150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kýs að orða það þannig að við eigum að eiga miklu meiri samskipti hvert við annað. Svo eru viðskipti stakmengi í þeim samskiptum vegna þess að lífið snýst ekki bara um bensín, sígarettur og viskí, við þurfum líka að reyna að deila mannúðlegri hugmyndafræði og bera boðskapinn áfram. Ég held að í fríverslunarsamningum milli tveggja ríkja sé kannski vafasamara fyrir litla þjóð eins og Ísland að reiða sig of mikið á þá. Bretar geta í krafti styrkleika síns væntanlega vænst meira út úr slíku samstarfi en við. Ég held að okkur muni farnast betur í stærri einingum og ég held að gríðarlega mikilvægt sé að Evrópa taki sér stöðu í þeirri veröld sem við búum í núna þegar átökin eru ekki milli tveggja póla heldur eru margpóla og síbreytileg. Hugsið ykkur skák. Það er nógu einfalt að skilja leikinn og hugsa marga leiki fram í tímann þegar tveir eru að tefla en hugsið ykkur ef fjórir eða sex eða átta væru að tefla og einn leikur hefði ekki einungis áhrif á andstæðinginn heldur alla hina líka. Þannig er heimurinn í dag.

Að því sögðu óska ég Bretum velfarnaðar á þeirri vegferð sem þeir hefðu betur aldrei lagt upp í. Kannski rætist sú veika von mín að eitthvað ótrúlega óvænt gerist og breska þjóðin fái aftur tækifæri til að taka ákvörðun: Vilja þeir samning sem liggur á borðinu eða vilja þeir vera áfram í því umhverfi sem þeir eru? Ekki eins og þeir neyddust til að gera, velja á milli ekki neinna kosta.