03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4269 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég er enn efnis­lega andvígur mörgum ákvæðum í frv. því sem hér er til afgreiðslu, og vísa ég í því sambandi til ummæla sem ég viðhafði í ræðu sem ég flutti þegar þetta mál var á sínum tíma fyrst lagt fram hér í þessari hv. þd., á Alþingi 1974–1975.

Núv. ríkisstj., sem ég styð og ber fyllsta traust til, ákvað hins vegar að þetta mál skyldi fram ganga, og stefna sú, sem mörkuð er í frv., var lögfest á hv. Alþ. vorið 1975. Frv. það, sem hér er til afgreiðslu nú, er að mínu mati nánast formsatriði, þ. e. að samþykkja annan erlendan samstarfsaðila í staðinn fyrir Union Carbide sem samkomulag hefur orðið um að hætti þátttöku í hinu Íslenska járnblendifélagi hf. Loks, síðast en ekki síst, legg ég áherslu á að framkvæmd þessa máls, ef að lögum verður, mun heyra undir núv. hæstv. iðnrh. sem nýtur alveg sér­staks trausts míns. Ég er öruggur um að hæstv. ráðh. hefur fullan hug á því, að allt, sem í mann­legu valdi stendur, verði gert til þess að halda svo á málum að rekstur fyrirhugaðs fyrirtækis megi verða þjóðinni í heild til farsældar.

Með hliðsjón af framansögðu vil ég ekki ganga gegn samþykkt frv. og segi því já.