135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:01]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru þrjú meginatriði hvað heimildirnar varðar sem hafa verið gagnrýnd í þeirri umræðu sem farið hefur fram um Grímseyjarferjuna. Í fyrsta lagi eru það 6. greinar heimildirnar en þær þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að kaupa eða selja fasteignir eða skip fyrir hönd ríkisins. Í þessu tilfelli er um að ræða hefðbundna sölu og kaupaheimild í 6. gr.

Í öðru lagi eru það fjárheimildir Vegagerðarinnar sem allan þann tíma sem þetta verk hefur staðið og verið í gangi hafa verið nægjanlegar og langt umfram það sem þarf til þess að kaupa og framkvæma endurbyggingu á skipinu.

Í þriðja lagi eru það samgönguáætlanir en allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í gangi hefur legið fyrir núgildandi langtímaáætlun í samgöngum sem gerir ráð fyrir fjármunum til þessa verkefnis.

Loks er það fjórða atriðið sem kom upp þegar farið var að skoða þetta mál og hvað það atriði varðar hafði fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið frumkvæðið. Það er hvernig kostnaður og fjármunir eru færðir varðandi verkefni sem þetta í fjárlögum, í ríkisbókhaldi, í ríkisreikningi og í lokafjárlögum.

Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu fyrir fjárlögum ársins 2008 að þar væri gerð breyting á því hvernig þessu er stillt upp í fjárlögunum og að verkefni eins og þetta væru þar færð á framkvæmdalið en ekki á rekstrarlið eins og verið hefur undanfarin ár. Ég tel að það sé eðlilegt þar sem um er að ræða stofnkostnað en ekki rekstrarkostnað eins og á að vera á rekstrarliðnum.

Þá vaknar sú spurning: Hvernig á að fara með færslur á þessu á árinu 2007? Í fyrsta lagi er hægt að færa fjármuni sérstaklega á heimildargreinina sjálfa, heimildargreinina sem tengist 6. gr. en 6. gr. fylgja fjármunir á heimildargrein. Í öðru lagi er hægt að færa kostnaðinn á framkvæmdaliðinn í stað þess að færa hann á rekstrarkostnaðarliðinn í samræmi við það sem lagt er til að gert verði í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2008. Í þriðja lagi er hægt að færa fjármuni af framkvæmdaliðnum og yfir á rekstrarliðinn þar sem þetta verkefni hefur verið vistað fram til þessa. Síðan getum við auðvitað velt því fyrir okkur líka hvernig hægt er að færa þetta í lokafjárlögum ársins 2006.

Í samræmi við álit meiri hlutans í skýrslu fjárlaganefndar um að ríkja þurfi sameiginlegur skilningur hjá framkvæmdaaðilum og eftirlitsaðilum fjárlaga hef ég farið yfir þessi mál með ríkisendurskoðanda og við höfum rætt þetta án milligöngu fjölmiðla. Við höfum komist að eftirfarandi niðurstöðu í þremur liðum:

Í fyrsta lagi að 6. gr. heimildin sem lögð er til grundvallar er hefðbundin í tilvikum á borð við kaup á hinni nýju Grímseyjarferju. Hins vegar sé eðlilegt, með hliðsjón af ófyrirséðum atvikum og deilum um túlkun greinarinnar, að skoða hvernig svona greinar eru skrifaðar í framtíðinni. Á hinn bóginn er auðvitað engin leið að fara að túlka textann eins og hann hefur verið á annan hátt þegar verkið er hálfklárað. Það væri eins og að skipta um hest í miðri á.

Í öðru lagi höfum við orðið sammála um að rétt sé að færa stofnkostnaðinn, eins og reyndar lagt er til í frumvarpi til fjárlaga 2008, á framkvæmdaliðinn en ekki á rekstrarliðinn en gera jafnframt til viðbótar þá breytingu að tilfærsluliðirnir í rekstrarkostnaðinn, rekstur á ferjum og þar fram eftir götunum, verði líka færðir á framkvæmdaliðinn og þeim lið síðan breytt og hann fái nafnið Framlög til samgöngukerfis.

Í þriðja lagi höfum við komist að þeirri niðurstöðu, sem er í samræmi við það sem ég nefndi á undan, að færa þá af framkvæmdaliðnum í fjárlaukalögum á árinu 2007 yfir á stofnkostnaðarlið, að fjármálaráðherra leggi til að það verði gert. Til viðbótar því erum við sammála um þá tillögu sem þegar er í fjárlagafrumvarpinu um árið 2008.

Þessi atriði sem hér eru nefnd eiga að leysa úr öllum þeim meginatriðum sem upp hafa komið hvað varðar fjárheimildir og heimildir til kaupa og sölu á Grímseyjarferju. Hins vegar fóru auðvitað mjög mörg atriði úrskeiðis og ég ætla ekki að halda því fram að við séum með þessu móti að leysa úr þeim öllum. Þetta er í samræmi við það sem ég hef sagt að við eigum að reyna að læra af reynslunni og þeim mistökum sem gerð hafa verið og horfa fram á veginn varðandi það hvernig við tökum á þessum málum.

Mér finnst hins vegar svolítið einkennilegt að málshefjandi í þessu máli skuli vera hv. þm. Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar. Þegar 6. gr. heimildin, sem hefur verið umdeild í þessu efni en er hefðbundin eins og fram hefur komið, var samþykkt á Alþingi síðastliðið haust var hann sem formaður fjárlaganefndar síðasti maður til að fara höndum um hana. Þegar maður skoðar það líka í ljósi þess að hv. þingmaður er þingmaður Norðausturkjördæmis og Grímsey er í því kjördæmi og samgöngur til Grímseyjar því eðlilega viðfangsefni og hugðarefni þingmanna þess kjördæmis og hafi hann haft einhverjar efasemdir um að ekki væri rétt og eðlilega staðið að þessu máli, hvers vegna kom það þá ekki upp við meðferð fjárlaganefndar og meðferð hv. þingmanns á málefninu í 6. gr. við afgreiðslu fjárlaga ársins 2007?

Ég held að það geti ekkert verið sanngjarnara en þetta í þessu efni því að tillagan var samþykkt eftir meðferð í fjárlaganefnd við fjárlagaafgreiðslu 2007 og fjárlagaafgreiðslu 2006. Á þessari grein byggist síðan framganga framkvæmdarvaldsins í því að kaupa og selja Grímseyjarferju.