02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4331 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Því, sem hv. 7. landsk. þm. spurði um, get ég ekki svara nú á stundinni, hversu marga lækna vantar á H 1 eð H 2 stöðvar, En það er mjög árstíðabundið, og nú fer s tími í hönd sem vantar yfirleitt lítið af læknum, yfir hásumarið. Þó að slíkt lægi fyrir í dag, þá getur það breyst innan kannske hálfs mánaðar eða þriggja vikna mjög verulega, en þær breytingar eru ekki til langs tíma í senn. Þess vegna er afar illt að byggja á yfirliti, þótt það væri gefið í dag, hvað þetta varðar.

Í sambandi við Eskifjörð, þá er hér líka á bak við, að nú eru miklu traustari samgöngur á milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar og annarra staða á Austfjörðum með tilkomu jarðganga í gegnum Oddsskarð og tilkomu H 2 stöðvar í Neskaupstað og sjúkrahúss þar, svo að trygging fyrir fólk á þessu svæði er auðvitað stórkostleg breyting frá því sem áður hefur verið, eins og allir hljóta að viðurkenna.

Hv. 2. þm. Vestf, spyr um það hvort hér sé ákveðið að færa saman með þessu í eina H 1 stöð Hólmavík og Austur-Barðastrandarsýslu. Þegar formaður nefndarinnar, sem er ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn., ræddi við mig lagði ég mjög fast að honum að halda þessu innan sama kjördæmis, og ég hugsa að það hafi verið fyrir mín áhrif að það var gert frekar en ella hefði verið. En það er ákvæði í 14.10, að þrátt fyrir framangreinda skiptingu og þar til öðruvísi verður ákveðið skuli heilsugæslustöð í Stykkishólmi þjóna Flateyjarhreppi, heilsugæslustöð í Búðardal sjá um læknismóttöku á Reykhólum og heilsugæslustöð á Þórshöfn þjóna Skeggjastaðahreppi. Ég lít svo á, að þessi ákvæði verði í gildi á meðan ekki koma fram óskir frá þessum byggðarlögum sjálfum um að breyta þessu. Ef íbúar Skeggjastaðahrepps vilja tilheyra Vopnafirði er sjálfsagt að verða við því, annars verður það óbreytt áfram. Ég tel það vera rétt að láta alla Austur-Barðastrandarsýslu fylgja í þessu ákvæði, en undanskilja ekki Flateyjarhrepp. Hins vegar verður það á valdi íbúa Flateyjarhrepps sjálfra, ef þeir óska að tilheyra heilsugæslustöð í Stykkishólmi. Í reynd held ég því, að þetta komi aldrei til með að rekast á vilja fólks í þessum héruðum, með því að setja þetta upp með þessum hætti. Í sambandi við það að gert sé í framtíðinni ráð fyrir því, að undir heilsugæslustöð á Hólmavík komi Austur-Barðastrandarsýsla, sem er mannfæsta sýsla landsins, þá eru í þessu frv. og í núgildandi lögum svæði sem eru jafnvel fjölmennari en þessar tvær byggðir og reiknað er með að verði H 1, eins og t. d. Fáskrúðsfjörður með starfssvæði yfir Fáskrúðsfjarðarhrepp, að undantekinni suðurbyggð Reyðarfjarðar, Búðahrepp og Stöðvarhrepp og svo aftur móttaka eða H stöð á Stöðvarfirði. Ýmsir staðir, þó að þar sé e. t. v. ekki nákvæmlega eins há íbúatala nú og í Strandasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu samanlagðri, eins og Ólafsfjörður, Seyðisfjörður, Vopnafjörður og fleiri staðir, sem eru með yfir 1000 íbúa, eru með H 1 stöð: Ég tel því ekki rétt, þar sem það hangir líka á ákaflega veikum þræði, hvort þessi breyting verður gerð á næstu árum, að horfið verði frá því að hanna og byggja H 1 stöð á Hólmavík, og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það sé sameiginlegt álit allra þeirra embættismanna og fagmanna, sem um þessi mál hafa fjallað.

Ég held, að ekki hafi komið fram fleiri spurningar, og læt þetta nægja.