131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Fórnarlamba- og vitnavernd.

13. mál
[17:28]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu snýr að fórnarlömbum mansals. Það er náttúrlega gríðarlega alvarlegt og ber að skoða gaumgæfilega. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er mikill sérfræðingur á þessu sviði og langar mig að beina til hennar nokkrum spurningum til að fá gleggra ljós á málið.

Hvað ætli þessi málaflokkur varði marga árlega hér á Íslandi? Nú kom fram í greinargerðinni eða í ræðu hv. þingmanns að þetta er gífurlega stór málaflokkur úti í heimi og væri fróðlegt að fá álit hennar á umfanginu. Ég geri mér ljóst að þessi mál eru ekki þegar uppi á borðinu en þó ætti að vera komin einhver mynd á það hvað þessi málaflokkur er stór, eða gæti orðið stór hér á landi.

Önnur spurning sem mig langar að beina til hv. þingmanns varðar 3. gr. Í greinargerðinni kemur fram að þetta séu mjög alvarlegir glæpir og að þetta fólk er beitt þvingunum. Ef ég skil 3. gr. rétt er þetta umþóttunartími eftir að umrædd fimm manna nefnd hefur tekið ákvörðun um að veita fólki dvalar- og atvinnuleyfi. Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það þurfi 30 daga frestinn í ljósi þess. Málið hefur þá eflaust verið í kerfinu um einhvern tíma. Er 30 daga fresturinn hugsaður til þess að umræddri fimm manna nefnd takist að vinna málið á þeim tíma?

Annað sem ég tel vert að fara yfir varðar 5. gr. Ef umrædd nefnd veitir dvalar- og atvinnuleyfi til eins árs vegna gruns um mansal en frekari rannsókn leiðir í ljós að fyrri grunsemdir séu rangar á þá ekki að vera heimild til þess að svipta fólk sem hefur sótt um dvalar- og atvinnuleyfi þeim leyfum? Það yrði þá til þess að lögin yrðu ekki misnotuð.

Að öðru leyti tel ég mjög þarft að hreyfa við þessum málum.