02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4082 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess, að ég er aðeins frsm. meiri hl. sjútvn. þar sem minni hl. á hér sérálit. Sjútvn. hefur rætt og athugað þetta mál, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. þm. Guðlaugur Gíslason, hefur óbundnar hendur um afstöðu til málsins. En hv. þm. Garðar Sigurðsson skilar séráliti og leggur til að frv. verði fellt, og ég trúi, enda þótt hv. þm. Sighvatur Björgvinsson væri fjarstaddur nefndarfundinn, að hann muni fylkja liði með honum í þeirri afstöðu til málsins.

Þetta mál barst hv. d. frá Ed. þar sem það fékk mjög rækilega meðferð, og ég hygg að öll­um þm. séu kunnir málavextir. Skal ég ekki fjöl­yrða um málið að öðru leyti en því að rifja það upp, að það var fyrir forgöngu og eftir eindregnum óskum samtaka sjómanna og útvegsmanna við samningsgerð um kaup og kjör 1975 sem hafinn var undirbúningur að gjörbreytingu á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Í ársbyrjun 1976 hafði aðilum tekist að ná höndum saman um till. um gagngerðar breytingar, og varð ríkis­valdið mjög greiðlega við þeirri málaleitun að breyta lögum eftir því sem efni stóðu til varð­andi þær breytingar. Í framhaldi af því fóru svo fram samningar um kaup og kjör og undir­ritaðir, svo sem venja er til, af öllum aðilum sem þar áttu hlut að máli. En það er áreiðan­lega ekki of mikið sagt þótt fullyrt sé, að fulltrúar samtaka launþega hafi ekki staðið við yfir­lýsingar sínar og undirskriftir sem þar fóru fram. Fyrir því var það, að þegar þessir samningar voru bornir undir hin einstöku félög, þá var það meiri hluti þeirra sem felldi samningana, aðeins örfá sem samþykktu þá.

Það voru gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að ná sáttum í þessum málum, m. a. með sátta­tillögu sem fram var borin í júlímánuði, trúi ég að hafi verið, og það var ekki fyrr en allt um þraut að hæstv. sjútvrh. sá sig til neyddan að setja brbl. þau sem leitað er staðfestingar á hér. Það var á ystu nöf sem það var gert í sept. s. l., þegar séð var að mikil upplausn blasti við í þessum málum og ringulreið, þar sem kjör voru mjög mismunandi, og gat eins og fyrir lá haft mjög alvarlegar afleiðingar ef ekki væri gripið í taumana. Þó er þess að geta, að um töluverðar kjarabætur var að ræða með setningu brbl., þó að þau væru að mestu byggð á sáttatillögunni sem lögð var fram, en umfram það sem samningar höfðu þó gert ráð fyrir þegar þeir voru undirritaðir á sínum tíma veturinn 1976.

Það er sem sagt einróma álit okkar meirihlutamanna, hv. þm. Péturs Sigurðssonar, Jóns Skafta­sonar, Tómasar Arnasonar og mín, að staðfesta beri þessi lög og samþykkja þetta frv. óbreytt.