28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka formanni fjh.- og viðskn. hve vel hann brást við tilmælum hæstv. ráðh. og gaf mér tækifæri til að fylgjast með meðferð þessa máls á sameiginlegum fundum fjh.- og viðskn. beggja deilda. Sú nána vitneskja, sem þar fékkst, staðfesti í mínum huga þá skoðun sem ég lét í ljós við 1. umr. þessa máls, að efnislega væri, þegar á allt er litið, fengur að frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt á þskj. 600. Annað mál er að það, hvenær og hvernig þetta mál ber að og ýmislegt í aðdraganda þess, er vissulega aðfinnsluvert eins og ég kem að síðar. En hitt vil ég enga dul draga á, að ég tel frv., þegar á heildina er litið, virðingarvert átak hæstv. fjmrh. til að koma til móts við ýmsar helstu aðfinnslur við ríkjandi skattalög. Þar er þó sá galli á gjöf Njarðar að mínum dómi, að í þýðingarmiklum greinum tel ég ekki nógu ljóst á þessu stigi meðferðar málsins, að náð verði tilgangi sem ég tel í rauninni lofsverðan. Ekki fer milli mála að það, sem gert hefur gildandi skattalög óvinsæl og þannig metin af fjölda skattgreiðenda, af miklum meiri hluta skattgreiðenda, vil ég segja, að þau séu óviðunandi, er sú staðreynd, sem legið hefur fyrir og allir hafa kynnst meira eða minna úr sínu umhverfl, að í þjóðfélaginn hefur verið stór hópur skattleysingja enda þótt þeir aðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hefðu miklar og jafnvel stórmiklar tekjur. Brýnasta verkefni við endurskoðun laga um tekjuskatt og eignarskatt hefur verið að loka þeim augljósu götum sem allir hafa vitað að eru á gildandi skattalögunt. Þetta var vitað fyrir svo löngu, að ríkisstj., sem nú er að skila af sér í lok síðasta þings á kjörtímabilinu, tók það á stefnuskrá sína strax í upphafi að ráða bót á þessu með því að undirbúa ný skattalög. Það starf hefur ekki farið betur úr hendi en svo, að það er loks nú á síðustu víkum síðasta þings kjörtímabilsins að v:ð erum að fjalla um niðurstöðuna af þessu starfi.

Það hefur verið rætt mjög um það, bæði þegar fyrra skattalagafrv. ríkisstj. lá fyrir á síðasta þingi og nú síðan þetta sá dagsins ljós, hversu með skyldi fara ákvæði um áætlun tekna sem vantaldar væru hjá þeim sem í rauninni eiga það undir sjálfum sér, hvaða tölur þeir setja á skattframtal sitt. Þar þarf að hvoru tveggja að gæta, að ekki sleppi þeir við skattlagningu sem vissulega hafa tekjur á við margan þann sem skatta greiðir viðstöðulaust, vegna þess að óháðrar vitneskju verður við komið til að ákvarða tekjustig hans, og að ekki sé skattur lagður með þessari áætlunarreglu á þá sem engar tekjur hafa til að standa undir slíkum skatti. Undir það skal tekið, að hér er vandratað meðalhófið. En þessi ágalli núgildandi skattkerfis er svo augljós og svo almennur og hefur slík áhrif á skattasiðferðið í landinu, viðhorf manna til gjalda til opinberra aðila, að ekki er verjandi að gera ekki úrbót á. En ég vil eindregið taka undir það, sem segir í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um skilning á 53. gr. frv., að í ákvæðum þeirrar greinar felist skilyrðislaus skylda skattyfirvalda að taka tillit til atriðanna sem rakin eru í greininni og hafa áhrif á launaupphæð skattþegns. Hér væri farið úr öskunni í eldinn ef með þjösnalegri framkvæmd þeirra ákvæða, sem um er að ræða, væri búið til nýtt óréttlæti í stað þess sem ég er viss um að allir, sem að málinu standa, vilja leiðrétta. Þá er það sjálfsagt atriði, að tap á rekstri er ekki frádráttarbæri frá tekjum rekstraraðila af allt annarri starfsemi, svo sem af launuðum störfum.

