150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[15:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Tilefni þessa máls þykir mér heldur dapurlegt. Málið er, eins og hæstv. ráðherra sagði, kannski flóknara en ella þar sem ómögulegt er að segja hverjar lyktir verða í samningum Breta — eða samningsleysi — við Evrópusambandið og því alveg hárrétt að varasamt sé að bíða fram á síðustu stundu þar sem ekki er vitað hvort þetta leysist fyrr en bara þá. Það er ekki langt síðan hæstv. utanríkisráðherra talaði um þau tækifæri sem fælust í væntanlegri útgöngu Breta úr ESB og stillti sér nokkuð glaðbeittur upp við hlið Borisar Johnsons, þáverandi utanríkisráðherra Breta, og talaði um að Bretar væru að ganga í gegnum afar spennandi tíma umbreytinga.

Nú er auðvitað minna talað um þau tækifæri og á hversu spennandi tímum Breta séu. Vonandi farnast þeim sem best, sama hvernig málum lyktar. En það er meira talað um pólitíska ringulreið og efnahagslegan óstöðugleika. Síðustu mánuðir hafa, svo maður segi það alveg eins og það er, dregið fram verstu hliðar þings þessarar ágætu vinaþjóðar okkar. Við höfum ekki farið varhluta af því. Við höfum þurft að vera á tánum. Bein útgjöld utanríkisráðuneytisins vegna Brexit hafa verið um 30 millj. kr. á ári, minnir mig, síðustu ár til þess að ná þeim samningi sem við erum að fara að ræða og á að tryggja réttindi íslenskra borgara og fyrirtækja og reyndar breskra borgara hér. Það er því verið að gera ráðstafanir til að tryggja ásættanlega stöðu, fari Bretar út, með eða án samnings. Fari svo að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án útgöngusamnings gæti Ísland verið meðal þeirra þjóða sem tapa einna mest á því, samkvæmt skýrslu, að Bretum sjálfum undanskildum. Samkvæmt Seðlabankanum gæti Brexit þýtt 0,5% samdrátt í landsframleiðslu hérlendis.

Ég fagna þó þessu nauðsynlega og mikilvæga skrefi. Það er alveg sjálfsagt að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru vegna útgöngunnar og mér þykir rétt að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá vinnu sem hann og starfslið utanríkisráðuneytisins hafa unnið á síðustu mánuðum. Það er alveg tilefni til þess. Auðvitað er létt að vera vanþakklátur og leiðinlegt að ekki hafi náðst samningur á breiðari grunni og um betri tollakjör en það held ég að sé ekki neitt sem Ísland gat gert við. Bretar eru í gríðarlega erfiðum aðstæðum og mjög skiljanlegt að ekki hafi verið opnað á slíkt. Ég hvet ráðherra til að vera áfram í góðu sambandi við þessa vinaþjóð okkar og mikilvægu viðskiptaþjóð, að ég tali ekki um allt það góða menningarsamband sem við eigum við hana. Ég tel mikilvægt að ráðherra flýti viðræðum um framtíðarsamning eins og auðið er því að ég tel að þetta sé, úr því sem komið er, frekar spurning um hvernig Bretar slíti sig frá Evrópusambandinu en hvort, þó að ég hafi fram á síðustu stundu vonast eftir annarri atkvæðagreiðslu sem hefði þá verið um raunverulega valkosti, annars vegar samning og hins vegar útgöngu. Ég er orðinn svartsýnni á það.

Mér finnst, herra forseti, í lokin að við eigum við að nota þetta mál, þ.e. ekki frumvarpið heldur Brexit-málið, sem áminningu um að það sé varasamt þegar stjórnmálaleiðtogar leika sér að fjöreggi og jafnvel framtíð heillar þjóðar í flokkspólitískum tilgangi og til að róa öldur. Ég held við eigum líka að nota það sem áminningu um að þetta er ekki leiðin til að fara, að reisa múra um eigin landamæri, einangra sig, slíta sig frá samvinnu og freista þess að ná fram tvíhliða samskiptum. Við stöndum frammi fyrir þannig áskorunum, loftslagsmálunum, fátækt, vaxandi ófriði í heiminum, vaxandi lýðskrumsöflum, að við höfum ekki aðra valkosti en að þétta raðirnar og efla enn fjölþjóðleg tengsl og samvinnu. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er mér sammála um það og ætla að ljúka þessu á að þakka honum aftur fyrir að hafa þó staðið vaktina í þeirri nauðsynlegu vinnu sem lá fyrir.