145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér leggur maður ekki upp með það að fólk ætli sér að vera spillt. Ef við horfum til þeirra varnaðarorða sem mér skilst að hafi komið fram í utanríkismálanefnd þegar málið var til umfjöllunar er ástæða til að stíga að minnsta kosti varlega til jarðar. Það sem ég hef sagt um þetta mál er að gagnsæið eykst ekki, það er alveg klárt mál. Hér hafa verið gerðar árangursríkar mælingar á starfseminni. Ráðuneytið hefur ekki flaggað slíku í öðrum þeim verkefnum sem það hefur haft með höndum þannig að það eykur að minnsta kosti tortryggni svo við tökum ekki dýpra í árinni en svo. Þegar menn eru orðnir fjarlægari vettvangi gætu líkurnar á því líka aukist að velja annars konar verkefni en þau sem það fólk sem núna og til undanfarinna ára hefur sinnt þessum störfum mundi leggja áherslu á, m.a. eins og hér kom fram í einhverjum tilteknum einkafyrirtækjum. Auðvitað hefur maður heyrt að það sé eitt af því sem þeir sem starfa við þetta hafi áhyggjur af. Hér hefur margítrekað verið rætt um að ekkert annað mæli með því að þetta sé gert en einhver ætluð samlegð sem gæti allt eins verið á hinn veginn, þ.e. að aukin verkefni yrðu færð út í Þróunarsamvinnustofnun fremur en að draga þau inn í ráðuneyti og vera með enn þá meiri kröfur um eftirlit og gagnsæi en hér er. Eins og ég segi ætla ég ekki að gera fólki upp spillingu en ógagnsæið verður enn meira en orðið er og armslengdin verður klárlega ekki til staðar eins og Ríkisendurskoðun bendir á.