09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi við ríkisstj. Bretlands um takmarkaðar veiðar breskra togara var vísað til utanrmn. N. var ekki sammála um afgreiðslu málsins, en meiri hl. leggur til á þskj. 65 að till. verði samþ. óbreytt, og ég tala nú hér sem frsm. meiri hl.

Ég vil leyfa mér að hefja mál mitt með því að rifja upp nokkra þætti úr sögu landhelgismálsins. Þó verður þar ekki farið lengra aftur en til síðustu aldamóta. Ég mun fara snöggt yfir einstaka þætti þessa máls, en þess er að minnast að þá, um aldarnótin eða árið 1901, gerðu danir án nokkurs samráðs eða samþykkis íslendinga, en Ísland var á þessum tíma ósjálfstætt ríki, samning við breta vegna þeirra eigin hagsmuna, dana, um að landhelgin við Ísland skyldi vera 3 sjómílur. Ef landhelgislínan, þessar litlu 3 sjómílur, náði ekki saman við mynni flóanna, sem hún mjög víða gerði ekki, allra síst við hina stærstu flóa, eins og Breiðafjörð og Faxaflóa, Skjálfanda og Húnaflóa og fleiri stóra flóa, var þetta allt saman opið inn að 3 mílum frá fjöruborði. Þarna skröpuðu breskir togarar og aðrir erlendir togarar alveg uppi í fjöruborði, og ekki er hægt að segja að nein raunveruleg landhelgisgæsla væri fyrir hendi.

Það eru þó af því margar eftirminnilegar sögur, að íslendingar reyndu sjálfir að verja þessa litlu landhelgi sína. Má minna á í því sambandi þegar sýslumaðurinn á Ísafirði, Hannes Hafstein fór á árabát með nokkrum mönnum út á Dýrafjörð þar sem breskur togari hafði marga daga verið að veiðum alveg uppi í landsteinum. Sú saga er svo kunn að ég þarf ekki fleiri orðum um hana að fara, en hún endaði svo sorglega að þessum bát hvolfdi og tveir af áhöfninni drukknuðu þar, en hinir komumst naumlega af. Togarinn hélt svo burt en bátur úr landi kom til þess að sækja sýslumann og fylgdarmenn hans, en horft hafði verið á frá Höfn í Dýrafirði hvað var að gerast, í sérstökum löngum ríki, sem ég hygg að ábúendur þar hafi átt, en þessi kíkir er nú geymdur á hinu merka byggðasafni vestfirðinga á Ísafirði.

Einnig má minna á þegar Guðmundur Björnsson sýslumaður á Patreksfirði og Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey voru árið 1910 á ferð með flóabátnum Varanger frá Stykkishólmi, að þá komu þeir að breskum togara sem þeir töldu vera augsýnilega í landhelgi. Flóabáturinn lagði upp að togaranum og skipin sigldu samhliða nokkra stund, sýslumaður stökk þegar upp í togarann og Snæbjörn í Hergilsey á eftir honum. Skipstjórinn á togaranum hafði komið með reidda öxi, en látíð hana falla niður, en Snæbjörn gripið til járnfleygs sem lá á þilfarinu. Síðan sigldi togarinn burt með sýslumann og Snæbjörn alla leið til Skotlands, en Snæbjörn sleppti aldrei tökum á járnfleygnum sem hann hafði tekið áður en til frekari aðfarar kom að þeim.

Ég minnist þess sem ungur drengur á Húsavík, að faðir minn, sýslumaður Þingeyinga, Júlíus Havsteen, gerði ítrekaðar tilraunir til þess að stugga við erlendum togurum sem voru að veiðum innan landhelgi innst inni í Skjálfanda, þar sem voru mjög fengsæi skarkolamið. Ég man eftir því einu sinni að hann fór á mótorbát þar inn eftir til þess að stugga við breskum togara, en af því hlutust engin vandræði, togarinn sigldi á brott og hætti hinum ólöglegu veiðum.

Ég man einnig eftir því, að eftir að við höfðum tekið við landhelgisgæslu og áttum varðskipið gamla, Þór, þá ætlaði hann að taka togara innst inni í Skjálfandaflóa, en togarinn vildi ekki hlýða og sigldi burt. Þetta gamla varðskip okkar var ekki merkilegra en það, að það hafði ekki ganghraða á við togarann. Hins vegar skaut það á hann mörgum skotum — ég held að það hafi verið skotíð eitthvað um 30 skotum í eltingarleiknum. Við húsvíkingar sátum á Höfðanum og horfðum á þessa eftirför sem endaði með því að togarinn slapp undan vegna þess hve Þór var vanbúinn.

