljóti að verða mjög tak­markað. Ég veit hins vegar að hæstv. forseti þessarar d. mun áreiðanlega afgreiða þetta mál sem allra best frá n., og ég treysti honum í hvívetna til þess að við getum áttað okkur betur á því en við höfum gert með tilliti til þeirra aðila sem hér um hafa fjallað utan þings og veitt sínar umsagnir.

Hér er um viðamikinn bálk að ræða, og mér hefur ávallt fundist að þegar um slík frv. væri að ræða sem eru jafnviðamikil og þessi og ætl­unin er að afgreiða þau á tiltölulega stuttum tíma, þó að þetta frv. hafi komið fram í fyrra líka, þá sé í raun og veru nauðsyn á því að nefndir beggja deilda starfi saman að úrvinnslu málsins. Þetta hefði ég kosið að hefði verið gert í sambandi við þetta mál, þó að ég viður­kenni það, að áreiðanlega er til bóta flest af því sem í þessu frv. er nýtt, þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. frá því í fyrra, eru að mínu viti til bóta. Hér er um ýmsa samræm­ingu að ræða sem án efa er mesta nauðsyn að nái fram að ganga og þá ekki hvað síst víða úti á landi.

Ég hnaut mjög um það í fyrra, þegar ég leit yfir þetta frv., hið mikla valdsvið byggingar­stjórna svokölluðu sem V. kaflinn fjallar um. Mér sýnist að nú hafi verið dregið þannig þar úr, að það sé e. t. v. hægt við það að una, og mun ekki gera um það nú frekari ágreining.

Í 12. gr. þessa frv. segir að aðaluppdrættir og séruppdrættir að húsum og öðrum mannvirkjum skuli gerðir af arkitektum, byggingarfræðingum, tæknifræðingum og verkfræðingum, hverjum á sínu sviði, svo og af búfræðikandídötum úr tæknideildum búnaðarháskóla, að því er landbúnaðar­byggingar varðar, og öðrum, sem hlotið hafa til þess rétt áður en lög þessi gengu í gildi. Starfs­svið markast af staðfestri tveggja ára starfs­reynslu þessara manna. Nú er ekkert út af fyrir sig við það að athuga, að reynt sé að vanda til uppdrátta af húsum og öðrum mannvirkjum. Síst hef ég á móti því. En einhvern veginn vil ég hafa nokkurn fyrirvara á því, að þessir aðilar einir megi teikna hús og önnur mannvirki, það verði fyrst og fremst að vera háð því, hvað byggingarnefnd á hverjum stað vill staðfesta. Ef teikning er lögð fyrir byggingarnefnd, sem í alla staði uppfyllir þær kröfur sem hún gerir, þá er það í raun og veru ósköp eðlilegt að hún hafi til þess heimild að staðfesta þá teikningu og skrifa upp á hana þó að það séu ekki arki­tektar, byggingarfræðingar o. s. frv. sem hafa gert þessa uppdrætti.

Aðeins til gamans get ég sagt frá því, að kona ein austur á landi, sem hefur aldrei lært neitt í teikningu nema í barnaskóla, teiknaði hús nú fyrir skömmu og fékk arkitekt hér í Reykjavík til þess að fullkomna teikningu sína og skrifa upp á hana, því að auðvitað treysti byggingar­nefndin á staðnum ekki þessari konu fyrir svona vandasömu verki. Arkitektinn breytti ekki einni einustu línu í þessari teikningu konunnar, og það sem meira var, fyrir undirskriftina tók hann nákvæmlega sama gjald og hann hefði tekið fyrir að teikna húsið og það alveg frá grunni. Og enn til viðbótar þessu, svona til gamans, þá bætti hann þessari prýðilegu teikningu í safnið sitt og mun nú vera með hana á boð­stólum og hafa boðið a. m. k. einum aðila að nýta þessa prýðilegu teikningu sem hann þarna fékk í hendur.

Þetta er saga sem á ekki beint skylt við þetta, en ég sem sagt vil hafa fyrirvara um að þessir menn megi einoka þetta alveg. Það eru byggingarnefndirnar á hinum einstöku stöðum sem verð­ur að treysta til þess að staðfesta ekki aðrar teikningar en þær sem standast allar kröfur, og síðan kemur húsnæðismálastjórn og tæknideild hennar inn í málið einnig.

Það er einnig sama í sambandi við 21. gr., þar segir: „Byggingarfulltrúi skal vera arkitekt, byggingarfræðingur, byggingartæknifræðingur eða byggingarverkfræðingur.“ En þó er sagt hér: „Í dreifbýli er heimilt að ráða búfræðikandí­data úr tæknideild búnaðarháskóla í stöðu bygg­ingarfulltrúa.“ En síðan kemur að vísu: „Fáist ekki maður í stöðu byggingarfulltrúa, sem full­nægi skilyrðum 1. mgr., getur sveitarstjórn að fengnum tillögum byggingarnefndar ráðið húsa­smíða- eða múrarameistara til starfans.“ Álíka fyrirvari hefði kannske mátt vera í 12. gr. og þarna er, því að ég veit að víða úti um land er þetta atriði, sem er tekið fram í 1. mgr., ger­samlega óframkvæmanlegt, þar er gersamlega óframkvæmanlegt að ráða byggingarfulltrúa sem væru eitthvað af þessu.

En ég treysti sem sagt á meðferð í þessari n., sem ég á sæti í, að hún verði þó nokkur, eftir því sem tækifæri gefst til, og treysti þar á hinn sanngjarna og ágæta forseta okkar, að hann muni lofa okkur að hafa þetta frv. til þeirrar skoðunar sem mögulegt er, þó að ég harmi það að félmn. beggja deilda skyldu ekki vinna saman að þessu máli, eins og ég tel að þurfi að gera í miklu fleiri málum, um það séu ekki nema kannske tveir eða þrír dagar eða svo sem önnur þn. fær til þess að skoða frv. í ljósi umsagna um það.