06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (3961)

309. mál, almannatryggingar

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um almannatryggingar. N. leggur einróma til að frv. verði samþ., en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt.

Frv. þetta er orðið til úr tveim frv. til breytinga á almannatryggingalögum sem liggja fyrir hv. Alþ., og voru tekin út úr þeim frv. þau atriði sem allir voru nokkurn veginn sammála um að inn í lögin þyrftu að koma.

Helstu nýmælin í þessu frv. eru þau, að gert er ráð fyrir breyttum fjárhagsgrundvelli slysatrygginga, þannig að horfið er frá sjóðmyndun, að undanskildu tillagi til varasjóðs, og skiptingu í áhættuflokka og í stað vikugjalda kemur iðgjald reiknað sem hundraðshluti af launum. Í öðru lagi, að í stað vikugjalda atvinnurekenda til lífeyristrygginga komi iðgjald reiknað sem hundraðshluti af greiddum launum. Þá eru og ákvæði um greiðslu ferðakostnaðar vegna ítrekaðrar læknismeðferðar. Þetta er mál, sem oft hefur legið hér fyrir Alþ. og er mikil þörf á að fá umbætur á og þær eru að verulegu leyti í þessu frv. Ákvæðinu um greiðslu tannlækniskostnaðar er nokkuð breytt, ekki þó stórlega

Að öðru leyti er ekki um stórvægilegar efnisbreytingar að ræða, að undanskildu því, að í bráðabirgðaákvæði er nýmæli þar sem ráðh. er heimilað að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við tiltekin atvinnufyrirtæki um að þau taki í vinnu einn eða fleiri 75% öryrkja sem hafa vinnugetu, en nýtast ekki á vinnumarkaðinum og hafa ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur lífeyristrygginga. Meðan vinnusamningurinn gildir greiðir vinnuveitandinn öryrkjanum fastakaup, en Tryggingastofnun endurgreiðir 75% af þeim launum sem öryrkinn fær greidd fyrsta starfsárið, 50% af þeim launum sem hann fær greidd annað starfsárið og 25% af þeim launum sem hann fær greidd þriðja starfsárið, og telst þá samningstímabili lokið. Bætur til öryrkjans falla niður á starfstímabilinu. Í reglugerð skal kveða nánar á um öryrkjavinnu þessa.

Þetta er nýmæli, sem gæti orðið okkur allmikils virði. Svo sem alkunnugt er, erum við í mjög miklum vanda með vinnu fyrir þá öryrkja sem hafa vinnugetu, það litla sem hún nýtist ekki á almenna vinnumarkaðinum. Þessi heimild er gerð til þess að reyna að koma til móts við þetta fólk, og er þá ætlunin að fyrsta árið, meðan það er að skólast og þjálfast, séu 75% af laununum greidd af opinberum aðilum, en þessi prósenttala fari smám saman lækkandi. Er byggt á þeim grunni, að þá sé maðurinn orðinn meira virði sem starfsmaður og þess vegna geti atvinnurekandinn greitt honum hærra kaup. Þessi aðferð hefur verið reynd í nokkur ár í Svíþjóð og er talin hafa gefist vel.

Þau ákvæði, sem margir hafa áhuga á í þessu frv., eru þau ákvæði er varða flutningskostnað og kostnað sjúkra manna í sjúkrahús innanlands eða utan. Um þetta eru hagstæðari ákvæði fyrir sjúklingana heldur en áður hafa verið í lögum og er það mjög til bóta. Hins vegar er að sjálfsögðu nokkur takmörkun á því, hve langt er hægt að ganga í þessu efni, en það er yfirlýstur vilji bæði tryggingaráðs og ráðh. að bæta um í þessum efnum eins langt og komist verður og lögin leyfa.