136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get staðfest það sem fram kom í máli hæstv. forseta að sú dagskrá sem liggur fyrir þinginu er sett fram í góðu samkomulagi við formenn allra þingflokka. Við vitum líka að með morgninum bárust grafalvarleg tíðindi úr fjármálaheiminum sem hafa gerbreytt stöðu mála og þar vísa ég að sjálfsögðu til hruns stærsta banka landsins.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom saman í morgun og þegar ljóst varð að ekkert frumkvæði kom úr Stjórnarráðinu um samstarf við stjórnarandstöðuna ákváðum við að hefja þessa umræðu nú. Meðal þess sem þarf að sjálfsögðu að ræða á næstu dögum er einmitt skortur á frumkvæði hvað varðar samstarf innan þingsins. Þar er ábyrgð ríkisstjórnarinnar mikil. Þetta er ekki tími fyrir slíkt uppgjör en að því mun koma.