Ég vil svo í öðru lagi minnast þess, að við íslendingar öðluðumst viðurkenningu á fullveldi okkar 1. des. 1918. Danir fóru þá með utanríkismál fyrir okkar hönd í umboði íslendinga fyrst í stað og skyldu annast landhelgisgæslu, en frá þessum tíma var rétturinn okkar að segja upp samningnum frá 1901 með tveggja ára fyrirvara. Samt var ekkert aðhafst beinlínis í þessum efnum fyrr en við íslendingar endurreistum lýðveldið 17. júní 1944. Þá var þess skammt að bíða að undirbúningsathafnir væru hafnar til frekari réttar okkar í landhelgismálum. Ólafur Thors var utanrrh. auk þess sem hann var forsrh. í nýsköpunarstjórninni sem stofnuð var í okt. 1944 og hóf hann þá þegar undirbúning frekari sóknar í landhelgismálinu. Hann réð þá sem sérfræðilegan ráðunaut í þjóðarétti ungan þjóðréttarfræðing sem hins vegar hefur síðan komið mjög við sögu og er nú alkunnur þjóðréttarfræðingur og ekki síst á sviði hafréttarmála. Það er Hans G. Andersen núv. sendiherra Íslands í Washington.

Í þriðja lagi vil ég svo minna á það, að í framhaldi af þessu rekur hver atburðurinn annan. Bjarni Benediktsson þáv. utanrrh. segir upp 3 mílna samningnum frá 1901 árið 1949 og féll bann þar með úr gildi tveim árum síðar eða 1951. En árið 1948 höfðu verið sett lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins undir forustu þáv. sjútvrh., Jóhanns Þ. Jósefssonar, og síðari víkkun íslensku landhelginnar byggðist ætíð á þeim grundveili að við íslendingar hefðum einir rétt til ákvarðana á landgrunni Íslands, sem hins vegar var ekki nánar skilgreint í upphafi. En okkar stefna hefur síðan verið að telja að við ættum rétt til landgrunnsins alls og hafsvæðisins yfir því. Að vísu er lengra gengið við síðustu útfærslu í 200 sjómílur og byggt á alþjóðarétti sem er í sköpun á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. En ég vil minna á það, að árið 1949 höfðu fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum forgöngu um það, að laganefnd þeirra skyldi einnig taka fyrir fiskveiðilögsögu þjóðanna. Er nú orðið ljóst hversu þýðingarmikið þetta var og vitna hafréttarráðstefnur Sameinuðu þjóðanna þar um.

Í fjórða lagi minni ég svo á, að fyrst var landhelgin víkkuð fyrir Norðurlandi 1951, það má segja í tilraunaskyni, og urðu af því engar deilur. En síðan var landhelgin víkkuð árið 1952 í 4 sjómílur og lokaðir allir firðir og flóar, en Ólafur Thors var þá utanrrh. Þá stækkaði landhelgi Íslands um 18 þús. km2 á bestu og verðmætustu fiski- og friðunarsvæðum okkar íslendinga. Síðan var landhelgin enn víkkuð í 12 sjómílur 1958, sem er e.t.v. ekki þýðingarmeiri en fyrri víkkunin, og enn er hún víkkuð um 5 þús. km2 með samningnum frá 1961. 1958 var Lúðvík Jósepsson sjútvrh., en Emil Jónsson 1961 og einnig þegar sett voru lög um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland frá 1969, nr. 17 1. apríl. Landgrunnið nær samkvæmt þessum lögum svo langt út sem hægt er að nýta auðæfi þess og var þar með skilgreint.

