150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu um þetta frumvarp til laga um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrst vil ég segja að það hefur ágætlega verið haldið á þeim málum að ég tel hjá utanríkisþjónustunni og ráðherra og menn hafi reynt að girða eins mikið fyrir upphlaup eða slys sem geta alltaf orðið þegar svona stórt verkefni er fram undan. Á sama tíma verður maður hins vegar að leyfa sér að segja að það er hreint með ólíkindum að sjá hvernig Bretar sjálfir hafa haldið á málinu. Það hefur ekki tekist að haga málum þannig að bæði þing og þjóð geti staðið að baki þeirri ákvörðun sem þjóðin tók. Það er ótrúlegt að heyra þingmenn, hvort sem það er á Íslandi eða Bretlandi, segja að þjóðin verði að taka aðra ákvörðun, réttari ákvörðun. Þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að fara þessa leið og því er svolítið skrýtið að sjá þingmenn í Bretlandi reyna að fara gegn þeim vilja þjóðarinnar.

Á sama tíma er hreint með ólíkindum að sjá svo öflugt fyrirbæri sem Evrópusambandið er reyna allt sem það getur til að gera það eins erfitt fyrir Breta og hægt er að segja slitið við þetta samband. Það fær mann til að velta því fyrir sér hvers konar samband sé þarna á ferðinni. Til hvers er Evrópusambandið? Er það ekki í grunninn til að virða vilja ríkja og vilja þeirra sem eru kjörnir til starfa eða sitja innan sambandsins? Er þetta einhvers konar sjálfalið ferlíki sem gerir í rauninni bara það sem því sýnist?

Ég held að vandamálið sem upp er komið sé af tvennum toga, það er vandræðagangur heima fyrir í Bretlandi og það er ólýsanleg bíræfni má kalla af hálfu Evrópusambandsins gagnvart Bretum í því máli. Þar af leiðir að mikilvægara er en nokkru sinni að vel sé haldið á stöðu Íslands þegar kemur að slitum og að vel sé haldið á spöðunum þegar endanlega verður bundið um alla hnúta þegar kemur að samstarfi okkar við Breta í framtíðinni. Það er ekki nóg með að Bretar séu ein okkar mesta viðskiptaþjóð, þeir eru líka nágrannar okkar og bandamenn. Auðvitað hefur á ýmsu gengið í gegnum tíðina eins og við vitum þegar kemur að Bretum, það er ekki alltaf sólskin og blíða í samskiptunum. Það er hluti af því að vera í alþjóðasamfélaginu og við eigum ekkert að flýja það. En við eigum miklu meiri hagsmuni með Bretum en á móti þeim. Það er akkúrat það sem ég held að Evrópusambandið eigi líka, það eigi miklu meiri hagsmuni af því að vinna með Bretum, að leysa þau mál í stað þess að reyna að þvælast fyrir í öllu sem því dettur í hug.

Það hefur verið svolítið undarlegt að fylgjast með þessu máli á þeim tíma sem það hefur tekið. Það verður að segjast eins og er að það verður forvitnilegt, ég ætla ekki segja að það sé tilhlökkunarefni en það er pínu spennandi, að sjá hvernig hlutirnir þróast á næstu vikum og mánuðum, hvernig heimamenn, ætla ég að leyfa mér að segja, munu taka á sínum málum. Það er vitanlega erfitt að standa í svona slitum á sambandi eða hverfa frá slíku bandalagi ef sveitin heima fyrir er, ég vil leyfa mér að segja eins og menn segja í sveitinni, eins og hænur á haug, menn fljúga í allar áttir og vita ekkert hvert þeir eiga stefna. Ég held að breskum stjórnvöldum hafi mistekist að fá fólk og stjórnmálin á bak við sig. Um leið bera þeir mikla ábyrgð í Bretlandi sem hafa gert allt sem þeir hafa getað gert til að leggja stein í götu þess að Bretar komist með sæmd út úr því rugli sem Evrópusambandið er.

Virðulegur forseti. Eitt er alveg ljóst eftir þetta allt saman: Ef Ísland átti einhvern tímann ekki að ganga í Evrópusambandið er það núna.