132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:17]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Þingforseti. Fyrir einu og hálfu ári skipaði þáv. sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen, nefnd til að kanna möguleika á að auka verðmæti sjávarfangs. Það kom náttúrlega lítið frá þeirri nefnd af því að ekki var talað um það sem skipti máli, það var ekki talað um að tryggja þyrfti fiskvinnslum, sem eru með bestu markaðssetninguna sína á erlendum mörkuðum, aðgang að hráefni, annars vegar með því að allur fiskur fari inn á fiskmarkað og hins vegar með því að aðskilja veiðar og vinnslu. Það hefði þá leitt það af sér, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, að fyrirtækin yrðu rekin annars vegar í kringum veiðar og hins vegar í kringum vinnslu. Það yrði til þess að fiskverð hækkaði og allir hefðu sama möguleika á að kaupa hráefni fyrir vinnsluna í gegnum fiskmarkaði því að mörg fyrirtæki í fiskvinnslu eru án útgerðar eru með mjög góða markaðssetningu.

Það er auðvitað sorglegt til þess að vita að við skulum ekki geta tryggt þeim aðgang að hráefni. Þeir eru oft og tíðum að fá 20–30 og upp í 40% hærra verð á hvert kíló sem þeir framleiða en stærri fyrirtæki sem framleiða í massavís í einhverjar fimm punda pakkningar.

En það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem á tyllidögum kennir sig við það að vera flokkur markaðslögmálanna, flokkur samkeppni og annað, skuli vera í þessu hlutskipti að verja svona kommúnískt system eins og þetta er núna hjá okkur. Það eru pilsfaldakapítalistar sem hugsa eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Guðjón Hjörleifsson fyrir þeirra hönd í umræðunni hér.

Síðustu þrír sjávarútvegsráðherrar hæstvirtir hafa verið strengjabrúður LÍÚ. LÍÚ hefur nánast ákveðið hvernig leikreglur væru og fengið sínu fram í gegnum kvótakerfið og allt sem snýr að sjávarútvegi. Það er búið að brjóta niður atvinnufrelsi hjá fjölda manna, það er fullt af sjómönnum sem eru orðnir leiguliðar og fullt af sjómönnum sem eru farnir út úr atvinnugreininni og hafa að litlu að hverfa, menn sem lærðu bæði sem vélstjórar, skipstjórar og stýrimenn og þrautreyndir sjómenn á öllum sviðum. Þeir hafa orðið að hverfa burt úr þessari atvinnugrein.

Guðjón Hjörleifsson, hv. þingmaður, nefndi hér áðan Vestmannaeyjar og loðnuna. Flestar útgerðir í Vestmannaeyjum eru ótengdar fiskvinnslu og þeim gengur nú bara þokkalega vel og hafa haldið uppi mikilli atvinnu þar. Það eru raunverulega ekki nema tvö stór fiskvinnslufyrirtæki í Vestmannaeyjum í dag, ef ég man rétt, og svo eru nokkur smærri fyrirtæki.

Ef skilið yrði á milli veiða og vinnslu yrði verð á loðnunni að öllum líkindum hærra. Það er nú einu sinni hægt að sigla með loðnu, og hefur verið gert, til Noregs, Hjaltlands og Færeyja og ef því er að skipta til Danmerkur, þannig að það eru miklir möguleikar á því að fá hærra verð út úr því.

Í lokin vil ég lýsa yfir furðu minni á því að hér í þingsalnum eru ekki nema fjórir þingmenn þessa stundina.