09.12.1976
Efri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

66. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það var aðeins ein athugasemd sem ég vildi koma hér á framfæri, sem ég gleymdi hér við 1. umr. Það er út af athugasemd við 2. gr. frv. sem er á bls. 7 í frv., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að lokum skal tekið sérstaklega fram, að n. hefur með ofangreindri till. sinni um breyt. á 12. gr. gengið út frá því að við meðferð vegáætlunar á Alþ. fjalli fjvn. Alþingis í heild um skiptingu fjárveitinga til einstakra stofnbrauta og að ekki verði um þann vegflokk beitt hundraðshlutaskiptingu þeirri milli kjördæma, sem gilt hefur um þjóðbrautir og landsbrautir um nokkurt árabil.“

Ég vil aðeins taka það fram í sambandi við það nefndarstarf sem ég tók þátt í varðandi þetta mál, að við töldum eðlilegt að fjvn., eins og hún á raunar að gera, tæki þetta í heild til athugunar eftir að búið væri að færa þjóðbrautirnar inn í stofnbrautirnar, og okkur datt vitanlega aldrei í hug, ekki einu sinni okkur sem höfum verið hvað frekastir í sambandi við það ranglæti sem okkur hefur verið sýnt í sambandi við hraðbrautirnar, — okkur datt auðvitað aldrei í hug að stofnbrautirnar færu nokkurn tíma inn í þá skiptingu sem nú gildir um þjóðbrautir og landsbrautir. En engu að siður kom það skýrt fram hjá okkur í þessari n., og ég vil taka það fram hér, að það ætti að taka mikið tillit til þess af fjvn. hvernig þessi skipting hefði verið milli kjördæma hvað þann hluta af stofnbrautunum snerti, sem áður hefði verið í þjóðbrautaflokknum og hefur nú verið færður alfarið í stofnbrautaflokkinn. Leit út fyrir á tímabili í n. að þetta yrði nokkurt deilumál í n., hvort við ættum að leggja eitthvað til um þetta eða ekki, gefa einhverja forskrift í þessu efni. Niðurstaðan varð sú, að við létum þetta liggja á milli hluta og eiga sig. En ég hlýt auðvitað að treysta því að þetta verði alís ekki til þess að hlutfall hinna einstöku kjördæma, sem verst eru settir í vegamálum, versni við þetta. Þvert á móti hef ég, eins og ég tók fram við 1. umr., vonast til þess að þarna gæti orðið um einhverja bót að ræða þegar við tækjum bæði hraðbrautirnar og þjóðbrautirnar inn í einu og reyndum að skipta því fé, sem í þann flokk færi, sameiginlega. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að þetta var töluvert rætt í n., hvaða forskrift ætti hér að hafa, og þessi málamiðlun var að lokum samþ. af okkur öllum nm. Svo verðum við auðvitað að treysta á það að fjvn. skipti þessu fé sem allra réttlátlegast og svo Alþ. á hverjum tíma.