28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í gærkvöld flutti sjónvarpið langan, samsettan þátt, sem fjalla átti um horfur í þjóðmálum, en snerist eingöngu um efnahagsráðstafanir ríkisstj. og viðbrögð við þeim. Dr. Gunnar Schram var stjórnandi þáttarins, en tveir fulltrúar vinnumarkaðarins ræddu saman og tveir hagfræðingar létu í ljós álit sitt á umræddum málum.

Þessu til viðbótar kom hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson fram í byrjun og einnig í lok þáttarins. Ráðh. fékk þarna tækifæri til að tala einn til þjóðarinnar, og hann notaði þetta tækifæri m. a. til að ráðast harðlega á stjórnarandstöðuna og till. hennar um lausn efnahagsvandans.

Ég tel að hlutur forsrh. í þessum þætti hafi verið hlutdrægni af versta tagi og sé brot á útvarpslögum. Í 3. gr. þeirra laga stendur ákvæði sem er hornsteinn lýðræðislegrar útvarpsstarfsemi. Segir þar að Ríkisútvarpið skuli gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum. Útvarpsráð hefur það meginhlutverk að gæta þessarar óhlutdrægni, og eru ákvarðanir þess endanlegar. Ég beini því gagnrýni minni gegn ráðinu, enda þótt stjórnandi þáttarins hljóti einnig að taka gagnrýni fyrir uppbyggingu þáttarins, en fáir menn þekkja betur gildandi lög um þetta efni en hann.

Ég ber þessa umkvörtun fram af hálfu Alþfl. Fulltrúi okkar í verðbólgunefnd og talsmaður í þessum málum, hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, er ekki síður reyndur og viðurkenndur hagfræðingur en hæstv. ráðh. Hann hefur rökstutt, að svokölluð 2. leið væri ábyrg lausn á efnahagsvandanum. En í gærkvöld réðst hæstv. forsrh. í sjónvarpi á þessar hugmyndir, rangfærði þær og traðkaði á þeim, en til andsvara var enginn.

Þetta er óþolandi hlutdrægni, og ég krefst þess, að útvarpsráð bæti fyrir brot þetta með því að veita Gylfa Þ. Gíslasyni og e. t. v. öðrum talsmönnum stjórnarandstöðunnar þegar jafnan tíma til andsvara og jafngóðan tíma. Það er eina leiðin sem dugir til leiðréttingar á því misrétti sem gerst hefur.

Ég vil að lokum taka fram, af því að ég hef áður fyrr haft mikil afskipti af útvarpsmálum, að ég hef oft lýst þeirri skoðun minni, að ráðh. hljóti stöðu sinnar vegna að koma mikið fram í sjónvarpi og útvarpi, sérstaklega þegar þeir hafa fréttir að færa þjóðinni. Ég hef óbreytta skoðun á því máli. En í gærkvöld var um allt annað að ræða, þar var framið gróft pólitískt hlutdrægnisbrot sem ég verð að átelja mjög harðlega og krefjast leiðréttingar á.