26.04.1978
Efri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3965 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. 1. minni hl. (Jón G. Sólnes) :

Herra forseti. N. sú, sem hafði þetta frv., sem hér er til umr., til umfjöllunar, varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. vildi samþykkja frv. með breytingu, en ég vil láta þetta frv. bíða betri tíma.

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir, að ég er sammála þeirri stefnu sem mörkuð er í þessu frv., að nauðsynlegt sé að setja hömlur við streymi erlends fjármagns til íslenskra stjórnmálaflokka. Okkur ber að hafa vakandi auga á því, að aðstoðar- og stuðningsaðilum erlendis, sem kynnu að vera, verði ekki leyft að veita aðstoð eða stuðning pólitískum flokkum á þann veg, að þannig megi skoðast að hlutaðeigandi flokkar verði orðnir svo háðir og bundnir að það marki afstöðu þeirra í starfsemi flokkanna á íslenskum þjóðmálagrundvelli. Hins vegar er það sitthvað að banna slíka hluti og skilgreina nákvæmlega hvað við er átt og þá einnig um leið að svo tryggilega sé frá slíkum ákvæðum gengið, að þau valdboð, sem hið háa Alþ. setur um þetta efni, séu ekki brotin.

Nú er það svo, að að mínu áliti er þetta ákaflega teygjanlegt hugtak: „fjárhagslegur stuðningur“. Slíkur stuðningur getur verið á margvíslegan hátt, og birst með margvíslegu móti. Og um það höfum við dæmi, að tíðkast hefur hjá okkur slíkur stuðningur, sem má kannske heimfæra undir stuðning við stjórnmálaflokka, annar en bein fjárframlög. Það hefur verið rætt um auglýsingatekjur, það hefur verið rætt um ýmis menningarsamtök og ýmisleg samskipti milli erlendra aðila sem eru á einn eða annan veg bundin — við skulum kalla það félagslegum, skoðanalegum eða hugsanalegum tengslum. Með þessum samskiptum getur vel skapast leið til þess að hafa áhrif og skapast uppspretta að fjárhagslegum stuðningi. Menningarsambönd og samtök hafa ráð á heimsfrægum rándýrum skemmtikröftum, fá þá endurgjaldslaust og geta selt aðgangseyri á slíkar samkomur sem gætu verið eftirsóttar og getur falist í því fjárhagslegur stuðningur.

Ég skal nú — herra forseti — reyna að stytta mál mitt í umr. um þetta mál. En vissulega gefur þetta frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. tilefni til margvíslegra hugleiðinga. í sambandi við þá stefnu sem mörkuð er með frv. Ég vil þó leyfa mér í sambandi við þetta frv. að benda á, að mér líkar ekki grg. sem fylgir þessu frv., því að það er eins og verið sé að gefa eitthvað í skyn og beina spjótum að einum ákveðnum stjórnmálaflokki. Með leyfi forseta, langar mig til að lesa upp svolítið úr grg.:

„Orsök þess, að flm. flytja nú þetta sérstaka frv. sem varðar einn þátt málsins, er hins vegar sú, að upp komst nú í vetur og liggur fyrir játning eins stjórnmálaflokks, Alþfl., að hann hafi leitað fjárframlaga erlendis frá og fái nú þaðan peninga til þess að kosta útgáfu blaðs síns og standa straum af annarri stjórnmálastarfsemi á landi hér.“

Það getur verið að það markist af stuttri þingsetu minni og því ekki nægilegri reynslu í meðferð mála hér á hinu háa Alþ., en ég verð að segja að mér finnst persónulega að hér sé of harkalega að orði komist. (StJ: Er þetta satt Jón?) Ég þykist fylgjast alveg jafnvel með og hver annar, og ég hef ekki orðið var við að hér hafi verið ljóstrað upp einhverju. Þetta kom ekki fram eftir einhverja sérstaka rannsókn. Og mér vitanlega hefur það aldrei farið neitt dult með þessari þjóð, að flokkur sá, sem hér er nefndur, á sínar grundvallarskoðanir að rekja til útlendra sjónarmiða. Hann er meðlimur í alþjóðasambandi flokka sem styðja þá stjórnmálaskoðun sem þessi flokkur hefur fram að bera, og ég held að það sé öllum lýðum ljóst að á milli þessa flokks og þeirra, sem þessi flokkur kallar bræðraflokka sína, t. a. m. á Norðurlöndunum. er ákaflega náið samstarf.

