06.05.1978
Efri deild: 104. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4632 í B-deild Alþingistíðinda. (3991)

309. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem 7. landsk. þm. sagði. Ég skal upplýsa það, að brtt., sem flutt var af heilbr.- og trn. Nd., var tekin upp fyrir áeggjan formanns tryggingaráðs sem taldi erfitt að framkvæma till. eins og hún var orðuð. Það gafst ekki tími til þess að hugleiða nánar þessi atriði, en hins vegar, eins og segir í greininni breyttri, á tryggingaráð að gera till. um reglur varðandi greiðslu þessara ferðapeninga sem ráðh. á að staðfesta. Ég hef kannske verið fremur frjálslyndur í þessum efnum, en ég hef talið að hér sé verið að stíga mikið réttlætisskref gagnvart þeim sem eiga heima fjarri sjúkrahúsum og þurfa að fara langar leiðir. Hins vegar skulum við ekki gleyma því, að fólkið er mjög misjafnt. Margir eru snillingar að nota sér ákvæði sem eru sett því fólki sem þarf sannarlega á þeim að halda, — margir sem ekki þurfa á þeim að halda. Þess vegna eru auðvitað töluverð vandkvæði á því, hvernig á að framkvæma þessi ákvæði til þess að þau verði með þeim hætti, að þeir einir, sem þurfa á þeim að halda, njóti þeirra, en hinir ekki. Það er eins og fyrri daginn. Mín skoðun er sú, að hugleiða eigi þetta mál miklu betur, og ég skal heita því að hafa samstarf við tryggingaráð í þessum efnum, því að það er auðvitað sett líka í mikinn vanda. En eins og háttað er störfum þingsins, þá tókum við út úr þessum tveimur frv. það sem við töldum að væri brýnt að lögfesta. Endurskoðunin heldur áfram, og ég skal ræða þetta atriði við formann endurskoðunarnefndarinnar.