05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem nokkur ágreiningur hefur verið um. Þó er það svo að það hefur hlotið afgreiðslu í Ed. og nálega samhljóða afgreiðslu þar. Það er nú komið til 2. umr. í síðari deild, og ég tel að það hvíli blátt áfram skylda á þinginu að afgreiða þetta mál til fullnustu, samþykkja það eða fella.

Það gerir ekki mikla stoð í máli eins og þessu að lýsa yfir að í rauninni séu menn sammála öllu því sem í frv. standi, þeir vilji þetta, það megi bara bíða, það þurfi að skoða málið betur, vita hvort ekki finnist betra orðalag. Hér er spurningin um það, hvort eigi að taka afstöðu til pólitísks máls, til þess stóra máls, hvort það eigi að vera stefna á Íslandi og heimilt á Íslandi að íslenskir stjórnmálaflokkar séu reknir að meira eða minna leyti með erlendu fjármagni. Þetta er ósköp einfalt mál og í rauninni kemur þessu máli ekkert við hvort menn vilja bæta við og segja: Við skulum líka banna sendiráðum að gefa út blöð, við skulum líka banna menningarfélögum að geta út blöð, við skulum líka banna þessum og hinum. — Það er allt annað mál.

Ég fyrir mitt leyti get samþykkt þær brtt. sem eru á þskj. 911. þar sem bætt er við því að banna sendiráðum að gefa út blöð hér og þetta skuli einnig ná til einstaklinga og samtaka. Og það þarf ekki að mínum dómi að vísa þessari brtt. til neinnar n. aftur. Það er ekki siður hér, þegar brtt. eru fluttar, að það sé haft svo mikið við þær að senda þær til n. til sérstakrar umsagnar. Það er alveg þarflaust og alveg sérstaklega eins og komið er nú afgreiðslu þessa máls og starfstíma þingsins. Þó að þessi brtt. yrði samþ, yrði væntanlega frv. samþykkt, hið stóra pólitíska mál, hvernig á að fara með erlendan fjárstuðning til íslenskra stjórnmálaflokka. Eins og ég segi, ef hægt er að ná þessu meginatriði fram skiptir ekki máli þó að þetta sé hengt aftan í. En ég veit líka að það eru til hér menn sem segja: Frv. mundi batna við að samþykkja þetta, en svo er margt annað eftir sem mætti líka hengja aftan í. — Þetta eru leiðir þeirra sem vilja drepa mál, vilja komast undan því að taka afstöðu til málsins. Auðvitað er enginn vafi á því, að þetta stefnumál, hvort eigi að banna íslenskum stjórnmálaflokkum með lögum að þiggja slíkar gjafir eða stuðning, þetta er aðgreint mál út af fyrir sig og kemur því ekkert við, hvort enn þá vantar almenna löggjöf um skyldur og réttindi íslenskra stjórnmálaflokka. Eru menn eitthvað að efast um að það séu til íslenskir stjórnmálaflokkar, ætli það fari mikið á milli mála, hverjir þeir eru, og ætli það þurfi þá meiri lögskýringu í sambandi við það, hvað telst stjórnmálaflokkur, heldur en margt annað sem er að finna í lögum.

Auðvitað eru aths. af svipuðu tagi og hér komu fram í rauninni ekkert annað en tilraunir til þess að tefja máfi, sem sagt hugleiðingar um að erlendir aðilar kunni að hafa styrkt hér viðskiptaaðila í sambandi við útgáfu hjá þeim eða þá útgáfu sendiráða sem er mjög algeng í mörgum löndum og er þegar komið á hér hjá okkur. Ég skal ekkert segja um það, hvað okkar almennu samningar í sambandi við diplómatísk viðskipti segja, hvort þeir gera almennt ráð fyrir því, að sendiráðin skuli hafa heimildir af þessu tagi. Mér er alveg sama um það. Ég er reiðubúinn til þess að banna það, jafnvel þó að það sé í sjálfu sér óskylt mál. En ég vil bara ekki gefa þeim aðilum hér á Alþ., sem vilja drepa þessu máli á dreif og stöðva málið, þetta tækifæri. Því skal ég glaður samþykkja þessar brtt. sem hér liggja fyrir, en að sjálfsögðu með þeirri stóru kröfu að'þá fari frv. til Ed. og verði gert að lögum, verði samþykkt. Og ég vil líka að það komi alveg skýrt fram, af því að hér er um stórpólitískt mál að ræða, hverjir það eru sem koma í veg fyrir samþykkt þessa frv. ef svo á að fara.