Það ákvæði frv., sem flesta varðar og mest athygli beinist að, er tvímælalaust ákvæðið um sérsköttun hjóna. Þar hefur verið horfið frá tillögugerð í frv. í fyrra sem olli miklum úlfaþyt. Það, sem gerðist með hinni nýju reglu um sérsköttunina, er að minna er íþyngt þeim heimilum, þar sem eiginkona hefur verulegar tekjur, heldur en gerst hefði, hefði helmingaskiptareglan verið tekin upp, og ætti þetta tvímælalaust að auðvelda breytinguna frá 50% frádrættinum af atvinnutekjum eiginkonu til þess fyrirkomulags sem gerir minni greinarmun á því, hvort fyrirvinna heimilisins er ein eða þær eru tvær.

Ég tel að þýðingarmesta atriðið að öllu samanlögðu, sem að því miðar að leiðrétta misrétti sem viðgengst af skattheimtu samkv. gildandi lögum séu ákvæðin um skattskyldu söluhagnaðar. Það er enginn vafi á því, að þær upphæðir, sem þar hafa sloppið undan skatti, eru langtum meiri en til að mynda þær sem menn ætla sér að ná til með áætlunarákvæðunum um einstaklinga sem hafa sjálfstæðan rekstur. Og næst þýðingarmestar eru reglurnar um fyrningar sem miðist við verðmæti á hverjum tíma. Þar er í rauninni sett rökstudd fyrningarregla í stað þess handahófs sem átt hefur sér stað með þeim margþættu fyrningarreglum sem undanfarið hafa verið í gildi. Hins vegar er það tvímælalaust vert meiri skoðunar en hér hefur verið unnt að veita málinu, hvort byggingarvísitala er að öllu samanlögðu fullnægjandi mælikvarði á verðbreytingar sem fyrningar eiga að miðast við. Byggingarvísitala er þess eðlis, að í henni er afar stór hluti af launum, svo að hún hreyfist að mjög miklu leyti eftir breytingum á launakostnaði á hverjum tíma. En launakostnaður er mjög misjafnlega stór hluti af verðmæti fyrningarlegra eigna. Niðurstaðan af notkun byggingarvísitölu sem algildrar reglu til viðmiðunar um uppfærslu fyrnanlegra verðmæta til núvirðis á hverjum tíma verður því til þess, að þær eignir, þeir hlutir, þar sem vinnukostnaðurinn er stór hluti, álíka og í byggingum, ættu að breytast að verðmæti mjög nærri réttu lagi, en aftur þær eignir, sem eru þess eðlis, að vinnukostnaður er tiltölulega lítill hluti í myndun verðmætis þeirra, þær fá hagstæðari meðferð heldur en hinir, þar sem vinnulaunakostnaðurinn er stór hluti. Það liggur ekkert fyrir um það í rauninni með dæmum, hver áhrif þessi skekkja getur haft. En þar eins og í fleiri greinum er ástæðan sú, að það hefur ekki unnist sá tími sem æskilegur hefði verið bæði til að undirbúa þetta mál í hendur þm. eins og það er nú lagt fyrir og fyrir þn. að kanna það niður í kjölinn.

Ég vil sérstaklega víkja að einni af brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., sem sé till. um að breyta fyrningarhlutfalli á vélum og tækjum og ýmiss konar lausafé, svo sem ökutækjum, úr 15% í 18%. Þarna eru vissulega í þessum flokki tæki með mjög mismunandi notkunartíma, og það er vandmeðfarið að finna tölu, sem fari nærri réttu meðaltali. Ég er þeirrar skoðunar, að með því að breyta þessari hundraðstölu úr 15 í 18% sé of í lagt, þar sé farið nær þeim tegundum tækja, sem undir liðinn heyra, sem skemmstan endingartíma hafa og því þeim ívilnað sem eiga tæki sem endast mun lengur en þessi tala gerir ráð fyrir. Sömuleiðis skortir mig satt að segja rök fyrir því, að lækkun skattprósentu lögaðila í 14. brtt. sé réttmæt, því að þótt því sé haldið fram, að þar sé um að ræða breytingu til þess að hliðstæð verði skattlagningin á lögaðila og jaðarskatturinn á einstaklinga, þá hef ég ekki komist að raun um að þar sé réttari talan, sem í brtt. felst, heldur en sú sem í frv. stendur, og ég tel að þar hljóti að hafa verið sett að athuguðu máli.

