Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2072, 154. löggjafarþing 927. mál: aðgerðir gegn peningaþvætti o.fl. (áhættumat o.fl.).
Lög nr. 81 3. júlí 2024.

Lög um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna (áhættumat o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „laga um kauphallir“ í 1. tölul. a-liðar 13. tölul. kemur: laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  2. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fjármögnun gereyðingarvopna: Öflun fjár, hvort sem er beint eða óbeint, í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það í heild eða að hluta til þróunar, framleiðslu, öflunar, söfnunar, notkunar, útvegunar, eignarhalds, flutnings, miðlunar, viðskipta með eða vörslu á gereyðingarvopnum í andstöðu við alþjóðlegar þvingunaraðgerðir, sbr. lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ríkislögreglustjóri skal annast áhættumat stjórnvalda á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Skýrsla um áhættumat, þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum greiningar og mats á áhættu, ásamt leiðum til að draga úr greindri áhættu, skal gefin út á fjögurra ára fresti eða oftar ef tilefni er til. Í því skyni að draga úr greindri áhættu skal ríkislögreglustjóri taka afstöðu til uppfærslu áhættumats eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Á sama hátt skal ríkislögreglustjóri annast áhættumat á fjármögnun gereyðingarvopna, þ.m.t. um mat á áhættu, ásamt leiðum til að draga úr greindri áhættu, möguleg brot, aðgerðarleysi eða sniðgöngu við skuldbindingar um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir samkvæmt lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.
  3. Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr.:
    1. Í stað orðanna „Við gerð áhættumatsins“ í 1. málsl. kemur: Við gerð áhættumats skv. 1. mgr.
    2. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórnvöldum er skylt að veita ríkislögreglustjóra upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar við gerð áhættumats skv. 1. mgr.
  4. Í stað orðanna „peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka“ í a- og d-lið og orðanna „peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka“ í b-lið 4. mgr. kemur: peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka samkvæmt lögum þessum og fjármögnun gereyðingarvopna samkvæmt lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.
  5. Í stað orðsins „áhættumatinu“ í 5. mgr. kemur: áhættumati skv. 1. mgr.
  6. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Áhættumat stjórnvalda.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka samkvæmt lögum þessum og fjármögnun gereyðingarvopna samkvæmt lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.
  2. Í stað orðanna „áhættumat skv. 4. gr. til hliðsjónar“ í 3. mgr. kemur: til hliðsjónar niðurstöður áhættumats skv. 4. gr.
  3. Í stað 1. málsl. 6. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Áhættumat skv. 1. mgr. skal uppfært eftir því sem tilefni er til, svo sem við uppfærslu áhættumats skv. 4. gr. eða ef fyrir liggja upplýsingar um breytingar á þekktri áhættu og áhættuþáttum. Tilkynningarskyldir aðilar skulu eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti taka skriflega og rökstudda afstöðu til þess hvort tilefni sé til uppfærslu áhættumats skv. 1. mgr.
  4. Við 1. málsl. 12. mgr. bætist: auk áhættu vegna fjármögnunar gereyðingarvopna samkvæmt lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.


4. gr.

     5. gr. a laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stefna, stýringar og verkferlar.
     Ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila samkvæmt þessu ákvæði skulu vera í samræmi við stærð, eðli, umfang og margbreytileika í starfsemi þeirra.
     Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa skjalfesta stefnu, stýringar og verkferla til að draga úr og stýra áhættu sem stafar af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka auk áhættu er tengist fjármögnun gereyðingarvopna, sbr. ákvæði laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Stefna, stýringar og verkferlar um þessa þætti skulu byggjast á áhættumati stjórnvalda og eigin áhættumati tilkynningarskyldra aðila.
     Stefna, stýringar og verkferlar skv. 2. mgr. skulu að lágmarki fela í sér:
  1. umfjöllun um þróun og uppfærslu stefnu, stýringa og verkferla, þ.m.t. aðferðir við áhættustýringu, áreiðanleikakönnun, tilkynningar um grunsamleg viðskipti, varðveislu gagna, innra eftirlit, tilnefningu ábyrgðarmanns og eftir atvikum regluvarðar, könnun á hæfi starfsmanna, og
  2. kröfu um að sjálfstæð endurskoðunardeild eða sjálfstæður úttektaraðili framkvæmi úttekt á og prófi þá þætti sem um getur í a-lið, þegar við á með hliðsjón af stærð og eðli starfsemi tilkynningarskylds aðila.

     Stefna tilkynningarskylds aðila skal samþykkt af stjórn og stýringar og verkferlar skulu samþykkt af yfirstjórn. Yfirstjórn skal hafa eftirlit með framkvæmd stefnu, stýringa og verkferla og gefa fyrirmæli um auknar ráðstafanir þar sem við á.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. Inngangsmálsliður 1. mgr. orðast svo: Ábyrgðarmaður eða eftir atvikum regluvörður skv. 34. gr. skal tímanlega.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Tryggt skal að tilkynningar skv. 1. mgr. séu sendar á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þess ríkis þar sem tilkynningarskyldur aðili er með staðfestu.


