09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

55. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef áður látið það í ljós við hv. flm. þessarar þáltill. að ég er ekki sáttur með tillgr. eins og hún er orðuð. Í þáltill. er því slegið föstu að undirbúa skuli í Hafnarfirði framtíðaraðsetur fyrir Landhelgisgæsluna. Það er nú svo með mig, að ég vil gjarnan vita hvað verkin kosta áður en tekin er ákvörðun um framkvæmd þeirra, m.a. vegna þess að val á einni framkvæmd er æðioft vegna skorts á fjármagni, höfnun á annarri framkvæmd eða a.m.k. frestun. Þetta á alveg jafnt við þótt um sé að ræða verkefni í mínu kjördæmi eða jafnvel í minni heimabyggð. Ég er ekki fyrir fram samþykkur framkvæmd einstakra verkefna einungis vegna þess að kjördæmið eða heimabyggðin eigi í einhverju að njóta þeirra. Það er mér t.d. í þessu tilfelli ekki nóg að framkvæmd verkefnis sé, eins og segir í grg. með þáltill., ánægja og heiður fyrir Hafnarfjörð.

Í fyrsta lagi hlýt ég spyrja: Er brýnni þörf á bættri aðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna að því er varðar húsbúnað og bryggjur en að því fjármagni, sem til slíkra úrbóta færi, væri varíð til annarra framkvæmda sem mjög verulega og alvarlega er knúið á um? Forstöðumaður Landhelgisgæslunnar hefur jafnan komið á fund fjvn. í sambandi við framlög til hennar á fjárl., nú síðast fyrir fáum dögum. Frá hendi hans eða landhelgisgæslunnar liggur engin ósk fyrir um bætta aðstöðu í landi varðandi húsnæði eða hafnarframkvæmdir, hvorki hér í Beykjavik né annars staðar.

Í öðru lagi er ljóst, að við flutning Landhelgisgæslunnar til Hafnarfjarðar þyrfti nýja húsbyggingu og sérstaka einkabryggju sem mundi að öllum líkindum kosta a.m.k. 150 millj. kr. Ég skal ekki dæma um hvort þörf væri á slíkri framkvæmd ef aðsetur Landhelgisgæslunnar yrði flutt annað, en í Hafnarfirði þyrfti slíka framkvæmd, enda kemur það fram í grg. með þáltill.

Mér er vel ljóst hvað á skortir um hafnarmannvirki fyrir fiskiskipaflotann hvarvetna á landinu, og ég hef það mikinn áhuga á úrbótum í því efni og mér er það vel kunnugt um vöntun á fjárveitingum til úrbóta í því efni, að ég vil miklu heldur að 150 millj. kr. sé varið til viðbótarhafnarframkvæmda fyrir fiskiskip, hvar sem væri á landinu, en að horfa á eftir þeirri fjárhæð í einkabryggju fyrir Landhelgisgæsluna, jafnvel þótt í Hafnarfirði væri. Það er að mínum dómi miklu meiri þörf á hafnarframkvæmdum fyrir fiskiskipaflotann en Landhelgisgæsluna. Svo alvarlegt er ástandið varðandi aðstöðu fiskiskipaflotans í höfnum landsins, að þar mundi muna um slíka upphæð. Ég tel því að framkvæmdir fyrir fiskiskipaflotann eigi að sitja í fyrirrúmi fyrir einkabryggju fyrir Landhelgisgæsluna.

Þótt verið geti að Landhelgisgæslan sé stolt íslendinga, eins og hv. flm. segir í grg. með þáltill., þá eru sjómenn á íslenskum fiskiskipum það enn frekar í mínum augum og framkvæmdir, sem bæta úr eða auðvelda í einhverju aðstöðu sjómanna, eiga að sitja fyrir framkvæmdum sem e.t.v. eru óþarfar eða geta a.m.k. beðið um óákveðinn tíma.

Ég tel eðlilegt að hugað sé að framtíðaraðsetri fyrir Landhelgisgæsluna, en í því efni á að bera saman ýmsa valkosti, en ekki að byrja á því að slá fastri ákvörðun um einn tiltekinn stað. Það er óeðlilegt og það vil ég ekki að sé gert, jafnvel þótt hér sé Hafnarfjörður sá staður sem nefndur er. Það gæti jafnvel komið í ljós að aðrir staðir gætu tekið við Landhelgisgæslunni án þess t.d. að verja þurfi 150 millj. kr. í einkabryggju fyrir hana. Þess vegna vil ég mælast til þess við þá n., sem fær þessa till. til athugunar, að hún breyti tillgr. í þá átt, að á þessu stigi fari fram könnun á því hvar skynsamlegast er að framtíðaraðstaða Landhelgisgæslunnar verði, en niðurstöðunni ekki þegar slegið fastri með samþykkt till. eins og hún er. Í þeirri athugun á Hafnarfjörður að koma jafnt til greina sem aðrir staðir.

Ýmsir kunna að furða sig á því, að ég skuli ekki, vegna þess að till. varðar, að því er segir í grg., ánægju og heiður bæjarbúa í Hafnarfirði, taka á jákvæðari hátt undir efni hennar. Ég hef gert grein fyrir því, hvers vegna ég geri það ekki, og ég vil helst að hafnfirðingar sem aðrir viti skoðun mína frá fyrstu hendi. Á tímum vinstri stjórnarinnar, þegar ég gegndi störfum formanns fjvn., var þess farið á leit við mig að ég beitti mér fyrir flutningi Landhelgisgæslunnar eða reyndi að knýja á um það að landhelgisgæslan yrði flutt til Hafnarfjarðar, en afstaða mín var hin sama og nú. Ég hef ávallt talið að barátta fyrir hagsmunamálum einstaks kjördæmis eða bæjarfélags eigi ekki að vera fólgin í því að fylgja öllum kröfum sem eru gerðar fyrir hönd viðkomandi aðila, heldur verði jafnan að taka ákveðið tillit til heildarhagsmuna og meðferðar fjármuna. Ef haldið er á loft kröfum sem er ekki hægt að dæma fullkomlega sanngjarnar og tímabærar, þá gerir það mönnum einungis erfiðara fyrir þegar á hinn bóginn er um að tefla rökstuddar réttlætiskröfur frá sömu aðilum.