En heildarmeðferð máls þessa af hálfu ríkisstj. er sannarlega aðfinnsluverð. Það er beðið fram á lokadaga síðasta þings kjörtímabilsins að bera fram frv. sem nýtur stuðnings í stjórnarflokkunum að von sé um afgreiðslu. Frv., sem lagt var fram í fyrra, var ekki athugað betur í stjórnarflokkunum en svo, að í ljós kom, að innan þeirra var enginn meiri hl. fyrir afgreiðslu þess þegar á reyndi. Afleiðing þessa fjögurra ára dráttar á að efna loforðið um ný skattalög er að þær breytingar til batnaðar, sem ég fyrir mitt leyti tel að í frv. felist, koma ekki í gagnið til þess að gera skattkerfið réttlátara fyrr en við álagningu 1980, þegar næsta kjörtímabil er nær hálfnað. Staðgreiðslukerfið, sem frv. er lagt fram um og þetta frv. til tekju- og eignarskattslaga er miðað við, er þar að auki svo snöggsoðið, að það eru engin tök talin á að taka það til athugunar, hvað þá afgreiðslu, á þessu þingi. Ég vil benda á það, að breytingarnar á þessu frv. frá frv., sem lagt var fram í fyrra, voru ekki á vitorði okkar í stjórnarandstöðunni fyrr en degi áður en frv. kom fram. Veigamiklir kaflar í þessu frv., margir hinir veigamestu, eru gersamlega endursamdir frá því sem sýnt var á síðasta þingi. Þar má nefna skattamál hjóna og fyrningarreglurnar, svo að stærstu atriðin séu nefnd.

Skattlagning hjóna, eins og hún er sett upp í þessu frv., var skýrð á fundum fjh.- og viðskn. beggja d. með ítarlegum dæmum og sýnt glögglega fram á hver áhrifin yrðu miðað við reynslu af gildandi skattalögum. En þýðingarmestu atriðin um lögaðilana, um fyrirtækin, svo sem skattlagning söluhagnaðar og hinar nýju fyrningarreglur, hafa ekki verið útfærð á nokkurn hátt sem að gagni kemur, þannig að ljóst sé þeim sem um hafa fjallað hvernig þessar nýju reglur og gerbreyttu reglur koma niður, hvort þar sé náð þeim tilgangi sem lýst er yfir t. a. m. með hinum nýju fyrningarreglum, að skattstaða fyrirtækja fari að verulegu leyti eftir stundarstöðu þeirra, að þeir, sem hafa undir höndum og hafa í sínum rekstri eigið fé að öllu eða mestu leyti, séu léttar skattaðir af hagnaði, sérstaklega söluhagnaði, heldur en þeir sem hafa fyrst og fremst eða eingöngu undir höndum lánsfé. Þetta er mjög holl regla og ætti að hafa æskilegar afleiðingar fyrir viðskiptlíf. En því miður hefur ekki unnist tími til að gera þann tímafreka samanburð sem vissulega þarf til þess að sýna, hver munurinn yrði á framkvæmdinni eftir þessu frv., ef það verður að lögum, miðað við gildandi reglur. Ég tel þetta bera þess ljósan vott, að þær niðurstöður, sem liggja fyrir í þessu frv., hafi orðið svo seint til hjá hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum að það hafi hreinlega ekki unnist tími til nauðsynlegrar undirbúningsvinnu til að ganga frá skýringarefni og dæmum sem dygðu til þess að leiða mönnum fyrir sjónir hvernig þessi ákvæði koma út í reynd. Meiri hl. fjh.- og viðskn. vísar til þess, að unnt sé að reikna þessa hluti út með nákvæmni áður en frv., ef að lögum verður, tekur gildi. Þetta sýnir að mínum dómi að það, sem fyrir hæstv. ríkisstj. vakir og þeim meiri hl., sem hana styður, er í rauninni að koma nafninu á setningu nýrra skattalaga, enda þótt að sumu leyti sé enginn botn fundinn sem óyggjandi sé í þýðingarmiklum efnisatriðum þess máls sem við erum að fjalla um. Það er rennt blint í sjóinn með sum afdrifaríkustu ákvæði þess lagafrv. sem fyrir liggur, sérstaklega hvað varðar skattlagningu lögaðila og meðferð sölugróða. Í mínum augum eru ákvæðin um skattlagningu einstaklinga ljós og í heild til bóta miðað við þau lög sem nú gilda. Aftur á móti eru önnur atriði sem ekki hafa verið upplýst á fullnægjandi hátt að mínum dómi, og því tel ég að stjórnarflokkarnir verði að hafa veg og vanda af að ráða þeim til lykta. Ég get stutt ýmis ákvæði þessa frv. eindregið, en á málinu í heild get ég ekki tekið ábyrgð með atkv. mínu.