Þegar þessi flokkur var á sínum tíma stofnaður, var hann um leið líka brjóstvörn verkalýðssamtakanna í þessu landi. Það hefur ekki þótt neitt athugavert við það, að verkalýðsfélög, ef þeim hefur legið á, leituðu og sæktust ettir stuðningi frá erlendum samstarfsfélögum. Ég veit ekki hvernig ákvæði eru um samstarf þessara flokka sem mynda að mér skils alþjóðasamband, a. m. k. mjög náið samband hér á Norðurlöndum. Getur vel verið að þar séu einhver ákvæði um gagnkvæman fjárhagslegan stuðning. Og ef það er lífsskoðun, að sú stjórnmálastefna, sem þessi flokkur hefur fram að bera sé um leið stefna sem á að sameina margar þjóðir, þá veit ég ekki hvort það stríðir nokkuð á móti réttlætiskennd að þeir styðji hver annan fjárhagslega ef svo ber undir.

Við Íslendingar höfum verið ákaflega umburðarlyndir, t. a. m. í trúmálum — fjarskalega umburðarlyndir. Við höfum leyft öllum mögulegum trúarsöfnuðum að starfa hér og halda vakningarsamkomur. Við vitum að margir af þessum flækingssöfnuðum hafa meira og minna verið bornir uppi af erlendu fé. Með þessari þjóð eru tveir flokkar sem eru sérstaks eðlis, þ. e. Alþfl. og Alþb. Þeir hafa báðir sótt frumskoðanir sínar til erlendra sjónarmiða, eru báðir ákaflega tengdir erlendum sjónarmiðum og tengsl þeirra eru ákaflega náin. Mér finnst því að það geti ekki verið fjarri rökréttri hugsun, að þar geti einnig verið um einhver fjármálatengsl að ræða. Oft og mörgum sinnum hefur maður séð veiluna miklu: Öreigar allra landa sameinist.

Með þessu frv. er lagt bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila. Hér í okkar litla þjóðfélagi hafa margsinnis farið fram ýmiss konar safnanir til styrktar erlendu fólki. Það hefur oftast verið eitthvað í sambandi við mannúðarlegar ráðstafanir, herferð gegn hungri. Stundum höfum við stutt heiðingjatrúboð. En ég segi fyrir mitt leyti, að þegar ég fer að kafa alveg til botns í þessi mál, þá er mér mjög til efs með til að mynda margar síðustu stórsafnanir, er fé hefur verið sent til vanþróaðra landa, hvort nokkurn tíma hafi nokkur hungruð sál fengið málsverð fyrir það fé. Hafa þessir peningar ekki lent beint í vasa harðstjóra sem ráða þar ríkjum? Ég hef ekki nokkra minnstu tryggingu fyrir því, að við höfum ekki óbeinlínis verið að veita stjórnmálalegt lið.

Fyrir nokkru var tilnefnd mþn. sem var falið það hlutverk að undirbúa frv. til I. um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka. Og ég verð að segja það, að að mínu viti kynni ég miklu betur við að slík nefnd tæki það málefni, sem hér er til afgreiðslu samkv. þessu frv., til athugunar ásamt öðru.

Að því er snertir þær upplýsingar, sem felast í grg., að Alþfl. hafi fengið einhvern fjárstyrk vegna blaðaútgáfu sinnar, þá sé ég ekki að það sé slík hætta á ferðinni um erlend afskipti af íslenskum þjóðmálum að það út af fyrir sig geti ekki beðið þangað til við tökum þessi mál til varanlegra úrbóta og afgreiðslu hér á Alþ., sem ég efast ekki um að er verðugt verkefni og nauðsynlegt. Ég styð heils hugar, að reynt verði að finna lausn á því. Hins vegar álít ég að það þurfi að gefa miklu meiri gaum þessu atriði um fjárhagslegan stuðning, því að hann getur verið margvíslegs eðlis. Og það gæti verið ákaflega slæmt, og ég vil nærri því segja verr farið en heima setið, ef við færum að flaustra af einhverri lagasetningu þessu máli viðvíkjandi sem við værum nærri því vissir um að væri illframkvæmanleg og mundi verða lítið annað en bókstafurinn einn. Ég hef því leyft mér, herra forseti, að leggja til að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Starfandi er 7 manna mþn. til að undirbúa frv. til laga um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka. N. hefur verið falið að hraða störfum. Ed. telur að ekki sé óeðlilegt, að um bann gegn fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og ýmis félög, stofnanir og samtök á þeirra vegum, hverju nafni sem nefnast, verði fjallað af fyrrgreindri mþn., og telur d. því ekki ástæðu til þess að samþykkja nú frv., sem að mjög takmörkuðu leyti kveður á um þau málefni sem snerta starfsemi stjórnmálaflokka almennt, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“