26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Þar var frá þessu máli horfið á fundi hv. d. í fyrradag, að hv. 5. þm. Vesturl. hafði borið mér á brýn herfilegan útúrsnúning á sínu máli um frv. um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég legg það undir dóm þeirra sem kunna að vilja hafa fyrir því að kynna sér ræður okkar beggja á þeim fundi, hvort ég hafi haft útúrsnúning í frammi eða annan þann óheiðarleika í málflutningi sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði að ég hefði gert mig sekan um.

Hans óbreytt orð voru þau, að ég hefði sýnt mig að því í þessari umr. að vera orðinn „snillingur að snúa út úr“ og væri það slæm afturför frá því fyrir aldarfjórðungi þegar við hv. 5, þm. Vesturl. vorum samstarfsmenn við Þjóðviljann, þá hefði ég ekki verið að bregða fyrir mig slíkum brögðum. Ég neyðist þess vegna til að rifja upp í sem allra stystu máli hvað það var, sem ég gerði athugasemdir við í máli hv, þm.

Hann hafði í sinni tölu bent á það og haldið því fram, sem oftar hefur heyrst af hógværð hans og lítillæti, að leiklistarstarfsemi og sérstaklega leikritagerð sé vaxtarbroddur listanna í landinu um þessar mundir og það svo mjög, að leiklistinni verði ekki með sanni við annað frekar jafnað en blómaskeið fornbókmennta okkar aftur í öldum. Og í sambandi við þetta hafði hann látið í ljós, að fjárframlag ráðgert til Sinfóníuhljómsveitar væri í litlu samræmi við það sem varið væri sér í lagi til leiklistarstarfsemi áhugamannafélaga um land allt, og bar þær tölur saman.

Þetta taldi ég bera því vott að hv. þm. væri með slíku að telja eftir framlagið til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, vegna þess að það nær ekki nokkurri átt að bera saman þann þátt í framlögum til tónlistar, sem felst í kostnaði við störf Sinfóníuhljómsveitar Íslands annars vegar og hins vegar fjárframlög til leikstarfsemi áhugamanna. Ef þarna á að bera saman það sem sambærilegt er í raun og sannleika, þá er það annars vegar Sinfóníuhljómsveit Íslands og hins vegar Þjóðleikhúsið, og ég benti á að þar hallaðist nú síður en svo á á þann veg að leiklistin væri vanhaldin, þvert á móti fengi hún rúmlega fjórfalt hærri fúlgu, þar sem Þjóðleikhúsið væri, heldur en Sinfóníuhljómsveit Íslands. Að í þessu felist útúrsnúningur eða rangfærsla, því mótmæli ég gersamlega.

Í framhaldi af þessu hafði hv. 5. þm. Vesturl. enn ýmis orð um listastarfsemi af mismunandi tagi, og þau bera því vott að mínum dómi, að hvað sem líður þróun innrætis okkar hv. þm. s.l. aldarfjórðung, þá hefur okkur vissulega hrakað í ýmsu, og þessi ummæli hv. þm. fundust mér bera því næsta glöggan vott, að hann bagaði orðið hættuleg nærsýni í listum. Hann virtist helst ekki annað sjá en leikhús og leikstarfsemi og smávegis fjöldasöng út um augnakrók á öðru auga, og ég tel að slíkt mat sé rangt og leiði ekki til góðs.

Í einu var þó hv. þm. tvímælalaust við sama heygarðshornið og fyrir aldarfjórðungi. Það var þegar hann fór um það mörgum orðum og tefldi hvoru gagnvart öðru, því sem hann kallar annars vegar „menningarfólk“ eða „intelligensíu“ og hins vegar alþýðu. Það var einn af ósiðum persónu sem Gallharður nefndist og kom mjög við sögu í Bæjarpósti Þjóðviljans fyrir nokkrum áratugum, að hann var alltaf að tala í nafni fólksins og nafni alþýðunnar, þótt þar væri ekki annað á ferðinni en einkaskoðanir persónuklofnings eins starfsmanns blaðsins um þessar mundir. Bar þá svo við að kunnur maður, gott skáld og alþýðumaður í bak og fyrir, tók sig til og skrifaði í Bæjarpóst ádrepu um ósiði Gallharðs þessa og sljákkaði þá nokkuð í kauða. Nú virðist þessi málflutningur Gallharðs sáluga afturgenginn hjá hv. 5. þm. Vesturl. þegar hann lætur svo sem andstæða sé annars vegar milli menningarstarfsemi og þess sem hann kallar menningarfólk og hins vegar alþýðu. Þetta er hið versta öfugmæli og hefur sem betur fer ætíð verið hér á landi, því að aðalsmerki íslenskrar menningar er að hún hefur ætíð og ævinlega fyrr og nú verið alþýðumenning en ekki menning fámenns úrvals sem þekkist vissulega frá öðrum löndum.

