26.04.1978
Efri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. 2. minni hl. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Ef maður athugar þetta mál, sem hér er til umr., með snöggum hætti, þá finnst mörgum ugglaust einhlítt að banna stjórnmálaflokkum að taka við fjárstuðningi erlendis frá, slíkt kunni að geta leitt til óeðlilegrar fylgispektar við hugsanlega hagsmuni fjárveitandans og e. t. v. hafa áhrif á skoðanamyndun meðal ýmissa í landinu. En þegar við hugleiðum málið nánar koma ýmsar spurningar upp í hugann: Er hægt að framfylgja slíku banni svo að til hlítar sé? Hver á að fylgjast með þessu og hvernig? Hvar á að draga mörk? Á að binda þetta bann eingöngu við stjórnmálaflokka eða á að binda það líka við önnur samtök meira og minna pólitísk, þótt þau séu kannske ekki bundin við einn einstakan flokk, heldur jafnvel fleiri flokka? Og þá vaknar spurningin: Er þá ekki enn þá hættulegra þegar fjármagn er veitt til fleiri en eins flokks — við skulum segja tveggja eða þriggja — til að reyna að hafa áhrif innan þeirra vébanda? Mér dettur t. d. í hug í þessu sambandi til umhugsunar fyrir suma flm. þessa frv.: Hvernig líta þeir á starfsemi Varðbergs? Vitað er, eða a. m. k. haldið, að veitt sé töluvert fjármagn til þeirrar starfsemi hér í landi, a. m. k. til ókeypis utanferða fyrir ýmsa sem telja sig þar innan dyra. Á að banna verkalýðsfélögunum hér á landi, sem óneitanlega eru meira og minna pólitískt skoðanamyndandi félög í þjóðfélaginu, að taka við fjármagni erlendis frá til starfsemi sinnar? Á að banna menningarsamtök, sem svo kalla sig og eru það að vissu marki, a. m. k. friðar- og menningarsamtök kvenna eða MÍR? Það er vitað, að t. d. á vegum MÍR koma hingað til lands afbragðs skemmtikraftar. En þeir eru ekki kostaðir af okkur. Þeir eru kostaðir af öðru ríki hingað til lands. Ég held að við förum ekkert í grafgötur með það, sem hér sitjum, að það er ekki eingöngu verið að kynna okkur ágæta menningarstarfsemi, það er líka með lagni verið að reyna að hafa áhrif á skoðanamyndun í landinu. Á að banna að menn fari utan á við skulum segja vikur eins og Eystrasaltsvikuna, eða á að banna okkur að þiggja boð stórveldanna, sem við skulum ekkert leyna okkur að eru að einhverju leyti tilraunir til þess að hafa áhrif á skoðanir okkar?

Ég er ekki sá bannmaður, að mér finnist þetta rétt. Ég treysti því, að menn, sem eru það sem við köllum hugsandi menn, vegi og meti það, sem að þeim er rétt, og það sé ekki ýkjamikil hætta á að svona framlög hafi hættuleg áhrif á skoðanamyndun í landinu. Ef einhver vildi halda því fram, að Alþýðublaðið hafi fengið einu sinni, tvisvar eða kannske þrisvar ókeypis pappír frá Norðurlöndum til þess að hjálpa til við útgáfu blaðsins, þá held ég að margur hljóti að spyrja sig: Hefur það verið áberandi, að Alþfl. hafi meira verið vilhallur undir það sem við gætum kallað hagsmuni Norðmanna, Svía eða Dana hér á landi heldur en menn úr öðrum flokkum? Mér þætti gaman, ef hér væru einhverjir inni sem gætu á það bent, en persónulega er mér ekki kunnugt um það.

Ég held líka að ef við viljum nú skoða málin vel niður í kjölinn, þá sé ekkert síður hætta á að framlög frá þrýstihópum innanlands séu líkleg og kannske hættulegri til þess að hafa áhrif á gerðir manna og skoðanir, þegar að ýmsum ákvörðunum kemur í landsmálum. Haldið þið t. d„ að það sé vegna nákvæmrar skoðanasamstöðu, sem það er, held ég mjög sjaldgæft að Framsfl. gangi á nokkurn hátt á móti hagsmunum kaupfélaga eða SÍS hér á landi? Og allir vita, hvort sem þeir vilja viðurkenna. það eða ekki, að hlöð Framsfl. eru studd af geysilegu auglýsingaflóði frá kaupfélögum hér í landi og SÍS. Eða haldið þið, að það séu ekki nokkrar líkur til þess, að Sjálfstfl. miði afstöðu sína í ýmsum málum út frá því, að blöð þeirra lífa og hrærast á auglýsingatekjum frá vissum stéttum og vissum stórfyrirtækjum hér í lamdi?

Hvort sem menn trúa því eða trúa því ekki, þá held ég að langsamlega mestur hluti þjóðarinnar viti að eftir vissum neðanjarðarleiðum hafa komið og koma enn fjármunir inn í landið til eflingar Alþb. Og ég er ekki svo þröngsýnn, að mér finnist það hafa verið nokkur sérstök goðgá. Ég held, að það hafi verið gott fyrir þessa þjóð að fá þennan flokk inn í hið pólitíska líf hér í landinu, og ég held, að lýðræðishugsunin hér á Íslandi sé það öflug, að við þurfum ekkert að vera hræddir við það, þó að þeir séu eitthvað studdir af þessu fjármagni. Þetta þykir kannske einkennileg ræða í mínum munni af því að ég sé andstæðingur Alþb, að ýmsu leyti, — ég er það ekki að öllu leyti, — en þetta er mín skoðun, að það hafi ekkert gert til þó þeir hafi fengið eitthvert fjármagn utan úr hinni háu og fögru Rússíá.

Og ég er algerlega á móti því, að við verðum svo þröngsýnir, að við þorum ekki að þiggja boð frá erlendum þjóðum, þó að það sé að öllu leyti fyrir okkur greitt, því að við þurfum að kynnast erlendum þjóðum og höfum kannske ekki allir tök á því á annan hátt betri en þennan. Persónulega get ég lýst því yfir, að ég, hef þegið eða öllu heldur ég hef átt þess kost að fara bæði til Bandaríkjanna, Kína og Rússlands í svona boðum, sem ég efa ekki að hafa kostað boðendur stórfé, — þetta hafa verið allstórar sendinefndir, — en ég vildi ekki hafa misst af þeirri aukningu á þekkingu og þeirri lífsreynslu sem þessi boð hafa veitt mér.

Þegar allt þetta er athugað og hugleitt, þá finnst mér að þeir, sem hafa flutt þetta frv., — ég er ekkert að draga í efa að þeir hafi gert það í góðum og grunduðum tilgangi, — hafi ekki hugsað málið nógu langt. Hvar á að setja mörkin, ef þetta er bannað á þennan hátt? Er þetta svo óskaplega hættulegt, ef við lítum í kringum okkur, hvernig þetta þjóðfélag hefur þróast og mótast? Mín skoðun er sú, að þetta hafi ekki verið hættulegt, og ég sé ekki nokkur merki þess enn, að það sé hættulegt. Þess vegna legg ég til í þessu nál., að það sé eðlilegt að málinu sé vísað til ríkisstj. í nánara sambandi við þá hugsanlegu rammalöggjöf sem eigi að setja um starfsemi stjórnmálaflokkanna.