138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp. Það er vissulega skref í rétta átt og ég þakka honum líka fyrir að taka upp þá hugmynd sem við sjálfstæðismenn komum með í vor um að hópur úr öllum flokkum yrði settur í að fara yfir málið. Við hefðum betur gert það fyrr vegna þess að þetta mál er þess eðlis að við hefðum þurft að grípa strax inn í og allir aðilar á þingi og í samfélaginu eru sammála um að við þurfum að taka á því. Þetta hefur líka sína kosti og galla. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði um niðurfellinguna á milli gömlu og nýju bankanna Það var upplýst í viðskiptanefnd í morgun að þetta væru 50% þótt það sé auðvitað misjafnt á milli lánaflokka hjá Landsbankanum. Mjög mikilvægt er að fara málefnalega yfir þetta og ég vonast til þess að við förum á fullt í það núna.

Hæstv. ráðherra ræddi mikið fortíðina. Ég er alveg sammála honum varðandi bankana en við stjórnmálamenn getum ekki firrt okkur ábyrgð. Það liggur alveg fyrir að 90% voru mjög óskynsamleg. Það liggur líka fyrir að húsnæðisaðstoðin hefur verið skuldahvetjandi. Á því berum við stjórnmálamenn ábyrgð. Sömuleiðis var lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu og engin yfirsýn yfir framboð á lóðum sem áttu að vera hjá hæstv. félagsmálaráðherra á hverjum tíma. Þetta er á ábyrgð okkar stjórnmálamanna og ég held að þegar menn skoða ræður aftur í tímann munu menn roðna örlítið því aldrei töluðu talsmenn vinstri flokkanna eins og hæstv. ráðherra talar núna. Það þýðir þó lítið að fjalla um það.

Ég ætlaði hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra að einu. Fólk, sérstaklega á miðjum aldri, ungt fólk sem er í miklum skuldavanda, það er til lítils að aðstoða það varðandi skuldamálin ef við hækkum skattana (Forseti hringir.) sem því nemur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru viðhorf hans varðandi skattamál þessa fólks?