Eftir útfærsluna í 12 sjómílur á árinu 1958 hélt sóknin áfram og samþ. var mjög veigamikil þál. á Alþ. 5. maí 1959, en þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. farseta:

Alþ. ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenskri fiskveiðilöggjöf, sem bresk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum breskra herskipa innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 4 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja íslendinga til undanhalds, lýsir Alþ. yfir að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi og að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948.“

Mér þykir rétt í þessu sambandi að minna á að ríkisstjórn Íslands hafði áður ítrekað þá stefnu, sem fram kom í orðsendingu til alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna 5. maí 1952 frá fulltrúum hjá Sameinuðu þjóðunum, að ríkisstjórn Íslands sé rétt og skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á einhliða grundvelli til þess að vernda auðlindir landsins, sem landið hvílir á, eins og það var orðað þá, en þessar ályktanir bera með sér að 1959 er komið inn á alvarlegra svið. Það er að bretar eru byrjaðir að beita herskipum. Hið svokallaða þorskastríð hefur hafið innreið sína, en í því fólst vopnað ofbeldi stórþjóðar gegn vopnlausri íslenskri þjóð. Þetta þorskastríð var leitt til lykta með samkomulaginu frá 1961 sem ég að öðru leyti skal ekki gera að umtalsefni nú.

Í fimmta lagi vil ég minna á, að við færum fiskveiðilögsöguna út í 50 mílur og þá þóknast bretum enn að sýna vopnað ofbeldi. Stækkunin í 50 sjómílur fólst í ályktun Alþ. 15. febr. 1972, og var þá gert ráð fyrir að hún kæmi til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. sama ár, en þá var einnig samþ. í þessari þáltill., sem allir þm. stóðu að, með leyfi hæstv. forseta, „að haldið verði áfram samkomulagstilraunum við ríkisstjórnir Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál sem skapast vegna útfærslunnar,“ eins og það var orðað.

Ég skal nú ekki rekja þessi mál nánar, en vekja athygli á því, að það náðist ekki samstaða allra 60 þm. á Alþ. í þessu lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar fyrr en Sjálfstfl. og Alþfl. voru komnir í stjórnarandstöðu og létu þá sitja í fyrirrúmi að slá nokkuð af kröfum sínum til þess að samstaða allra gæti náðst. Sjútvrh.. þá var Lúðvík Jósepsson.

Í sjötta lagi hefur núv. ríkisstj. forustu um, að sjútvrh. hennar, Matthías Bjarnason, setur reglugerðina frá 75. júlí 1975 um 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi.

Enn eru deilur við breta og þjóðverja. Samkomulag náðist við þjóðverja, en ekki englendinga, sem héldu áfram yfirgangi sínum með vopnuðum herskipum og öðrum hjálparskipum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Enn reyna íslendingar að ná bráðabirgðasamkomulagi tiI sátta og friðunar í íslensku fiskveiðilögsögunni, eins og forsrh. fyrrv. ríkisstj. hafði náð með yfir sinni á fund forsrh. breta, sem þá var Heath, til tveggja ára frá því í nóv. 1973 þar til í nóv. 1975. Á meðan var friður á íslensku miðunum og innan fiskveiðilögsögunnar, 200 mílna. En síðan hélt ófriðurinn enn áfram og herskipin koma aftur inn í fiskveiðilögsöguna. Nú fór forsrh. núv. ríkisstj., Geir Hallgrímsson, til viðræðna við forsrh. breta Wilson, í janúarmánuði 1975, en þær tilraunir til bráðabirgðasamkomulags leiddu ekki til árangurs.

Loks er það atriðið í þessum þáttum, að nú var aðstaðan á Íslandsmiðum orðin ákaflega hættuleg, stórskemmdir á íslensku varðskipunum og nærri lá að þeim yrði sökkt. En aldrei slökuðu þau á sinni djarfhuga baráttu við ofbeldið. Að því kom svo að íslenska ríkisstj. ákvað að slíta stjórnmálasambandi við Bretland, en alls munu bresku freigáturnar hafa siglt á íslensku varðskipin yfir 70 sinnum, að ég hygg, þegar allt er talið.

