145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höfum rætt þetta mál um hríð og eins og oft er þegar við gefum okkur tíma til að ræða mál þá skerpast línur. Því miður er það þannig að stjórnarflokkarnir hafa ekki verið sérlega iðnir við að taka þátt í þessum umræðum, raunar bara flutningsmaður málsins, utanríkisráðherra sjálfur, og svo hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem sagði svo eftirminnilega að það væri óþarfi að skakast til með stofnanir nema fyrir því lægju sérstök rök.

Þegar við erum búin að ræða þetta um hríð finnst mér þrennt standa upp úr. Í fyrsta lagi það hver meginstrúktúr stofnanauppbyggingar og íslenska Stjórnarráðsins er. Viljum við hafa stór ráðuneyti sem fara með alls kyns fagleg málefni eða viljum við hafa minni ráðuneyti og stofnanir? Í hvaða átt erum við að hreyfa Stjórnarráðið og stofnanirnar, því að eins og ríkisstjórnin hefur haldið utan um þau mál er engin stefna í þessu. Hér er lagt til að stofnun sé sett inn í ráðuneytið á meðan við vorum að afgreiða í fyrravetur tillögu hæstv. menntamálaráðherra um að taka verkefni úr ráðuneyti og setja út í stofnanir. Hér er því alger glundroði og stefnuleysi á ferð, sem kemur í sjálfu sér ekki á óvart því að oft hefur maður orðið þess áskynja að það skorti heildarsýn og einhvers konar utanumhald og verkstjórn þegar þessi ríkisstjórn er annars vegar, en fyrir þetta verður ráðherrann að svara. Hann verður að svara fyrir þetta og verkstjóri ríkisstjórnarinnar verður líka að svara fyrir það að það hlýtur að vera óráð og illa farið með mannauð og fjármagn að skakast til með stofnanir í einhvers konar tilviljanakenndum ákvörðunum og stefnuleysi. Þetta er mikilvægt mál, þetta er meginatriði, þetta er atriði sem ætti að hvíla á ígrundaðri stefnumörkun og auðvitað allra helst stefnumörkun sem lifir af kosningar og kjörtímabilaskipti, ríkisstjórnaskipti, þar sem við værum nokkurn veginn sammála um það hvernig við vildum sjá íslenska Stjórnarráðið og stofnanir þess þróast.

Það er ekkert í inntaki eða pólitískri stefnumörkun sem gerir kröfu um að eitt módel sé þar ofan á frekar en annað. Þess vegna er þetta viðfangsefni sem við ættum að sammælast um frekar en vera að skakast til með stofnanir.

Í öðru lagi er afar mikilvægur þáttur sem hefur verið vanreifaður af hendi hæstv. ráðherra, og ég sakna þess raunar að hann taki ekki þátt í umræðunni, sem er einfaldlega krafan um það að tillagan sé rökstudd. Það þætti engum mikið að gera þá lágmarkskröfu að tillaga sem þessi væri studd efnislegum, faglegum og sterkum rökum. Svo er ekki. Það sem verra er er það að hér eru dregin upp rök sem virðast vera sýndarrök, sem virðast vera einhvers konar tilbúningur til að undirbyggja tillögu og það sem verra er er það að rökstuðningurinn einkennist af dylgjum ráðherrans sjálfs gagnvart eigin stofnun. Það á engin stofnun að þurfa að sitja undir slíku af hendi ráðherra síns. Það er gott og eðlilegt að stofnun búi við öflugt samtal við ráðherra sinn um verksvið stofnunarinnar en að ráðherrann leyfi sér að setja fram á þingskjali, og ekki bara einu sinni, ekki einungis þegar hann mælir fyrir málinu á 144. löggjafarþingi í fyrra heldur aftur núna, beinlínis dylgjur um það að Þróunarsamvinnustofnun sé ekki í takt við utanríkisstefnu Íslands, að Þróunarsamvinnustofnun sé ekki samstillt annarri stefnumörkun Íslands í utanríkismálum og að Þróunarsamvinnustofnun tali annarri röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi en ráðuneytið og ráðherrann gerir. Við þetta voru gerðar verulegar og umtalsverðar athugasemdir á síðasta þingi og ég taldi satt að segja að ráðherranum væri ekki stætt á því að undirbyggja mál sitt í hið annað sinn með dylgum. Mér finnst það óboðlegt. Mér finnst gjörsamlega óboðlegt að ráðherra geri það.

Í tillögunni segir að það náist betri heildarsýn á málaflokkinn og betur verði tryggt að stefnu Íslands í málaflokknum sé framfylgt. Af því má gagnálykta að nú sé það svo að vegna þess að Þróunarsamvinnustofnun er sjálfstæð stofnun sé stefnu Íslands í málaflokknum ekki framfylgt. Það gengur ekki að ráðherra komi fram með svona tillögu, sem er undirbyggð með slíkum rökum, án þess að standa fyrir máli sínu gagnvart Alþingi. Mér finnst það stjórnarmeirihlutanum til álitshnekkis, að ég segi ekki skammar, ef það er svo að meiri hluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks skila sér á já-ið í borðunum þegar kemur að því að greiða atkvæði um þetta mál og láta sér það í léttu rúmi liggja að hér sé gervirökstuðningur ráðherra látinn duga á prenti.