Ég tel að það sé ekki til eftirbreytni að taka upp málflutning þeirra sem hafa legið á því lagi, einkum valdhafar á sumum slóðum, að upphefja eigin smekk og eigin hagsmuni til drottnunar í menningarmálum með þeim rökum að þeir séu á einhvern dularfullan hátt sjálfskipaðir til þess að tala fyrir munn alþýðunnar og bera hennar smekk til sigurs í menningarmálum. Heimsbyggðin hefur nýlega mátt horfa upp á hróplegt dæmi af þessu tagi þegar kona nokkur austur í Kína, sem nú er orðin ekkja, notaði stöðu manns síns til þess að gerast einvaldsherra yfir listum í því mikla landi, auðvitað í nafni alþýðunnar, og sérstaklega varð tónlistin fyrir barðinu á henni. Þar gerðist hvorki meira né minna en að vestræn tónlist, sem hafði fengið nokkra hylli meðal þessarar fjölmennustu þjóðar heims, var bannfærð um árabil samkv. strangri stéttarlegri skilgreiningu sem mjög er iðkuð bæði þar eystra og jafnvel af sumum hér um slóðir, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni. Sú stéttarlega skilgreining var í stórum dráttum á þá leið, að t.a.m. 18. aldar tónskáld vestræn, eins og Haydn og Mozart, þau væru örgustu talsmenn lénsaðalsins. Nokkru seinna komu til sögunnar menn eins og Schubert og Beethoven. Auðvitað voru þeir fulltrúar hinnar spilltu borgarastéttar vesturlanda og alls þess versta sem hún átti til í fari sínu, að dómi frú Sjang Sjing. Þó tók nú fyrst í hnúkana þegar nær dró okkar tíma. Þar hafði tónskáld að nafni Debussy, sem starfaði um síðustu aldamót, fengið nokkrar vinsældir í Kína, en hann var nú aldeilis strikaður út af tónleikaskrá þar. Sýnt var fram á það með miklum lærdómi og harðsnúnum fræðilegum rökum að hann væri fulltrúi einokunarauðvaldsins, hæsta og versta stigs auðvaldsins, í tónlistinni.

Nú er frú Sjang Sjing fallin frá völdum þar eystra og það er aftur farið að leika vestræna tónlist í kínverskum hljómlistarsölum, þessi þröngsýni og einstefna, sem í frammí var höfð með því að leggja nafn kínverskrar alþýðu við hégóma, er úr sögunni. því meiri ástæða er til þess fyrir þá hér um slóðir, sem verða varir við í fari sínu tilhneigingar til þess að gerast sjálfskipaðir talsmenn tiltekinna þjóðfélagshópa í listum og listasmekk, að varast slíkt forræði.

Þá fékk ég ekki annað skilið á máli hv. þm. en að blómlegt leiklistarlíf í landinu um þessar mundir væri sér á parti og næstum einsdæmi. Ég vil því benda honum á að ekki hefur síður tónlistarlíf og tónlistariðkun blómstrað á síðustu áratugum, og er þar um að ræða að mínum dómi enn meiri umskipti heldur en í leiklistarmálum, þó aukinn viðgangur þeirra sé vissulega gleðiefni. Það eru ekki mörg ár síðan sú hreyfing hófst sem nú hefur orðið til þess að tónlistarskólar starfa í næstum hverju lögsagnarumdæmi landsins, ég held öllum kaupstöðum og flestum sýslum. Þetta eru fjölsóttir skólar, og það er öðru nær en það sé fólk af einhverju sérstöku þjóðfélagslegu sauðahúsi sem sækir þessa skóla. Þangað koma sem betur fer börn fólks af öllum stéttum og stigum og iðka sína tónlist. Tónlistin hefur einnig blómstrað í skólunum sjálfum, þar sem henni er best sinnt, því bera vott skólahljómsveitir ágætar sem víða starfa. Og það er ekki rétt að verkalýðshreyfingin hafi engri listgrein sinnt í landinu nema leiklistinni. Það hefur hún vissulega gert á lofsamlegan hátt, eins og hv. 5. þm. Vesturl. færði fram dæmi um, en verkalýðshreyfingin hefur einnig sinnt tónlist. Hv. þm. ætti t.a.m. að vera kunnugt um Lúðrasveit verkalýðsins þar sem nákomnir menn honum hafa komið fram af mikilli prýði, og söngflokka góða hefur verkalýðshreyfingin einnig haft á sínum snærum.