Þegar hugsanleg slit stjórnmálasambands voru rædd í utanrmn. á fundi hennar 18. febr. 1976 lét ég bóka skoðun mína, sem ég stóð einn að og var á þá leið, að við íslendingar gæfum út einhliða yfirlýsingu þar sem greind væru meginatriðin í afstöðu okkar, ef að því yrði horfið, taldi ég ekki ráðlegt að slit stjórnmálasambands kæmu til framkvæmda að svo stöddu Þessi bókun mín er alllöng, en hún er í öllum meginatriðum í samræmi við það sem tókst að ná samkomulagi um milli breta og íslendinga í júníbyrjun þessa árs. Fyrir mér vakti með fyrrnefndri bókun að skýrt kæmi fram, hvað fyrir okkur íslendingum vekti. við værum ekki sífellt að leita eftir því hvaða till. bretar gætu gert eða gætu hugsanlega gengið að. Allir voru andstæðir þeim till. sem fram komu frá bretum að tilstuðlan framkvæmdastjóra NATO rétt fyrir 18. febr. Ég taldi ekki rétt að gera bókun mína opinbera, og kann að vera að heillavænlegast hafi verið að hafa þann framgang mála sem ríkisstj. gerði.

Ég var frá öndverðu samþykkur Oslóarsamningunum eða Oslóarsamkomulaginu, eins og meiri hl. utanrmn. er, sem leggur til að þáltill. um staðfestingu á því verði samþ. óbreytt.

Ég skal nú ekki rekja fleiri þætti úr sögu landhelgismálsins sérstaklega. En ég vil leyfa mér að rifja upp ummæli mín í stuttu víðtali við Morgunblaðið 4. júní s.l., að viðurkenning 200 mílna væri ævintýri líkust í samkomulaginu sem gert var og leitað er nú staðfestingar á. Hygg ég að fleiri séu mér sammála, ekki síst ef menn vilja hafa fyrir því að rifja upp aðeins nokkur atriði í baráttusögu okkar fyrir 200 sjómílna fiskveiðilögsögu, eins og ég hef mjög stuttlega gert. Við skulum aðeins hugsa okkur það, að fyrir 25 árum höfðum við aðeins 3 sjómílna fiskveiðilögsögu.

Með þessu samkomulagi, sem nú er til umr. náðist einnig fram samkomulag um hina svo kölluðu bókun 6 í samningnum við Efnahagshandalagið, um að við njótum að fullu tollafríðinda á ýmsu.n fiskafurðum okkar sem okkur eru mikils virði og ekki verður um deilt. Í þessu samtali sagði ég m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnmálasamband við breta hefur aftur verið tekið upp, og það er mín skoðun að okkur íslendingum ríði á mjög miklu að hafa ætíð vinsamlega sambúð við önnur vestræn ríki. Á þessu varð misbrestur, en nú bygg ég að ótvírætt sé að meiri hl. þjóðarinnar fagni innilega því að lokasigur okkar hefur náðst. Þetta ber m.a. að þakka djarfhug og hreysti hjá áhöfnum varðskipanna og þeim sem falið var að gæta hagsmuna okkar á sjónum. Nú þarf enginn að vakna með kviða fyrir því að einhver stórslys hafi orðið, jafnvel mannslát. Ég árna sjómönnum og fjölskyldum þeirra allra heilla í þessu sambandi.“

Ég lauk þessu samtali með eftirfarandi orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Stundum halda menn að ekkert hafi verið að gerast í landhelgismálinu, en ráðh. og aðrir forustumenn hafa svo sannarlega ekki legið á liði sínu. Geir Hallgrímsson forsrh. hefur með sæmd stýrt þessu máli ásamt með ágætum samstarfsmönnum sínum, en þar er helst að nefna Matthías Bjarnason sjútvrh. og Einar Ágústsson utanrrh. Þeim ber þakkir og heiður.“

Þannig lauk ég þessari grein í Morgunblaðinu. Samkomulagið, sem nú er hér til umr., er grundvallað á fiskveiðilögsögu íslendinga innan 200 mílna, sem ákveðið er um í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, og gengur sums staðar allmiklu víðar Í upphafi var nokkuð deilt um það í blöðum hvort rétt hefði verið að kalla saman Alþ. áður en að samkomulagið var staðfest, og var því jafnvel haldið fram að annað væri stjórnarskrárbrot. Slíkt hefði að sjálfsögðu við engin rök að styðjast, og í langri umr. um staðfestingu samkomulagsins hér á Alþ. við fyrri hluta þessarar einu umr. um málið var lítið að þessu vikið, þó að hins vegar hv. 2. þm. Austurl. og e.t.v. einhverjir fleiri hafi talað um að eðlilegra hefði verið að bera málið fyrst undir Alþingi, en stjórnarskrárbrot í því sambandi nefndi hann hvergi. Það gerði hv. þingmaður ekki heldur á sameiginlegum fundum sem haldnir voru um málið áður í utanrmn. og landhelgisnefnd. Það hefur hins vegar verið vefengt að breska ríkisstj. hafi fallist á að viðurkenna 200 mílna fiskveiðilandhelgina við Ísland með Oslóarsamkomulaginu svo kallaða. En hvað segir í 10. gr. samkomulagsins? Þar segir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samningur þessi skal gilda í 6 mánuði frá gildistöku. Eftir að samningurinn fellur úr gildi munu bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það sem samþ. kann að verða af Íslands hálfu.“