6. gr.

     Í stað orðanna „kauphöllum samkvæmt lögum um kauphallir“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: rekstraraðila markaðar samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.

7. gr.

     34. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Umgjörð aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í starfsemi tilkynningarskyldra aðila.
     Tilkynningarskyldir aðilar bera ábyrgð á því að framfylgt sé ákvæðum laga þessara, laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, svo og reglugerða og reglna sem þeim tengjast, og skulu haga umgjörð aðgerða sinna í samræmi við ákvæði þetta.
     Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa sérstakan ábyrgðarmann, tilnefndan af stjórn og úr hópi stjórnenda. Ábyrgðarmaður skal annast innleiðingu stefnu, stýringa og verkferla í starfsemi tilkynningarskylda aðilans og afla upplýsinga um veikleika í þeim aðgerðum sem stjórn skal upplýst reglubundið um.
     Með hliðsjón af eðli og umfangi starfseminnar skulu tilkynningarskyldir aðilar jafnframt hafa regluvörð, tilnefndan af stjórn, sem skal sinna verkefnum tengdum aðgerðum gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og fjármögnun gereyðingarvopna.
     Tilkynningarskyldir aðilar skulu sjá til þess að þeir sem gegna hlutverkum ábyrgðarmanns og regluvarðar njóti sjálfstæðis í störfum sínum og geti viðhaft hvers konar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja skilvirka fylgni við stefnu, stýringar og verkferla auk úrræða, þ.m.t. starfsmenn og tæknilegan búnað, í samræmi við stærð, eðli og áhættu í starfsemi tilkynningarskylda aðilans. Þá skulu þeir hafa skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, upplýsingum um viðskipti eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem geta skipt máli vegna tilkynninga.
     Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og viðeigandi eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum skal tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns og regluvarðar skv. 2. og 3. mgr.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Eftirlitsaðilar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu og eftirlitsaðilar.
  2. Í stað orðanna „og aðila skv. 3. mgr. 38. gr. veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og aðila skv. 2. mgr. 20. gr. og 3. mgr. 38. gr. veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og eftirlitsaðila.
  3. Á eftir orðunum „Dagsektir skulu ákveðnar af“ í 2. mgr. kemur: skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
  4. Á eftir orðunum „Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum eftirlitsaðila nema“ í 3. mgr. kemur: skrifstofa fjármálagreininga lögreglu.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 46. gr. laganna:
  1. Við bætist nýr töluliður, 2. tölul., svohljóðandi: 5. gr. a um stefnu, stýringar og verkferla.
  2. 20. tölul. orðast svo: 2. og 3. mgr. 34. gr. um skyldu til tilnefningar ábyrgðarmanns og regluvarðar og um skyldur þeirra skv. 2.–4. mgr. 34. gr.
  3. 23. tölul. orðast svo: 2. mgr. 20. gr. og 3. mgr. 38. gr. með því að veita rangar eða villandi upplýsingar.
  4. 24. tölul. orðast svo: 3. mgr. 20. gr. og 4. mgr. 38. gr. með því að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðni skv. 2. mgr. 20. gr. og 3. mgr. 38. gr.


II. KAFLI
Breyting á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Við bætist nýr töluliður, 5. tölul., svohljóðandi: Fjármögnun gereyðingarvopna: Öflun fjár, hvort sem er beint eða óbeint, í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það í heild eða að hluta til þróunar, framleiðslu, öflunar, söfnunar, notkunar, útvegunar, eignarhalds, flutnings, miðlunar, viðskipta með eða vörslu á gereyðingarvopnum í andstöðu við alþjóðlegar þvingunaraðgerðir, sbr. 2. gr. reglugerðar um alþjóðlegar öryggisaðgerðir varðandi gereyðingarvopn, nr. 123/2009.
  2. Í stað orðanna „Útbreiðsla og fjármögnun gereyðingarvopna“ í 12. tölul. kemur: Útbreiðsla gereyðingarvopna.


11. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Tilkynningarskyldir aðilar skulu bera kennsl á og meta hættu á fjármögnun gereyðingarvopna í starfsemi sinni, samningssamböndum og einstökum viðskiptum í áhættumati sem taka skal mið af stærð, eðli, umfangi og margbreytileika í starfsemi tilkynningarskylda aðilans. Áhættumat skal vera skriflegt og innihalda heildstæða greiningu og m.a. taka mið af niðurstöðu áhættumats stjórnvalda á fjármögnun gereyðingarvopna skv. 4. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Eftirlitsaðilar geta ákveðið að gera ekki kröfu um áhættumat með hliðsjón af eðli starfseminnar.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2024.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal 11. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2025.

Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.