Það hefur þegar komið hér fram á Alþ., að í rauninni eru aðeins fulltrúar eins stjórnmálaflokksins á Alþ. og þó ekki allir úr þeim flokki á móti frv. Það vill svo til að það er Alþfl. sem er á móti þessu frv. Það leynir sér ekki, þeir þm. gera tilraunir til þess að stöðva frv., því að þeir vilja halda áfram því sem þeir hafa viðurkennt, að þeir hafi þegið og ætli sér að þiggja erlent fjármagn til rekstrar sínum flokki. En það vita auðvitað allir, að Alþfl. stöðvar ekki mál hér á Alþ. úr því sem nú er komið. Við höfum nóga daga til að starfs. Það þarf ekki að ljúka Alþ. á morgun. Og það mun einnig verða séð til þess, að því verður ekki lokið á morgun, ef einhver undandráttur er á því að afgreiða mál eins og þetta. Það er komið svo langt, að það er brot á öllum eðlilegum þingvenjum ef þetta mál fær ekki fullnaðarafgreiðslu hér, hvort sem það er samþykkt eða fellt. Og ef það er svo að það séu einhver umbrot í Sjálfstfl. í þessu máli þannig að hann vilji koma hér með brtt. eða tefja málið eða koma á einn eða annan hátt í veg fyrir að málið nái fram að ganga, þá skal það líka koma fram hér óumdeilanlega. En það er ábyggilega á valdi Sjálfstfl. nú eins og hingað til hvernig fer um afgreiðslu þessa máls. Hann á kost á að standa að því að málið verði afgreitt.

Ég ætla mér ekki að efna hér til langra umr. um þetta mál, af því að ég vil greiða fyrir afgreiðslu þess og tel að allar vangaveltur um það, hverju mætti bæta inn í þetta frv., hvað væri rétt að banna í leiðinni, það er svo augljós fyrirsláttur gegn því sem hér er um að ræða, að það á í rauninni ekki að vefjast fyrir neinum sem hefur hugleitt þessi mál. Hér er sem sagt um stefnumarkandi mál að ræða, og sú stefnumörkun á að koma fram við afgreiðslu málsins.

Auðvitað kemur þetta frv. í þeim búningi sem það kom frá Ed., — og þó að sú brtt. verði samþ. sem hér hefur verið flutt, — þá kemur þetta frv. að fullu gagni. Það er alrangt, sem var sagt úr þessum ræðustól nýlega, að þetta komi ekki að fullu gagni. Það kemur að því gagni að banna íslenskum stjórnmálaflokkum að reka starfsemi sína með erlendum fjárstuðningi, og það er kjarni málsins. Spurningin er bara hvort við eigum að fara inn á þá braut eða ekki, og hvort alls konar samtök í okkar landi njóta einhverrar fyrirgreiðslu, heimboða og samstarfs eða fjárhagslegs stuðnings er allt annað mál sem kemur ekkert þessu við, og á ekki að blanda því saman á neinn hátt.

Ég skal svo ekki fara að efna til frekari umr. eða þræta við menn um þau atriði sem þeir hafa þó gefið tilefni til, en ég lýsi því yfir, að ég er reiðubúinn til þess að samþykkja þessar brtt. hér eins og þær eru, þó að mér sé ljóst að þær séu fluttar að verulegu leyti til þess að reyna að tefja málið. En till. þurfa ekki að ganga til n., það er hægt að greiða atkv. um þær eins og aðrar brtt. Málið getur farið til Ed., og það er auðvelt að koma málinu þannig í gegnum þingið að það hafi fengið fullnaðarafgreiðslu. Það er kjarni málsins. Ég legg sem sagt til að sá háttur verði hafður á, en mæli gegn því, að það verði farið að veita hér nokkurt fundarhlé fyrir n. til þess að athuga þessar brtt., af því að ég sé enga ástæðu til þess, ekki nema þá að n. sem slík óski eftir að málinu verði frestað svo að henni gefist kostur á að fjalla um málið. En það að einhverjir aðilar flytji brtt. og geti síðan lagt til að gert verði fundarhlé og n. fari að fjalla um þeirra till, er engin þingvenja og mundi tefja mál heldur betur hér hjá okkur ef taka ætti upp þann hátt. En óski n. eftir að fá að fjalla um þessar brtt., þá er það annað mál. Aðalatriðið er að þetta mál fái fullnaðarafgreiðslu í þinginu og komi í ljós hverjir styðja kjarna málsins og fyrir hverjum það þvælist.