08.03.1978
Neðri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

205. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Í framsögu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar fyrir nál. félmn. um frv. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, sem hér var að ljúka umr. um, kom fram hver er ástæðan fyrir þeim þremur frv., sem eru á dagskrá þingsins í dag, nr. 5, 6 og 7 á dagskránni. Þetta eru shlj. frv. með shlj. grg. Þótt ég sé að mæla nú fyrir 5. máli á dagskránni, þá vil ég um leið nota tækifærið til þess að mæla fyrir hinum frv. tveimur. Til frekari skýringar vil ég vitna til grg., en þar segir, með leyfi forseta:

„Fjórir lögbundnir lífeyrissjóðir hafa nú skilyrðislaus ákvæði um tryggingu í 1. veðrétti í fasteignum eða ríkisábyrgð, þegar lífeyrissjóðslán eru úr þeim tekin.

Þessir sjóðir eru: Lífeyrissjóður sjómanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður barnakennara og Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna.

Fimmti lögbundni sjóðurinn, Lífeyrissjóður bænda, er ekki bundinn af lögum um tryggingar, en í 5. gr. laga nr. 101/1970, um Lífeyrissjóð bænda, segir: „Heimilt er sjóðstjórn að veita lán til íbúðabygginga fyrir sjóðfélaga gegn veðrétti í fasteigninni“ —- og enn fremur: „Í reglugerð skal nánar kveðið á um fasteignaveð og aðrar tryggingar, sem krafist skal við lánveitingar og verðbréfakaup“.

Misræmið milli lögbundnu sjóðanna, fjögurra þeirra, og ákvæða um þessi efni hjá ólögbundnu sjóðunum kom m. a. fram við flutning frv. um breyt. á lögum um lífeyrissjóð sjómanna nú fyrir skömmu.

Á þetta er einnig bent rækilega í jákvæðri umsögn fjmrn. um það frv. og einnig erfiðleikana við að framkvæma ákvæði framangreindra laga um að skylt sé að tryggja með 1. veðrétti í fasteignum lífeyrissjóðslán úr sjóðum þessum.

Húsnæðismálastjórn krefst undantekningarlaust 1. veðréttar. Hafa stjórnir lífeyrissjóðanna því freistast til að lána með 1. veðrétti B er víki fyrir lánum húsnæðismálastjórnar. Hafi lántaki 1. veðrétt bundinn af einhverjum öðrum lánum en húsnæðismálastjórnar, hefur hann orðið að ganga í byggingarsamvinnufélag til að eiga kost á ríkisábyrgð samkv. ákvæðum C-liðar, 26. gr. l. nr. 36/1952, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum.

Með lögum nr. 59/1973 átti að takmarka mjög veitingu ríkisábyrgða, en í 11. gr. laga þessara segir:

„Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1974 og taka til þeirra íbúða, sem þá hafa eigi verið afhentar eigendum. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 36/1952, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Þau lög gilda þó áfram um íbúðir á vegum byggingarsamvinnufélaga, sem hafist hefur verið handa um að reisa eða veitt hafa verið lán til með ríkisábyrgð fyrir gildistöku þessara laga.“

Í reynd hefur, allt frá því að lög nr. 59/1973 tóku gildi, engin heimild verið til veitingar ríkisábyrgða vegna húsa sem hafist var handa við að byggja eftir 1. jan. 1974. Slíkt hefur þó verið gert til að gera mönnum kleift að taka út lífeyrissjóðslán sín.

Í fram komnu frv. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna er lagt til að skylt sé að hafa veðtryggingu í fasteign innan við 50% af brunabótamati viðkomandi fasteignar eins og það er á hverjum tíma.

Nú hefur verið upplýst af fjmrn., að við veitingu ríkisábyrgðar hafi það yfirleitt miðað við að eigi sé farið yfir 50% af brunabótamati. Heimilað hefur þó verið að fara allt upp í 65% af brunabótamatinu. Reynt hefur verið að greiða fyrir fólki, er fest hefur kaup á litlum íbúðum. þannig að íbúðirnar gætu í reynd verið að veði fyrir húsnæðismálastjórnarláni, lífeyrissjóðsláni og upphæð þar til viðbótar er svarar til hálfs láns húsnæðismálastjórnar. Slík lán hafa stundum fengist hjá sparisjóðum eða hjá aðilum sem gera mjög strangar veðtryggingarkröfur. Ýmsir lífeyrissjóðir hafa 60–65% mörk, t. d. Lífeyrissjóður Sóknar, Lífeyrissjóður vörubifreiðastjóra og Biðreikningur lífeyrissjóðsiðgjalda. Telja verður óráðlegt með hliðsjón af ofansögðu að binda veðtryggingu við 50% af brunabótamati. Lagt er hér til að veðtryggingin verði að hámarki 65% og það verði á valdi stjórnar að hvaða marki hún sé nýtt.“

Eins og hér kom fram áðan hefur félmn. Ed. samþykkt að mæla með og þegar hefur verið samþ. hér í hv. d. breyting á frv. til 1. um breyt. á l. um Lífeyrissjóð sjómanna, sem er shlj. því frv., sem hér er flutt, og þeim frv. tveim, sem í kjölfarið fara.

„Í erindi fjmrn. kemur fram að 1. veðréttur sé sjaldnast laus vegna húsnæðismálastjórnarlána og lagaheimild ekki fyrir hendi til veitingar ríkisábyrgðar þegar um nýbyggingu er að ræða. Brýna nauðsyn ber því til að breyta tryggingarákvæðum hjá öllum þeim sjóðum, er með lögum eru bundnir við 1. veðrétt eða ríkisábyrgð með útlán sín. Leggur rn. því til að veðtryggingarákvæði verði shlj. í lögum lífeyrissjóða sjómanna, starfsmanna ríkisins, barnakennara og hjúkrunarkvenna.“

Það er tekið fram, hverjir hafa mælt með að þessi frv. væru flutt. Þess hefur þó ekki verið getið, sem þar hefur vegið hvað þyngst, en það er að félagsmenn í öllum þessum sjóðum óska yfirleitt eindregið eftir því, að þessar breytingar nái fram að ganga.

Ég vil, virðulegi forseti, leggja til, að þegar umr. um þetta frv. er lokið verði því vísað til 2. umr. og félmn., svo og máli nr. 6 á dagskránni í dag, um Lífeyrissjóð barnakennara, og einnig máli nr. 7., um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna.