11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3309 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Jafnframt því, sem ég þakka hæstv. utanrrh. — að dæmi annarra þátttakenda í umr. — skýrslu hans um utanríkismál, vil ég árna hæstv. ráðh. heilla, að honum skuli hafa borið að höndum sú gæfa að fara með utanríkismál Íslands á því tímabili sem landhelgismálið hefur verið borið fram til sigurs. Þar hefur farið saman sókn án afláts, frá því ákvörðunin var tekin 1971 um útfærslu fiskveiðilögsögu í 50 mílur, og ótrúlega ör og hagstæð þróun á alþjóðavettvangi. Og þess skyldu menn ekki dyljast, að stefna og aðgerðir okkar Íslendinga hafa á þessu tímabili verið eitt þeirra afla sem knúið hafa áfram þróunina á heimsmælikvarða á þessu þýðingarmikla sviði.

Það var sannarlega fullt tilefni fyrir Hans G. Andersen sendiherra að kveðja sér hljóðs á fundi hafréttarráðstefnu fyrir fáum dögum til að minna á hvílík tímamót það voru, þegar Alþingi Íslendinga markaði í þessum málum stefnu með setningu laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins fyrir réttum þremur áratugum. Sú lagasetning og frumkvæði Íslendinga, bæði um aukin yfirráð landsmanna yfir fiskimiðunum fyrir ströndum landsins og um að koma hreyfingu á hafréttarmál hjá alþjóðastofnunum, hafa orkað flestu öðru meira að mínum dómi til að skapa Íslandi virðingu og álit meðal þjóða heims og sannfæra okkur sjálfa um það, hverju hlutverki við getum átt að gegna í samfélagi þjóðanna ef við veljum okkur verkefni við hæfi og höldum á þeim af þeirri þekkingu og af þeirri markvísi sem slíkt frumkvæði krefst. Þessi þróun í hafréttarmálum og hlutdeild Íslendinga í henni er óræk sönnun fyrir því, hverju smáríki fær um þokað þegar það byggir stefnumótun á traustum grunni og fylgir henni eftir af þolgæði.

Annað helsta atriði íslenskra utanríkismála, sem einnig var upp tekið á nýjum grundvelli 1971, hefur ekki komist jafnfarsællega í höfn. Þar á ég við setu erlends herliðs í landinu. Endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin í því skyni að hið erlenda herlið yfirgæfi landið í áföngum varð ekki að veruleika. Nokkur fækkun hefur átt sér stað í hernum, en jafnframt fer fram endurnýjun vopnabúnaðar með þeim hætti, að greinilegt er að Bandaríkjamenn telja sig vera að búast um til nokkurrar frambúðar. Því þykir mér það aldrei of oft endurtekið, að þrátt fyrir allt sem á milli ber íslenskra stjórnmálaflokka um setu erlends hers í landinu, þá er það þó yfirlýst stefna þeirra allra, bæði fyrr og síðar, að hersetan eigi ekki að vera varanlegt ástand. Þessi afstaða fólst þegar í einróma afsvari allra flokka við beiðninni í stríðslok um herstöðvar með extraterritorial réttindum til langrar frambúðar, og þeir, sem síðar gerðu varnarsamninginn við Bandaríkin, sýndu það í verki, að þeir héldu fast við hana, að þeir teldu varanlega hersetu óeðlilega og óæskilega, með því að ganga svo frá ákvæðum um endurskoðun og uppsögn samningsins, að það er á færi íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma að binda einhliða enda á hersetuna.

Ég te1 að það væri heillavænleg þróun í íslenskum stjórnmálum í meðferð þessa vandmeðfarna og viðkvæma utanríkismáls, ef stjórnmálaflokkarnir litu — einstöku sinnum a. m. k. — til þessa atriðis, sem þeir eru sammála um, ekkert síður en til þess sem á milli ber. Þessu atriði eru gerð skil í nýsettri stefnuskrá SF á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Hernaðarþýðing hafsvæðisins umhverfis Ísland er mikil eins og hernaðartækni stórveldanna er nú háttað. Rótgróinn ágreiningur er með þjóðinni um hversu hún fái best séð öryggi sínu borgið við ríkjandi aðstæður. Eitt er þó sameiginlegt stefnu allra stjórnmálaflokka í því máli: Þeir hafa allir lýst sig andvíga því, að erlend herseta í landinu verði varanlegt ástand. Ætti því að geta náðst samstaða um að undirbúningur hefjist að því, að landsmenn efli öryggiseftirlit á landinu og umhverfis það með aukinni land- og lofthelgisgæslu. Ekki má lengur dragast að hefja stefnumótun á því sviði.“

Þetta mál er svo umfangsmikið og vandasamt, að menn ættu að geta staðið saman um að skoða það til hlítar, hvort sem þeir telja ráðlegt að losa sig við erlendu hersetuna fyrr eða síðar. En það er að mínum dómi sjálfsblekking að ætla að Íslendingar geti í því máli beðið þess með hendur í skauti, að Fróðafriður renni upp og stórveldin láti af allri tortryggni hvert í annars garð. Ef Ísland vill láta á sjá, að það ætli að halda fast við sjálfstæði sitt og ætlast til að aðrir virði þetta sjálfstæði á tilhlýðilegan hátt, er óhjákvæmilegt að Íslendingar séu við því búnir að halda uppi viðhlítandi gæslu á yfirráðasvæði sínu á sjó og í lofti, fylgjast með því, sem þar fer fram, og sjá um að aðrir tefli ekki íslenskum hagsmunum í voða með því að notfæra sér íslenskt yfirráðasvæði á laun í skjóli eftirlitsleysis.

Ástæða er til þess í þessu sambandi að athuga, hvort ekki sé kominn tími til að færa út landhelgi Íslands, hina eiginlegu landhelgi, það svæði þar sem Ísland fer með algjört fullveldi, í þær 12 mílur frá grunnlínu sem nú er viðurkennd alþjóðleg regla um viðáttu fullrar landhelgi og lögsögu strandríkja. Viljum við halda sem fjærst frá ströndum okkar þeim farkostum undirdjúpanna, yfirborðs sjávar og 1oftsins, sem gera sér tíðförult um norðanvert Atlantshaf í hernaðarlegum erindum, væri útfærsla landhelginnar eðlilegur grundvöllur fyrir framkvæmd þeirrar stefnu aukins íslensks öryggiseftirlits sem ég hef gert hér að umtalsefni í stuttu máli.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju yfir því, að hæstv. utanrrh. gat skýrt frá því, að komið sé á rekspöl mál sem víkið var að í þessum umr. fyrir ári. Þar á ég við undirbúning að aðild Íslands að alþjóðasamningum Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi ásamt bókun sem öðrum samningum fylgir. Ég vil láta þá von í ljós, að athugun málsins verði lokið sem fyrst með þeim hætti, að aðild Íslands að samningunum verði að veruleika án þess að verulegur dráttur verði á.

Mjög tel ég æskilegt að unnið sé að því, að Ísland taki þátt í starfi Háskóla Sameinuðu þjóðanna með þeim hætti sem í ráði er samkv. skýrslunni um utanríkismál. Hagnýting jarðhita er þar tilvalið verkefni að mínum dómi, ekki fyrst og fremst fyrir þá sök sem hv. síðasti ræðumaður lýsti, að við höfum máske ýmislegt að læra á því sviði af öðrum þjóðum, án þess að ég vilji þó gera lítið úr því sem við eigum þar ólært. En það eiga margir fleiri ýmislegt ólært í þeim efnum en við og eru mun lakar á vegi staddir. Ég tel ekki horfandi í þann kostnað sem íslenskur ríkissjóður þarf að greiða fyrir stofnun deildar í Háskóla Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði, því að slík stofnun hér á landi mundi tvímælalaust enn efla þá starfsemi sem þegar er hafin, að íslensk vísindaþekking og tæknileikni við hagnýtingu jarðhita verði útflutningsafurð til annarra landa til gagnkvæmra hagsbóta fyrir þá Íslendinga og íslensk fyrirtæki, sem að því standa, og jarðhitalönd í fjarlægum heimsálfum. Við getum tvímælalaust gert vísinda- og tækniþekkingu að arðsuppsprettu og þannig farið að svipað og við vitum að aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert á ýmsum tæknisviðum. Vísir að þessum útflutningi íslenskrar vísinda- og tækniþekkingar er þegar hafinn með verkefnum, sem íslenskir menn hafa áður unnið í Mið-Ameríku eða eru nú að taka að sér í Afríku sunnan Sahara.