Augljósari viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar tel ég ekki vera hægt að fá. Bretar segja berum orðum, að eftir að samningurinn fellur úr gildi muni bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það sem samþ. kann að verða af Íslands hálfu. M.ö.o.: þeir munu ekki veiða innan 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar nema með samþykki okkar. Er þetta ekki viðurkenning á 200 mílna landhelgi? Við einir ráðum því hverjir veiða þar mikið eða lítið eða ekkert.

Nú liggur það líka fyrir, að bretar hafa lýst því yfir að ef Efnahagsbandalagið ákveði ekki 200 mílna efnahagslögsögu innan sinna vébanda, þá muni þeir einir færa út efnahagslögsögu sína í 200 mílur. En þessa ákvörðun um 200 mílna efnahagslögsögu hefur Efnahagsbandalagið nú tekið. Það liggur einnig fyrir að önnur ríki, sem miklu máli skipta, hafa ákveðið að færa fiskveiðilögsögu sína út í 200 mílur, bæði Bandaríkin, Kanada, Noregur, Mexíkó og fleiri, fyrir utan þau mörgu ríki sem þegar höfðu 200 mílna lögsögu. Verður með nokkru móti haldið fram, að undir slíkum kringumstæðum geti komið til greina frekara ofbeldi af Bretlands hálfu innan okkar fiskveiðilögsögu? Réttur okkar er að fullu og öllu viðurkenndur.

Hitt er svo vitað mál og hefur lengi verið vitað, að bretar eða Efnahagsbandalagið fyrir þeirra hönd mun óska eftir því að bretar og e.t.v. önnur ríki bandalagsins fái að njóta einhverra gagnkvæmra réttinda hér, að þau fái að njóta hér einhverra fiskveiðiréttinda, gegn því að við nytum réttinda innan þeirra efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu sem við gætum metíð þess virði. Að sjálfsögðu er það í fullu samræmi við vilja alls Alþ. frá 15. febr. 1972. Hefur ætíð verið fylgt þeirri stefnu af fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. að sjálfsagt væri og rétt að ræða við Efnahagsbandalagið, ef það óskaði þess, og hlýða á hvaða réttindi það gæti boðið, en við mundum að sjálfsögðu aldrei semja um nema gagnkvæm réttindi eða þau réttindi sem við íslendingar teldum okkur í hag að semja um. Um þetta hafa menn ekki verið ósáttir hér í Alþ., og kom það fram við fyrri hluta umr. um þessa þáltill., að þó að sumir þm. tækju beinlínis fram að þeir vildu ekkert semja nú við Efnahagsbandalagið, þá teldu þeir geta skapast þá aðstöðu siðar að það væri ástæða til þess að semja við Efnahagsbandalagið ef okkur stæðu siðar til boða þau réttindi sem okkur líkaði og við hefðum þá eflt það fiskstofna okkar með þeirri friðun, sem við höfum stofnað til. að við gætum af einhverju látíð. Reynslan af samkomulaginu, sem við höfum nú notið í nokkra mánuði, þ.e.a.s. frá 1. júní, sýnir einnig að veiði breta er um bað bil helmingi minni en hún var í fyrra á sama tíma undir þeirra herskipavernd, þrátt fyrir hina djarfhuga framkomu landhelgisgæslu okkar. Friðunarsvæðin eru algjörlega viðurkennd, en einmitt innan þeirra léku þeir sér að því að láta breska togara veiða undir herskipaverndinni, og fallist er á að hætta smáfiskveiðum eða hlíta þar sömu skilmálum og íslendingar og sömu skilmálum varðandi möskvastærð.

Nú skal ég ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en meiri hl. utanrmn. leggur eindregið til að samkomulagið verði staðfest óbreytt.