15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

58. mál, íslensk stafsetning

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég sé mig tilknúinn að taka til máls á ný sökum niðurlagsorða hv. 3. þm. Austurl. Þar fullyrti hann afdráttarlaust, að það væri í raun og veru stefna þeirra, sem stóðu að stafsetningarbreytingunum 1973 og 1974, að taka upp framburðarstafsetningu, sér í lagi til að mynda að fella niður ypsílon og „rita eftir framburði“, eins og þm. komst að orði. Þetta er alrangt, eins og hv. þm. gæti gengið úr skugga um ef hann hefði fyrir því að kynna sér álít þeirrar stafsetningarnefndar, sem undirbjó þessar stafsetningarbreytingar, og þær stafsetningarreglur sem hún gekk frá. Það er algerlega tilhæfulaust, sem hv, þm, heldur fram, að þessir menn hafi reynt að sigla undir fölsku flaggi og brottnám z hafi átt að vera fyrsta skref til þess að taka upp réttritun einvörðungu eftir framburði. Enda gefur það auga leið að hljóðritun — réttritun eftir framburði er ekkert annað en hljóðritun — er miklu flóknara mál og erfiðara viðfangs heldur en svo, að nokkrum viti bornum manni detti í hug að ætlast til þess að kenna hana nemendum á barnaskólaaldri. Þessi fullyrðing hv. þm, er því tilhæfulaus uppspuni, eins og hann getur gengið úr skugga um með því að kynna sér þau gögn sem ég áðan nefndi. Þar kemur fram að nefndin, sem undirbjó stafsetningarbreytingarnar, skildi svo hlutverk sitt að hún væri að fjalla um skólastafsetningu, að gera málinu stafsetningarbúning sem auðveldi uppvaxandi kynslóð að ná tökum á því að tjá sig í rituðu máli.

Það verður aldrei of oft endurtekið, að réttritunin er búningur málsins, ytri búningur málsins í riti, en inntak málsins og eðli eru hljóðkerfið og beygingakerfið. 3. þm. Austurl. vitnaði til þess áðan, að 3. þm. Reykv. hefði sagt að svo illa hefði farið á siðskiptatíma að týnst hefðu niður bókstafir. Þetta er alrangt, en sýnir hvað skilningur hv. 3. þm. Austurl. á því máli, sem hér er til umr., ristir grunnt. Það voru ekki bókstafir, sem týndust á siðskiptatímanum. Það voru hljóð sem týndust. Bókstafurinn ypsilon var til áður, var notaður á síðskiptatíma og er notaður enn í dag. En hljóðið ypsílon týndist og sömuleiðis greinarmunur langs og stutts sérhljóðs. Þær hljóðbreytingar voru ekki afleiðingar stafsetningarbreytingar, þær gerðust af allt öðrum orsökum. En að rugla þessu saman á þennan hátt, hljóðunum og hljóðtáknunum, sýnir að hv. 3. þm. Austurl. veit ekki um hvað hann er að tala, og því er allt, sem hann segir um þetta mál frá eigin brjósti, ónytjuorð. Undir niðri veit hann þetta sjálfur og reynir að brynja sig með tilvitnunum, en þær snúast gegn honum sjálfum, því að hann hefur sýnt að hann vill ekki skilja eðli málsins sem hann þó þykist umfram allt þurfa að láta til sín taka.