Enn má klappa sama steininn, þar sem er framlag Íslands til þróunaraðstoðar við örbirgðarþjóðfélögin í þriðja heiminum. Þar vantar enn grátlega mikið á, að svo ríflega sé af hendi látið að Ísland þurfi ekki að bera kinnroða fyrir sinn hlut gagnvart flestum öðrum velsældarþjóðfélögum. Þó hefur þokast í áttina á þessu sviði, það ber að viðurkenna. Bæði hafa verið lögð drög að beinni íslenskri aðstoð við þróunarlöndin á sviði fiskveiða, og ekki ber síður að fagna niðurfellingu á þeim hvimleiða síð íslenskra stjórnvalda að ganga eftir í eigin þágu framlögum úr þeim sjóðum Sameinuðu þjóðanna sem ætlaðir eru sérstaklega aðstoð við snauðustu þjóðir heims. Ég hika ekki við að þakka utanrrh. sérstaklega fyrir það sem áunnist hefur á þessu sviði, þótt miklu megi enn um þoka til þess að ástandið geti talist viðunandi að mínum dómi.

Það fer ekki á milli mála að þrengingarnar í heimsviðskiptum, sem hófust fyrir 4 árum með olíukreppunni, vara enn. Við höfum orðið óþægilega við það varir og orðið að taka það upp, Íslendingar, í Fríverslunarsamtökunum, hversu útflutningsstyrkir eru farnir að raska þar samkeppnisgrundvelli úr jafnri stöðu sem átti að vera grundvöllur þeirrar stofnunar. Rannsókn er hafin í því efni samkv. íslenskum tillögum. Iðnríkin stóru, sem mestu ráða á heimsmarkaði, hafa enn ekki náð að komast í takt í viðleitni sinni við að ráða við þau vandamál sem upp hafa komið við samdráttinn í heimsviðskiptum og heimsframleiðslu. Bandaríkin, Japan og Efnahagsbandalagslöndin fara að verulegu leyti hvert sína leið, eins og nógsamlega hefur komið í ljós í heimsfréttum síðustu mánaða. Nú síðast um síðustu helgi ákváðu æðstu menn Efnahagsbandalagslandanna á fundi í Kaupmannahöfn að fara sína leið að verulegu leyti án þess að bera saman ráð sín við Bandaríkin sérstaklega, eins og leitast hefur verið við hingað til. Ákvörðun þeirra felur það í rauninni í sér, að Efnahagsbandalagslöndin taka upp ákveðna stefnu, hver svo sem niðurstaðan verður á fundi þeirra, Bandaríkjanna og Japans um mitt sumar.

Þegar þannig stendur á er ekki um að villast, að vaxandi vandi er að gæta íslenskra viðskiptahagsmuna. Ég minni á það, sem fram kom í svari hæstv. sjútvrh. við fsp. á fundi Sþ., sem var strax á undan þessum fundi sem nú stendur. Þar kom fram að sú þróun í tveimur helstu löndum sem kaupa af okkur Íslendingum frystar fiskafurðir, Bandaríkjunum og Sovétríkjunum, sem vakin var athygli á í umr. um utanríkismál í fyrra að átt gæti sér stað í náinni framtíð og haft gæti áhrif á útflutning fiskafurða okkar, sé nú greinilega að verða að veruleika. Slíkt augljóst samhengi milli efnisatriða í þessum umr. frá ári til árs, þar sem sjónarmið, sem sett voru fram sem ábending fyrir ári, reynast bláköld staðreynd ári síðar, sýnir að mínum dómi mjög ljóslega, hversu þarfar og gagnlegar þessar umr. um utanríkismál geta verið.

Ég vil sérstaklega taka undir ummæli ráðh. um frammistöðu fámennrar utanríkisþjónustu okkar, bæði hvað varðar almenn samskipti við önnur ríki og einnig hvað varðar að gæta íslenskra hagsmuna á viðskiptasviði.

Herra forseti. Ég vil ljúka þessum orðum með því að færa þakkir formanni utanrmn. og utanrmn: mönnum öllum fyrir að þeir hafa á liðnu kjörtímabili gert mér fært að fylgjast með störfum þessarar þýðingarmiklu n., þótt flokk minn skorti þingstyrk til að koma manni í þá nefnd.