144. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:03]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 9. september 2014.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 1. september 2014.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

___________________________

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 9. september 2014.“

 

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Við upphaf hins nýja þings er við hæfi að minnast þess að 70 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Þingvöllum við Öxará. Alþingi og tugþúsundir Íslendinga, reyndar einnig þeir sem staddir voru í fjarlægum byggðum, fögnuðu af heitu hjarta og heilum hug lokasigri í baráttunni fyrir sjálfstæði, sögulegum áfanga vegferðar sem hófst um 100 árum áður með herhvöt Fjölnis og Nýrra félagsrita, studd aflinu sem fólst í endurreisn Alþingis.

Þá taldi þjóðin aðeins fáeina tugi þúsunda. Þorri bjó við mikla fátækt, án allra réttinda sem nú eru talin sjálfsögð. Hvorki vegir né önnur mannvirki léttu för og atvinnuhættir enn hinir sömu og verið höfðu um margar aldir, engin borg, aðeins fáein hrörleg þorp, torfbæir algengustu vistarverur.

Djörfung og reisn, ríkuleg sjálfsvirðing, sómi studdur arfi bókmennta og minninga um þjóðveldið voru veganesti þeirra sem alla 19. öldina báru fram á Alþingi kröfurnar um aukinn rétt, stjórnskipun sem hæfði sýn Íslendinga á sess sinn í samfélagi þjóða heims. Heimastjórn og fullveldi í árdaga nýliðinnar aldar gaf Alþingi síðan kraft til að hefja nýja sókn, efla atvinnulíf, uppbyggingu á flestum sviðum, ná árangri í glímunni við kreppuna miklu og áföllin á mörkuðum heimsins.

Samt voru Íslendingar enn við lýðveldisstofnun ein fátækasta þjóð álfunnar og einstakt á veraldarvísu að svo fámenn þjóð tæki ákvörðun um að verða sérstakt ríki. En slík var sjálfsvirðing og sýn Íslendinga á eigin sæmd að landsmenn voru nær einhuga á þessum tímamótum, ákvörðunin og stjórnarskrá hins nýja lýðveldis hlaut stuðning ríflega 90% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sem heimurinn hafði aldrei áður skráð dæmi um.

Það er líklega flestum framandi á okkar tímum að skilja til hlítar hve byltingarkennd stofnun íslenska lýðveldisins var á sínum tíma enda tók það nágrannaþjóðir okkar í Evrópu nær áratug að virða að fullu þjóðhöfðingjann, æðsta tákn þessara þáttaskila. Hafði hann þó að baki kjör á hátíðarfundi Alþingis og sigur í almennum kosningum, forseti Íslands, fyrsti þjóðhöfðinginn í veröldinni sem kosinn var með beinu lýðræðislegu vali þjóðar.

Þótt lýðveldið væri umvafið dýrðarljóma og stolti sérhvers Íslendings voru efnahagslegar stoðir þess afar veikar, fiskur helsta útflutningsvaran og gjaldeyrir sem fékkst í krafti sjávarútvegs forsenda framfara því að nánast þurfti að flytja inn allt efni til byggingar skóla, sjúkrahúsa og annarra mannvirkja, stóran hluta matvæla, lyf og tæki, nauðsynjar til uppbyggingar þess samfélags sem við nú njótum.

Í þessum efnum var Alþingi mikill vandi á höndum á fyrstu áratugum lýðveldisins því að erlend ríki tóku sér stóran hluta aflans, sendu togara og fiskiskip upp að ströndum landsins. Útfærsla landhelginnar var því í raun síðari áfangi sjálfstæðisbaráttunnar og ætíð þegar Alþingi efldi rétt Íslendinga, fyrst í fjórar mílur, þá 12, 50 og loks 200, var því svarað ýmist með viðskiptabanni eða herskipaflota.

Samstaðan, trúin á málstaðinn og réttlætið, færði Íslendingum hins vegar sigur og undanfarna áratugi hefur þjóðin notið traustra stoða lýðveldisins, bæði í stjórnskipun og ríkulegum auðlindum lands og sjávar. Allt er þetta mikil saga, arfleifð sem Alþingi okkar tíma fékk í hendur, ávinningur sem hvílir á því að þingheimur beri gæfu til að standa saman þegar mest á reynir, saga sjálfstæðisbaráttu og lýðveldistíma sem fært hafa eina fátækustu þjóð Evrópu í fremstu röð um lífsgæði og velferð.

Þótt fjármálakreppan fyrir fáeinum árum, hrun bankanna, ógnaði um tíma þessum árangri, einkum vegna harkalegra tilrauna annarra til að beygja okkur, tókst að snúa vörn í sókn og nú er hagvöxtur, lítið atvinnuleysi og sívaxandi styrkur fjölbreyttra útflutningsgreina og þjónustu vitnisburður um einstæðan árangur á evrópska vísu.

Hér hafa margir lagt hönd á plóg og allir flokkar sem nú eiga fulltrúa á Alþingi hafa komið að því góða verki. Heiðurinn er við lok þessarar glímu alls þingheims og það ber í senn að virða og þakka. Sess Íslands í samfélagi ríkja heims var áfram tryggður, sess sem var áður mótaður með ákvörðunum Alþingis um þátttöku í alþjóðlegum samtökum.

Strax á fyrstu árum lýðveldisins var aðildin að Sameinuðu þjóðunum og Norðurlandaráði burðarás á þessari braut, studdur samstöðu hér í salnum. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu varð hins vegar djúpstætt átakaefni en þar réð för eindregin forusta ríkisstjórnar og vilji meiri hluta Alþingis. Skýr afstaða ráðandi afla löggjafar- og framkvæmdarvalds leiddi Ísland síðar í Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið en breiðari stuðningur hafði áður verið að baki þátttöku í Evrópuráðinu og við lok aldar einhugur um inngöngu í Norðurskautsráðið.

Þessi fjölþætta aðild að samtökum ríkja myndar hornsteina í alþjóðlegum sessi lýðveldisins, vegvísa um árangur sem að stórum hluta má eigna Alþingi, enda hafa í öllum þessum áföngum ákvarðanir verið teknar á grundvelli einhuga forustu ríkisstjórna og eindregins vilja meiri hluta Alþingis. Öðrum aðildarríkjum var líka kappsmál að fá Ísland fljótt í sínar raðir.

Sómi og sjálfsvirðing Íslands var ætíð leiðarljós í sérhverri för, vilji sem á djúpar rætur í sögu sjálfstæðisbaráttu og lýðveldis, í þeirri arfleifð sem Alþingi og okkur öllum sem þjóðin kýs ber að virða, arfleifð sem verk Alþingis, allt frá endurreisn, hafa mótað, arfleifð sem er afrakstur forustu þeirra kynslóða sem áður sátu í þessum sal og fjöldans á Þingvöllum fyrir 70 árum.

Sérhvert þing smíðar nýjan hlekk í þessa keðju, mótar styrk hennar til lengri tíma, ber fjöregg lýðveldisins, sóma þess og reisn í hendur þeirra sem á eftir koma.

Í anda þeirrar sýnar bið ég alþingismenn að rísa á fætur og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]