143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[17:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta frumvarp er flutt af tveimur fyrrverandi fjármálaráðherrum síðustu ríkisstjórnar. Eins og gefur að skilja styð ég það mjög eindregið. Mér finnst þegar í þessari umræðu hafa komið fram merkar upplýsingar sem mér voru ekki algjörlega ljósar áður.

Ég hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir því, fyrr en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon upplýsti það hér, að í þingsályktunartillögunni sem ríkisstjórnin vinnur eftir og var samþykkt hér á sínum tíma er ekki gert ráð fyrir að sérstaklega sé unnið að úrlausn á vanda þessa hóps. Ég taldi að það væri þar undir. Þeir hv. þingmenn Framsóknarflokksins og eftir atvikum stjórnarliðsins sem hér eru staddir gætu upplýst okkur um það ef svo væri. Það náttúrlega undirstrikar enn frekar nauðsyn þess að gefinn sé gaumur að vanda þessa hóps.

Hitt sem mér fannst eftirtektarvert í þessari umræðu sem hingað til hefur verið háð um þingmálið er að hv. þm. Óli Björn Kárason, sem ég lít á sem talsmann Sjálfstæðisflokksins í þessum málum, lýsti því yfir að hann teldi að þessi hópur ætti að njóta jafnræðis á við þá sem notið hafa úrlausnar 110% leiðarinnar. Ég er honum algjörlega sammála. Um það snýst málið. Þetta er tiltölulega lítill hópur sem um er að ræða. Upphæðirnar eru snöggtum lægri en ég taldi á sínum tíma að þyrfti til þessa ef þær eru ekki nema í kringum 3 milljarðar. Auðvitað er það há upphæð, en hún er ekki óyfirstíganleg, ekki síst þegar við horfum á þetta mál út frá því sjónarhorni að allir aðrir hafa átt kost á einhvers konar úrlausnum. Þessi hópur liggur eftir.

Muni ég rétt töluðu reyndar allir stjórnmálaflokkar jákvætt um að skoða úrlausn þessa hóps sérstaklega nema hugsanlega einn stjórnmálaflokkur sem vildi fara aðra leið. Þannig að ég fagna því.

Það þriðja sem er merkilegt við þessa umræðu, eins og henni hefur undið fram til þessa, er að enginn hæstv. ráðherra er viðstaddur til að ræða þetta mál sem er flutt af tveimur fyrrverandi fjármálaráðherrum og er eitt af þeim málum sem mestar deilur voru um, að minnsta kosti síðasta ár nýliðins kjörtímabils. Mér finnst með ólíkindum að enginn af þeim þremur ráðherrum sem málið varðar, hæstv. forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðisráðherra, koma hingað til að ræða málið. Ég hef þegar lýst afstöðu minni til málsins, tel að þetta sé sanngirnismál, jafnræðismál.

Til viðbótar má bæta því við að þessi hópur býr við vaxandi óvissu. Sú óvissa stafar ekki síst af því að hann hefur þó að minnsta kosti litið til þeirra sterku yfirlýsinga sem hafa komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, sérstaklega Framsóknarflokksins, um úrlausn. Nú er það mál í fullkominni óvissu.

Málið sem Framsóknarflokkurinn vann sinn glæsilega kosningasigur út á, leiðréttingar á skuldum húsnæðiskaupenda, virðist vera að gufa upp, að minnsta kosti er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá af ummælum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur í fyrsta lagi lýst því yfir að þetta séu vangaveltur og lýsti því í öðru lagi skýrt yfir í gær að 18. nóvember er að minnsta kosti ákaflega teygjanlegt hugtak í hans huga. Hann er farinn að kalla það „handan áramóta“. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt það núna í fyrsta skipti að hann telji að úrlausnin sem átti að koma á þessu ári muni ekki einu sinni sjá dagsins ljós í formi útfærðra hugmynda fyrr en á næsta ári. Þó vitum við að það er varla mánuður síðan hæstv. forsætisráðherra lýsti því skýrt yfir að innan skamms og á þessu ári yrði af hálfu ríkisstjórnarinnar ráðist í aðgerðir sem hann kallaði alheimsmet, hvergi á byggðu bóli hefðu menn séð jafn djarfar og róttækar tillögur og þær sem Framsóknarflokkurinn ætlaði að koma hér í gegn. Þetta skapar óvissu fyrir þennan hóp sem hér er um að ræða.

Þar fyrir utan skapar þessi núningur sem er að verða nánast að átökum á millum helstu liðsodda ríkisstjórnarinnar mikla óvissu í atvinnulífinu. Ég tel að það sé nokkuð ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér ekki að fallast á þá leið sem Framsóknarflokkurinn hafði sem varaleið, þ.e. leiðréttingasjóðinn, sem er ekkert ósvipaður þeirri hugmynd sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom með hér undir lok síðasta kjörtímabils.

Framsóknarflokkurinn lagði fram eina aðalleið. Hún fólst í því að ætla að notfæra sér svigrúmið sem yrði til við samningagjörð Íslendinga við kröfuhafa í þrotabú bankanna til að leiðrétta skuldir um fast að 20%. Ég var í hópi þeirra sem taldi alltaf og tel enn að svigrúmið sé til staðar.

Síðan er annað mál með hvaða hætti menn eigi að nota það. Menn hafa fært rök að því að það væri erfitt að fara leið Framsóknarflokksins eða aðalleið Framsóknarflokksins vegna þess að það mundi leiða til verðbólguskots og hækkandi verðbólgu sem mundi éta leiðréttinguna upp. Margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að minnsta kosti þrír, hafa talað með þeim hætti að þeir virðast sömu skoðunar, og flestir hagfræðingar sem hafa tekið til máls um málið.

