138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:38]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að finna þann jákvæða anda sem svífur yfir vötnum hér í þingsal við 1. umr. um frumvarp félagsmálaráðherra um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á rétt á sér að nokkru leyti en það sem skiptir öllu máli er þó að stíga þau skref sem stigin hafa verið heimilum og fyrirtækjum til hagsbóta. Vissulega duga þau úrræði sem hér eru til umræðu ekki öllum. Ég treysti því að sú þverpólitíska nefnd sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra boðaði verði á tánum og fylgist vel með hvort úrræðin virki og ef ekki hugi menn að öðrum lausnum. Við erum í þannig aðstæðum að samstaða og samvinna er okkur nauðsynleg.