01.10.1945
Sameinað þing: 1. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Péturs Þórðarsonar

Aldursforseti (IngP):

Áður en Alþingi tekur til starfa að þessu sinni, vil ég minnast nokkrum orðum fyrrv. þingmanns, er látizt hefur frá því er síðasta þingi sleit. Þessi maður er Pétur Þórðarson frá Hjörsey. Hann var þingmaður Mýramanna um ellefu ára skeið, 1916–1927. Hann andaðist í Borgarnesi 25. apríl síðast liðinn, áttatíu og eins árs að aldri.

Pétur Þórðarson fæddist 16. febrúar 1866 í Fornaseli í Álftaneshreppi, sonur hjónanna Þórðar Benediktssonar, bónda þar, og konu hans Ingigerðar Þorbergsdóttur, bónda í Ferjukoti Ólafssonar. Skólamenntunar naut hann engrar, en menntaði sig þó af eigin rammleik sem bezt hann mátti. Hann fór í vinnumennsku 15 ára að aldri og var vinnumaður eða lausamaður næstu 11 árin, til 1890, og nam á þeim árum söðlasmíð. Árið 1890 reisti hann bú að Leirulækjarseli á Mýrum og bjó þar næstu þrjú árin, en þá fluttist hann að Hjörsey, og þar bjó hann góðu búí í 49 ár, til 1942, er hann brá búi, en átti þó heimili í Hjörsey einu ári lengur, eða í 50 ár samfleytt.

Pétur gerðist þegar á ungum aldri áhugasamur um þjóðmál og félagsmál. Sýslungar hans veittu brátt athygli hæfileikum hans og mannkostum og fólu honum snemma margvísleg trúnaðarstörf í þágu héraðs og sveitar. Mörg þessara starfa hafði hann á hendi áratugum saman. Hreppstjóri var hann hátt á fimmta tug ára og átti nærri jafnlengi sæti í hreppsnefnd. Þá var hann um 20 ára skeið sýslunefndarmaður og formaður búnaðarfélags og skólanefndar. Í fasteignamatsnefnd sat hann og lengi, var í héraðsnefnd kreppulánasjóðs og í yfirskattanefnd Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Á árunum 1926–1931 var hann yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna og endurskoðandi Búnaðarbankans 1932–1934. Samvinnumál bænda lét hann mjög til sín taka, vann gott starf í Kaupfélagi Borgfirðinga og einnig í Sláturfélagi Suðurlands. Þá var hann deildarfulltrúi í 23 ár.

Öll sín störf vann Pétur Þórðarson með stakri trúmennsku og nákvæmni, lagði sig allan fram um að brjóta hvert mál til mergjar, sem hann fékkst við, var sérstaklega athugull reikningsmaður og sparaði hvorki tíma né fyrirhöfn til þess að hafa upp á skekkjum og komast að réttum niðurstöðum við endurskoðun reikninga. — Hann var mikill maður að vallarsýn og afrendur að afli, forkur til vinnu, meðan honum entist heilsa, og djarfur sjósóknari. Jafnframt var hann einstakt prúðmenni í allri framgengni, kurteis, óáreitinn og góðgjarn, og naut því almennra vinsælda. Ég hygg ekki ofmælt, að allir samþingsmenn hans hafi borið til hans hlýjan hug.

Ég vil biðja hv. þingmenn að votta minningu þessa merka manns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Þingmenn risu úr sætum sínum.]

Fundi frestað til næsta dags.