Það breytir ekki hinu að ég tel að Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin sé um það bil að renna út á tíma. Mér finnst með ólíkindum hve ríkisstjórnin hefur verið sein á sér að reyna að fanga svigrúmið. Það verður ekki alltaf til staðar. Kröfuhafahópurinn er breytileg stærð. Samsetning hans breytist. Kröfurnar eru markaðsvara. Þær ganga kaupum og sölum á markaði. Ef í ljós kemur að ríkisstjórnin ætlar að bíða og bíða og bíða þá breytist kröfuhafahópurinn.

Við sáum í fréttum um daginn að þegar stór erlendur banki seldi kröfur sínar, á miklu lægra verði en hann hafði talið þær til í sínum bókum, komu nýir kröfuhafar inn. Það eru kröfuhafar sem eru hinir alvöru hrægammasjóðir. Það eru ekki hefðbundnir vogunarsjóðir. Það eru hrægammasjóðir. Sjóðir eins og þeir sem voru fyrir tveimur mánuðum að kreista 110 milljarða út úr argentíska ríkinu eftir 14 eða 15 ár, sem fyrr á þessu ári, á miðju sumri, kreistu hærri upphæð út úr örsnauðasta ríki heims, Mið-Afríkulýðveldinu. Það eru hrægammasjóðirnir sem bíða eftir því að ríkisstjórnir standi við hótanir sínar um að gera búin gjaldþrota. Þá opnast ormagryfja málaferla sem getur staðið lengi. Þeir veðja sínum peningum á það.

Þess vegna óttast ég að ríkisstjórnin sé að tapa miklum tíma.

Þegar ég las það fyrir nokkrum dögum í Kjarnanum, því merka riti, þar sem upplýst var um fjórar sviðsmyndir sem blaðamenn Kjarnans höfðu komist yfir úr fórum kröfuhafa, rak mig í rogastans þegar ég sá að ein þeirra gerði bókstaflega ráð fyrir því af hálfu kröfuhafa að þeir í upphafi máls væru tilbúnir að skilja eftir 75 milljarða. Þetta er staðan við upphaf samninganna. Ég taldi að það yrði aldrei meira sem hægt yrði að ná út úr þessu en hugsanlega réttum megin við 150 milljarða, en ef þetta er upphafsstaðan, hvað geta menn gert í hörðum samningum?

Ég tel hugsanlegt að ríkisstjórnin sé að missa af því sem var aðalleið Framsóknarflokksins til að skapa þetta fjármagn. Þá er eftir leið B, leiðréttingasjóðurinn sjálfur, sem upplýst er að hefur varla verið ræddur á millum stjórnarflokkanna, en vitað er að til þyrfti að koma lántaka ríkisins sem svarar til hans, upp á einhverja 150 milljarða til að kosta 18–20% af niðurfærslu af lánunum. Það er hugmyndin sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra, hefur kallað vangaveltur. Það er hugmynd sem Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei fallast á.

Ég óttast að ríkisstjórnin sé með aðgerðaleysi sínu — ég vil ekki kalla það dugleysi, það er ekki hægt að segja það svo snemma á kjörtímabilinu — hvort tveggja í senn að draga úr möguleikunum á því að hægt sé að ganga til skynsamlegra samninga við kröfuhafana og um leið er hún að skapa óvissu. Hún er að skapa óvissu fyrir þennan hóp sem undir er og er andlag þessa þingmáls. Hún er líka að skapa mikla óvissu í atvinnulífinu, óvissu hjá fólki.

Ég held að það sé þessi núningur millum stjórnarflokkanna og þetta ákvörðunarleysi og þessi augljósi skortur á samstilltu átaki þeirra sem hefur leitt til þess til dæmis að væntingavísitalan hefur lækkað verulega skart. Ég segi það nú bara af því ég vil minni þjóð vel. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn eigi að hraða sér til aðgerða í þessu máli.

Ég ætla alla vega að láta það vera spásögn mína í þessari ræðu, og hef ekki alltaf rétt fyrir mér, en ég er um það bil sannfærður, að eins og ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli mun hún ekki klára það að koma fram með tillögur sem ríkisstjórnin er samstillt um fyrir áramót. Það mun líða langt fram á næsta ár áður en menn sjá hvort þeim tekst yfir höfuð að verða sammála um það. Mér sýnist og reynslan leiðir það síðan fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að ná yfirhöndinni í þessum núningi á millum stjórnarflokkanna tveggja. Menn skulu ekki gleyma því að um þetta mál var ríkisstjórnin mynduð. Hvað gerir Framsóknarflokkurinn þegar sjálfstæðismenn spyrna fast við fótum og segja: Nei, hingað og ekki lengra? Mér fannst sem hæstv. fjármálaráðherra væri að spila út fyrsta kortinu sínu í viðtalinu við Bloomberg í gær.

Varðandi þetta þingmál segi ég eins og 1. flutningsmaður þess: Látum bara á það reyna hvort þingið er þessu sammála.

Ef hjartalag annarra sjálfstæðismanna er í samræmi við það sem birtist hér í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar óttast ég ekki um niðurstöðuna. Þá verðum við að sjá hvort Framsóknarflokkurinn lætur sitt eftir liggja í fullmikilli kreddutrú á sínar eigin lausnir sem hann er sjálfur að missa takið á.