04.05.1977
Neðri deild: 90. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4296 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

172. mál, umferðarlög

Tómas Árnason:

Hæstv. forseti. Mér er ljóst að það eru engin tök á því að hefja umr. um þetta mál eins og ástatt er þar sem þinglausnir eru fram undan. En ég vil taka undir þau sjónar­mið sem hér hafa komið fram, að það geti verið varasamt að samþykkja skyndilega svona breytingu á umferðarlögum. Það er nú þannig að almenningur fylgist ekki með lagasetningu, og það þarf tíma til þess að menn átti sig á slíkri breytingu sem hér er um að ræða. Ég óttast, ef þetta væri lögleitt þegar í stað, að þá gæti það valdið óþægindum og jafnvel slysum. Þess vegna hygg ég að það sé hyggileg ábending, sem hefur komið fram frá fulltrúa í dómsmrn., að það sé varasamt að lagabreyting eins og þessi taki gildi nú þegar. Ég er þess vegna fylgjandi því að ekki verði hrapað að afgreiðslu málsins og almeningi verði gefinn nokkur tími til þess að átta sig á breytingu eins og hér er lagt til að gerð verði á umferðarlögunum.