132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Nýskipan í starfs- og fjöltækninámi.

15. mál
[19:09]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um nýskipan í starfs- og fjöltækninámi. Tillagan er flutt af nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar og er hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson 1. flutningsmaður hennar. Hann fór vel yfir meginatriði málsins áðan en ég ætla að reyna að bæta einhverju við það.

Að minni hyggju er afskaplega brýnt að tillagan fái fljóta og skjóta afgreiðslu á Alþingi. Hún hefur áður verið flutt, að vísu er hún nú í endurbættu formi, en hér er verið að taka á hluta þess vanda sem við búum við í íslensku skólakerfi, þ.e. hversu mjög hallar á verklegt nám miðað við bóklegt. Þar sem hlutföll hjá okkur eru alveg þveröfug við það sem er í helstu nágrannaríkjum okkar finnst mér afar brýnt að við sinnum þessu máli markvisst. Því er vel til fundið að fela hæstv. menntamálaráðherra að skipa starfshóp sem er samansettur eins og hér er gerð tillaga um, þ.e. að þar séu fulltrúar þingflokka, atvinnulífsins og skólasamfélagsins. Það er afskaplega mikilvægt að þessir hópar nái saman um slíkt átak ef árangur á að verða sem bestur.

Því miður hefur það allt of oft verið þannig að ákveðin gjá er á milli skólanna og atvinnulífsins. Það hefur jafnvel stundum verið svo að gengið hafa skeyti á milli sem ekki er til að auka traust milli þessara aðila. Hins vegar er það hlutverk þeirra að þeir verða og eiga að standa saman að þessari mikilvægu uppbyggingu. Þannig hefur t.d. þróast upp margs konar starfsnám í skólum sem keyrðir eru áfram af atvinnulífinu en ekki er fullur taktur með atvinnulífinu og hinum opinberu skólum. Það er mjög alvarlegt mál og hefur haft ýmsar afleiðingar sem eru mjög slæmar fyrir samfélagið. Oft og tíðum hefur það þó verið þannig að á landsbyggðinni þar sem skólarnir og atvinnulífið eru í meira návígi hefur tekist mun betra samstarf en á höfuðborgarsvæðinu þar sem þessir aðilar hafa jafnvel á stundum verið í samkeppni sem að sjálfsögðu á ekki við um jafnmikilvægt mál og þetta.

Það er athyglisvert, eins og ég nefndi áðan, að hlutföllin á milli starfsnáms og bóknáms hér á landi eru allt önnur en hjá nágrannaþjóðum okkar og það er verulegt umhugsunarefni. Að hluta til er það áreiðanlega hið almenna viðhorf, sem mjög oft kemur fram hjá fólki, að bóknám sé fyrir alla þá sem geta lært á bókina en starfsnám sé fyrir hinn hópinn. Þetta eru auðvitað afskaplega alvarleg viðhorf vegna þess að það er ekki síður þörf á að fá sem allra mest hæfileikafólk í verknám. Það er undirstaðan að flestöllu í atvinnulífinu og það er margreynt að fólk sem hefur t.d. farið þá leið í verkfræðinám, svo dæmi sé tekið, að það hefur fyrst farið út í atvinnulífið og jafnvel lært ákveðna iðngrein, sé hvað bestu verkfræðingar landsins, a.m.k. á ákveðnum sviðum.

Það er afskaplega mikilvægt að þessu sé sinnt sem allra jafnast og við eigum í raun og veru eins og staðan er núna að vera með jákvæða mismunun, ef við getum notað það hugtak í þessu samhengi, þ.e. við eigum að gjörbreyta áherslum okkar. Við þurfum að byrja strax í grunnskólunum að reyna að breyta þessu viðhorfi þannig að fólk líti á starfsnám sem valkost númer eitt í námi og það á ekki síður að beina þangað þeim sem við köllum oft og tíðum úrvalsnemendur því að þeir þurfa svo sannarlega að koma þar við sögu og sem betur fer höfum við mýmörg dæmi um slíkt.

