131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:31]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta var ekki gott svar hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Það undirstrikaði það andvaraleysi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að hefði einkennt viðbrögð íslenskra stjórnvalda í málinu. Ég verð að taka dýpra í árinni en hv. þm. Ég verð að segja að þetta stappar nærri gáleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði að vísu ekki þeirri spurningu sem hv. þm. beindi til hans, þ.e. hvenær íslensk stjórnvöld gengu úr skugga um hvort kjarnorkuknúin skip kynnu að vera í flotanum. Hins vegar kom það alveg skýrt fram hjá honum að íslensk stjórnvöld hófu ekki að leita upplýsinga um hvers konar skip væru þarna á ferðinni fyrr en þau höfðu verið hérna í hálfan mánuð.

Herra forseti. Samfylkingin skilgreindi um helgina mengunarslys á hafsvæði við Ísland sem eina af alvarlegustu hættunum sem steðjað gæti að Íslendingum og nákvæmlega það átti að vera ofarlega í huga stjórnvalda á þessum tíma. Hvers vegna? Vegna þess að öll heimsbyggðin veit í hvers konar ástandi rússneski flotinn er. Aðalflotaforingi rússneska hersins lýsti því yfir í apríl að beitiskipið Pétur mikli sem var hérna væri hættulegt og gæti sprungið í loft upp og það er kjarnorkuknúið.

Herra forseti. Það þarf ekki nema einn rússneskan ryðkláf, kjarnorkuknúinn, til þess að sökkva á íslensku hafsvæði til þess að við Íslendingar séum komnir í verulega vond mál. Það dugar ekki, herra forseti, að það komi ekki skýrt fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra hvort það hafi virkilega verið þannig að Landhelgisgæslan, dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafi ekki gert umhverfisstjórnvöldum viðvart um að þarna var á ferðinni kjarnorkuknúið skip sem aðalflotaforinginn, samkvæmt fréttum sem allir geta lesið á netinu, hefur lýst sem hættulegu.