09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

55. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Mér þykir slæmt að hv. flm. þessar þáltill. skuli hafa rangfært orð mín hér áðan. Það kom hvergi fram af minni hálfu að ég væri andvígur því, að kannað yrði hvar aðsetur Landhelgisgæslunnar ætti að vera. Ég tók það alveg sérstaklega fram, að í þeirri könnun, sem ég teldi að ætti að fara fram ætti Hafnarfjörður að koma jafnt til greina og aðrir staðir, en ekki ætti að slá því föstu í sjálfri tillgr. að aðsetur Landhelgisgæslunnar skyldi vera Hafnarfjörður.

Mér finnst orð hv. flm. benda til þess, að hún hafi ekki alveg gert sér grein fyrir hvað felst í þeirri till. sem hún er að flytja. Ég ætla að lesa tillgr. upp, með leyfi hæstv. forseta, þar stendur: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna og undirbúa framtíðaraðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna í Hafnarfirði.“ Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hverju er slegið föstu í þessari till., og það er algjörlega rangt að ég hafi haft á móti því að Hafnarfjörður kæmi til greina í sambandi við þá könnun sem ég tel rétt að fari fram. Ég vil einungis ekki láta slá því föstu í sjálfri till. og samþ. fyrir fram að aðsetur Landhelgisgæslunnar skuli vera í Hafnarfirði. Ég tók skýrt fram í ræðu minni að þar ætti Hafnarfjörður að koma til álita eins og aðrir staðir.