Í þriðja lagi vil ég segja, og þá erum við kannski komin meira að málefnum dagsins: Hér er verið að leggja til breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, sem eru lög nr. 121/2008. Á þessum að mörgu leyti átakatímum í íslenskum stjórnmálum var þetta það frumvarp sem náðist þverpólitísk samstaða um, menn lögðu á sig vinnu til að ná slíkri niðurstöðu. Af hverju var það? Vegna þess að það skiptir máli fyrir sjálfsmynd þjóðar að málaflokkur sem þessi sé undir þverpólitísku flaggi, að menn leitist við að stilla ágreining og ná utan um þann sameiginlega tón sem við þrátt fyrir allt búum yfir sem erum íbúar í þessu landi. Það gildir sem sé um þróunarsamvinnu, þ.e. um skipulag alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á Íslandi samkvæmt lögunum frá 2008. Þetta er eftirsóknarvert. Það er eftirsóknarvert að ná þverpólitískri samstöðu um svona mál.

Það víkur síðan huganum aftur að þessari stöðu. Við vorum hér nokkrir þingmenn á fundi vegna frumvarps til nýrra útlendingalaga því að þegar hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem nú er formaður utanríkismálanefndar, var innanríkisráðherra taldi hún það mikilvægt fyrir málaflokk útlendinga, fyrir þann mikilvæga málaflokk sem kallar á sífellt meiri athygli eftir því sem árin líða, að kalla þar saman fulltrúa og þingmenn úr öllum flokkum og ekki þingmenn úr öllum flokkum í samræmi við þingstyrk, ekki fyrir fram meiri hluta þingmanna úr stjórnarflokkunum, nei, heldur rödd úr hverjum þingflokki sem eiga þingmenn á Alþingi Íslendinga, sex fulltrúa, jafn marga Pírata og framsóknarmenn, jafn marga úr Bjartri framtíð og sjálfstæðismenn, einn úr hverjum flokki. Af hverju? Vegna þess að hv. þingmaður og þáverandi hæstv. ráðherra taldi mikilvægt fyrir málaflokkinn að leiða þessar raddir saman og freista þess að finna samhljóm. Það var það. Við erum sannfærð um það sem sitjum í nefndinni að þetta hafi verið gæfuspor, að það hafi verið mikilvægt. Við erum komin býsna nálægt því að vera komin með tilbúið frumvarp til að leggja fyrir Alþingi, sem hæstv. ráðherra Ólöf Nordal mun væntanlega gera síðar í haust. Þegar hæstv. ráðherra Ólöf Nordal tekur við keflinu af hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttir vill hún að við höldum því verki áfram. Umboðið er skýrt, verkefnið klárt og við höldum vinnunni áfram. Af hverju? Vegna þess að menn voru sammála um það að þetta væri svo dýrmætt og mikilvægt verkefni að það bæri að leiða til lykta undir þverpólitísku flaggi.

Svo gerist það að hér kemur hæstv. utanríkisráðherra með mál sem er grein af sama efnislega meiði, þ.e. mál Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, en fer þó fram í hefðbundinni meirihluta-/minnihlutanálgun eða þeirri að leggja fram frumvarp sem er illa undirbyggt, vanreifað og illa rökstutt í trausti þess að hann fái meiri hlutann með sér þegar þar að kemur. Þetta gerir hann í stað þess að leiða málið fram í farsælan þverpólitískan farveg, sem hann ætti að gera.

Nú hef ég ákveðna samúð með hæstv. ráðherra sem kom fram með þetta mál hér fyrir ári. Því var lokið og afgreitt út úr nefnd fyrir ári og með meirihlutaáliti og minnihlutaáliti. Það var ágreiningur um málið. Ég hef samúð með því að ráðherra telji að núna eigi hann bara að taka aðeins lengra tilhlaup og reyna að koma því í gegnum þingið aftur. En ég bið hæstv. ráðherra og formann utanríkismálanefndar að setjast nú niður yfir þetta mál með okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar, sem öll sem eitt höfum lýst því yfir að við viljum leiða þetta til farsælla lykta í þeim anda sem önnur sambærileg verkefni hafa verið unnin. Bíðum eftir rýninni frá DAC. Hvað er það sem liggur á? Hvað er það sem liggur á að við geymum spurninguna um það hvað þarf að laga og hvað er bilað, látum hana eiga sig? Virðulegur forseti, hvað liggur á? Af hverju getum við ekki sammælst um það að ljúka því að fara yfir jafningjarýni frá DAC og hún verði síðan kynnt utanríkismálanefnd Alþingis og nefndin nálgist mögulegar breytingar í samráði við utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið, í samræmi við athugasemdir DAC? Hvað mælir á móti því?

Ég vil vona að við náum landi með þetta mál með þessari aðferð, með þessari nálgun. Það er ekki skynsamlegt að fara fram á þennan hátt, með lokuð augun. Við höfum ágætisleiðsögn úr rannsóknarskýrslu Alþingis eftir bankahrunið þar sem talað var um að mikilvægt væri að hlusta eftir faglegum röksemdum þegar stórar ákvarðanir væru teknar og að við ættum að forðast ráðherraræði í stórum ákvörðunum, að við ættum að gera það, að við ættum að leyfa Alþingi að taka umræðuna og ef til vill að færa efnislega niðurstöðu málsins til betri vegar. Ég vil vona að það verði raunin í þessu máli og nú þegar við förum að sjá fyrir endann á umræðunni mundi ég fagna því að hæstv. ráðherra tæki einn lokasnúning á umræðunni og yrði samferða okkur sem höfum rætt málið í þaula, okkur í stjórnarandstöðunni sem höfum rétt út sáttarhönd með það að markmiði að þróunarsamvinna á Íslandi sé til sóma í hvívetna.