138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta voru athyglisverðar upplýsingar innan úr bönkunum og voru kannski í þá átt sem margir höfðu verið að geta sér til um að væri verðið á lánunum sem nýju bankarnir taka þarna yfir. En ef staðan væri þannig að bankarnir væru með öll íbúðarlán í landinu og yfirfærslan á þeim speglaði þá stöðu má segja að það hefði kannski verið vænlegri kostur. En þeir eiga ekki nema trúlega innan við fjórðung fasteignalána í landinu. Hina eiga Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir þannig að niðurfærslan, stundum hefur verið talað um 20% niðurfærslu, mundi kosta um 300 milljarða, minnir mig að hafi verið haldið fram, eitthvað í þá veruna, og hún mundi lenda að miklu leyti á ríkinu sem á, ef við tökum bara bankana þrjá frá, þá á ríkið og lífeyrissjóðirnir 75% af fasteigna- og veðlánunum. Kostnaðurinn kæmi því alltaf niður á ríkinu fyrir utan það að ríkið skuldbatt sig til að auka ekki á skuldir sínar sem eru ærnar fyrir.

Ég held því að það sé gerlegra fyrir samfélagið að þessi leiðrétting og niðurfærslan komi niður í áföngum af því að lánin eru að sjálfsögðu svo mislöng. Sum lán eiga eftir 10 ára líftíma, önnur 15 ára og enn önnur 20 ára. Leiðréttingin kemur í áföngum á næstu áratugum jafnt og þétt.

Ég held að það sé miklu viðráðanlegra verkefni fyrir samfélagið að leiðrétta strax afborganirnar og síðan afskrifa höfuðstólinn eftir því sem efni standa til og lánin ganga út með tímanum. Leiðréttingin leggst því yfir langan tíma þannig að það kemur ekki fram í einu þungu höggi núna fyrir fram við erfiðustu aðstæður þegar við erum í dýpstu kreppunni. Við erum líkast til stödd í dýpsta dalnum akkúrat núna á þessu ári. Það yrði því erfitt verkefni fyrir samfélagið að bæta því á sig núna.