135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:04]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til benda á að reynsla Finna af auknu aðgengi að alkóhóli og lægri áfengisgjöldum, vegna þess að menn voru farnir að fara til nágrannalandanna að kaupa vín, var skelfileg. Drápum og morðum hefur fjölgað um 40% milli áranna 2003 og 2004, segir í skýrslu frá Finnum. Þetta er í plaggi sem kemur frá Lýðheilsustöð. Dauðsföllum, sjúkdómum tengdum áfengisneyslu og áfengiseitrunum hefur fjölgað um 19% og 30% aukning hefur orðið á lifrarsjúkdómum.

Það ber allt að sama brunni með það að aukið aðgengi og aukið framboð, sú staða að það sé léttara að komast í alkóhól, veldur aukinni neyslu. Það er bara þannig. Það á ekki síst við um ungt fólk, unglinga, börn 18 ára og yngri og svo hópinn 18 til 20 ára. Við höfum áfengisbann frá 20 og niður úr, margir vilja lækka það, sem ég mundi telja mjög óráðlegt vegna þess að það mundi skapa aðgengi enn þá yngri hópa en hafa aðgang að áfengi í dag.