29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. meiri hl. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi F. Seljan talaði um þetta sem sýndarmennskufrv., frv. um fæðingarorlof. En ég held að við getum nú sagt með fullum rétti, að þetta frv. hafi verið nokkurs virði þjóð­félaginu. Konur munu nú hafa fengið einhvers staðar á milli 150 og 200 millj. kr. í fæðingar­orlof frá uphafi þessara laga. Í ljós hafa komið við framkvæmd þeirra vissir annmarkar sem við nú erum að reyna að leiðrétta, og ég vil taka það skýrt fram, að ég hef nú álit lögfræðings á því, að þessi leiðrétting muni ná til þeirra kvenna sem ekki hafa hlotið orlofið í samræmi við þessi lög, en hefðu átt að gera það ef þau hefðu verið frá upphafi eins og þau verða nú eftir samþykkt þessa frv.

Það virðist vera almenn skoðun að fæðingarorlof eigi ekki heima í atvinnuleysistrygginga­lögunum. Eins og ég tók fram 1975 við umr. um upphaflegu lögin, þá er ég ekki jafnsannfærður um þetta atriði. Í lögum um atvinnuleysistrygg­ingar er kveðið svo á, að þeir, sem verða atvinnulausir af öðrum ástæðum en sjúkdómum, skuli hljóta atvinnuleysisbætur. Nú er fæðing ekki sjúkdómur, og ég sé ekki annað en að það komi vel til greina að fæðingarorlof kvenna eigi fulkomlega heima þarna, því þær eru atvinnulausar, ekki vegna sjúkdóms, heldur vegna þess að þjóðfélagið skapar þeim ekki aðstöðu til að geta unnið. Þær verða að gæta barna sinna einhvern ákveðinn tíma. Ef þeim væri sköpuð t. d. aðstaða til heimavinnu, þá væru þær færar um að leysa hana af hendi, en að fara út á vinnu­stað og sækja sína vinnu eins og þær höfðu gert fyrir fæðingu, það geta þær ekki þennan ákveðna tíma. Ég er því alls ekki viss um, jafnvel þó að þetta verði rannsakað af þar til hæfum mönnum, eins og vera ber og ákvæði til bráða­birgða leggja áherslu á, hvar þetta skuli vera og hvaða tekjustofn skuli fá, þá held ég að það þurfi að rannsaka það vel hvort fæðingarorlofið á ekki einmitt heima þarna og er ekki á réttum stað. Ég held að það sé á réttum stað.