Mergurinn málsins er sá, að það á að vera hverjum og einum í sjálfsvald sett hvaða listgreinar hann iðkar eða hvaða listum hann vill ljá athygli. Það nær ekki nokkurri átt fyrir mig eða hv. 5. þm. Vesturl, eða aðra að ætla að fara að draga fólk á einhverjar sérstakar sýningar, samkomur eða hljómleika. Það á að ráða þessu sjálft, af hvaða stigum sem það er. Það er engin þörf á neinum sjálfskipuðum menningarsmölum í íslensku þjóðfélagi sem betur fer.

Hv. þm. varð mjög tíðrætt um reynslu sína frá Bretlandi í þessu efni, og má hann þar djarft. úr flokki tala því að hann hefur mjög vanið komur sínar til þess lands fyrr og síðar, svo sem kunnugt er. Ég hef ekki gert mér jafntíðförult til Bretlands, en þó bar það við eitt sinn að fundum okkar hv. 5. þm. Vesturl. bar saman í London. Af máli hans hér í fyrradag hefði mátt ráða að hann hefði þar verið þeirra erinda að iðka fjöldasöng með dokkukörlunum í Whitechapel eða Stepney eða öðrum úr hliðstæðu Dagsbrúnar í Bretlandi, Transport and General Workers Union. En það var nú öðru nær. Hv. þm. bjó þar í skjóli og í húsakynnum kvikmyndastjörnu og kvikmyndastjóra, Mai nokkurrar Zetterling, sem kunn er fyrir framúrstefnu í listgrein sinni, og með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna í það sem segir um listaverk Mai Zetterling í kunnu heimildarriti, Heimssögu kvikmyndanna, og þar hef ég eftir orð Ibs Monty safnvarðar við kvikmyndasafnið í Kaupmannahöfn. Hann segir um fyrsta sjálfstæða verk hennar: „Árið 1962 gerði hún í Englandi stutta mynd, „Stríðsleikurinn“, sligaða af táknmáli.“ Fyrsta leikna mynd hennar, „Elskendur“, eftir sögu Agnesar von Krusenstierna — þetta von er vafalaust einkennisorð alþýðustúlkna í Svíþjóð. „Elskendur“, eftir skáldsögu Agnesar von Krusenstierna, er „afar skapríkt verk um vald kynhvatarinnar yfir mönnum, og sérstaklega er í myndinni ráðist á hjónabandið og durgslega kynhegðun karlmanna“. Svo kem myndin „Næturleikur“ 1966, „móðursýkisleg mynd og ósvífin í áhrifameðulum, kaffærð af æsilegum kyntáknum“.

Hvort þetta er sérlega alþýðleg list, sem hér er í frammi höfð, læt ég hv. dm. eftir að dæma. En það varð helst skilið á máli hv. 5, þm. Vesturl., að Bretland væri ein eyðimörk hvað snerti alþýðumenningu, og tilfærði hann máli sínu til sönnunar ummæli aðstoðarleikhússtjóra Þjóðleikhússins nýlega í London. Ekki skal ég draga í efa að þau hafi verið rétt eftir höfð og séu marktæk það sem þau ná. En Bretland er ekki bara London. Hv. þm. á að vera a.m.k. jafnkunnugur í Yorkshire og þar er til að mynda sýsla sem heitir County Durham og er þar mikið kolanámusvæði. Þar er mjög öflugt námumannafélag og meðal annars, sem það hefur til síns ágætis, er að það efnir til landsfrægrar listahátíðar á ári hverju. Þetta er Durham Miners Gala, þar sem viðhöfð er leiklist og tónlist og með þeim ágætum sem sagt, að fólk sækir þessa listahátíð námumanna langar leiðir af Bretlandi. Það er því ekki rétt að draga þann lærdóm af lélegri sókn erfiðismanna í t.a.m. nýlegt Þjóðleikhús í London, að erfiðismenn í Bretlandi leggi ekki stund á listir rétt eins og á Íslandi, og það meira að segja bæði leiklist og tónlist nokkurn veginn jöfnum höndum.

Ég verð að segja að ekki er greiði gerður listalífi í landinu með því að reyna að upphefja eina listgreinina svo á kostnað annarra, að þær fái ekki allar að njóta sannmælis, síst hér á Alþingi.