131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Breyting á kennitölukerfinu.

14. mál
[17:34]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi feli ráðherra Hagstofu Íslands að gera úttekt á þeim forsendum sem liggja að baki kennitölukerfi einstaklinga hér á landi. Borið verði saman form kennitölu einstaklinga hér á landi og í nágrannaríkjum með tilliti til þess hvort þar sé notast við sambærileg kerfi til auðkenningar og hvort í þeim felist augljósar persónuupplýsingar. Þá verði metnir kostir og gallar þess að taka upp nýtt kerfi sem væri laust við persónuupplýsingar og gæti staðið við hlið núverandi kennitölukerfis þannig að fólk hefði val um kennitölu.

Frú forseti. Tillaga þessi var áður lögð fram á 130. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta þingi, en ekki vannst tími til að mæla fyrir henni. Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá var hætt að nota nafnnúmer hér á landi um áramótin 1987/1988 og kennitölur teknar upp til að auðkenna einstaklinga. Einstaklingar fæddir 1975 og síðar fengu ekki nafnnúmer heldur kennitölur.

Kennitölukerfið hefur reynst vel að öðru leyti en því að í kennitölum okkar felast persónuupplýsingar. Oft hefur verið bent á að kennitölur séu notaðar óhóflega hér á landi og þeim mun bagalegra þykir fólki að þurfa sífellt að veita persónulegar upplýsingar ef það kærir sig ekki um það.

Það eru sjálfsögð réttindi að fólk geti valið um það hvort það veitir persónulegar upplýsingar á borð við fæðingardag sinn og ár eða ekki. Rétt er að geta þess að í ríkjum þar sem íbúafjöldi hleypur á hundruðum milljóna, eins og t.d. í Bandaríkjunum, eru notaðar kennitölur sem veita engar persónuupplýsingar um viðkomandi einstakling. Mér hefur heyrst hér í umræðunni að þó nokkrir háttvirtir þingmenn séu miklir aðdáendur Bandaríkjanna og get ég heils hugar tekið undir með þeim að það má ýmislegt læra af Bandaríkjamönnum og m.a. að skoða hvort ekki eigi að fara sömu leið og Bandaríkjamenn og vera með kennitölukerfi sem veitir ekki persónulegar upplýsingar.

Þó nokkrir hafa sett sig í samband við þann sem hér talar og lýst yfir ánægju með að þetta mál skuli vera flutt hér og ég vil grípa niður í eitt af þeim bréfum sem mér hafa verið send í tölvupósti. Það er frá karlmanni á sjötugsaldri og hann sagði, með leyfi frú forseta:

„Það er orðið löngu tímabært að breyta umræddu kennitölukerfi. Það sýnir sig að þetta kennitölukerfi ýtir undir fordóma vegna aldurs einstaklinga á þeim tímum þegar allir eiga að vera sætir, ungir, ríkir til þess að vera gjaldgengir í samfélaginu.“

Tæknilega á ekki að vera neinum vandkvæðum bundið að gera fólki mögulegt að velja hvort það notar þá kennitölu sem hið opinbera hefur úthlutað því eða sækir um aðra sem ekki felur í sér neinar persónuupplýsingar. Eflaust mætti innheimta hóflegt gjald af þeim sem kjósa sér kennitölu úr hinu nýja auðkennakerfi ef kerfið þætti ella of kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, en við höfum nú dæmi um það varðandi bílnúmerin að menn geta valið sér einkanúmer.

Að lokum vil ég að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til allsherjarnefndar og vonast til að hún fái umfjöllun og farsæla afgreiðslu í allsherjarnefnd.

Of oft vill brenna við við afgreiðslu mála frá stjórnarandstöðunni að þau fái ekki umfjöllun eða afgreiðslu í nefndum. Hér er um borðleggjandi mál að ræða sem háttvirtir þingmenn ættu að geta sameinast um hvar í flokki sem þeir standa.