Slíkt gerist auðvitað gerist ekki nema með samstilltu átaki eins og hér er verið að boða og það þarf að byrja sem allra fyrst á því. Þess vegna orðaði ég það svo áðan að ég teldi mikla nauðsyn á að þessi þingsályktunartillaga fengi mjög hraða afgreiðslu í þinginu vegna þess að það má í raun og veru engan tíma missa.

Við höfum heyrt í fréttum undanfarið að verið er að flytja töluvert mikið af vinnuafli til Íslands, og þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þar er töluvert mikið af verkmenntuðu fólki, iðnlærðu fólki sem kemur vegna þess að heilu stéttirnar á Íslandi eru að hverfa. Við getum ekki þróað þessar iðngreinar áfram vegna þess að við erum með svo fámennan hóp af menntuðu fólki. Verið er að flytja inn fólk til margs konar verka og það þýðir væntanlega að stór hluti þess eða jafnvel allt fer aftur til síns heima og sú þekking og þróun sem á sér stað í greininni mun þar af leiðandi ekki skila sér nægjanlega vel inn í íslenskt skólakerfi og íslenskt samfélag. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Frú forseti. Það eru ýmsar fleiri hliðar á þessu máli sem eru líka áhyggjuefni. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom hér inn á brottfall úr námi sem er því miður allt of hátt og virðist vera töluvert hærra hjá okkur en mörgum öðrum þjóðum. Það hefur hins vegar komið í ljós að brottfallið er yfirleitt ívið minna hjá nemum sem eru í verknámi en í bóknámi og ýmsir leiða að því líkur að það sé vegna þess að í bóknámi sé ansi stór hópur sem það hentar ekki eins vel og hann nær ekki sömu tengslum við, þ.e. að áhuginn liggi raunverulega miklu nær verknámi og vinnu í slíku námi en í bóknámi og því flosni margir upp úr því. En þetta er aðeins hluti af brottfallinu, það hefur auðvitað ýmsar aðrar skýringar.

Það er t.d. í raun ótrúlegt að frá menntamálayfirvöldum komi skýr eða a.m.k. óljós skilaboð um að nemandi sem hefur hætt námi í framhaldsskóla eigi að vera númer tvö í röðinni á eftir nýnemahópnum, þ.e. að nýnemar hafi forgang í framhaldsskólana en þeir nemendur sem t.d. hafa byrjað í bóknámi en hafa síðan áttað sig og vilja fara í verknám þurfa að sitja á hakanum af því að nýnemarnir ganga fyrir. Þetta viðhorf er stórhættulegt og er eiginlega með ólíkindum að það skuli þekkjast á Íslandi vegna þess að nær allar þjóðir sem við berum okkur saman við eru með sérstakt átak þar sem verið er að reyna að draga inn í skólana það fólk sem af einhverjum ástæðum hefur horfið úr þeim til að reyna að fá alla til þess að ljúka einhverju námi. Hér er skólunum gert erfiðara að sinna þessum hópi í staðinn fyrir að hann ætti í raun og veru að hafa forgang.

Það er auðvitað fleira, frú forseti, sem hér mætti nefna. Ég ætla að enda á því að fjalla aðeins um það sem við köllum styttri námsbrautir, þ.e. námsbrautir þar sem hægt er að stunda nám og ljúka því með ákveðnum réttindum, t.d. sem aðstoðarmenn í ýmsum iðngreinum og öðru þess háttar. Slíkar námsbrautir vantar meira og minna í íslenskt skólakerfi en er hins vegar afskaplega fjölbreytt flóra víðast hvar í nágrannalöndum okkar.

Eins og fram hefur komið í umræðunni höfum við býsna mikið verk að vinna á þessu sviði og þess vegna er mikil ástæða til að sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir fái skjóta og greiða afgreiðslu í gegnum þingið.